NÁUM HAGSTÆÐUM SAMNINGI

Leiðari Íslensks iðnaðar í ágúst 2010

27. ágú. 2010

  • Stjórn 2009 Helgi

Full ástæða er til að fagna samþykkt ráðherraráðs Evrópusambandsins frá í júlí um að hefja viðræður við Ísland um aðild okkar að ESB. Aðild Íslands að ESB og upptaka evru sem gjaldmiðils í stað krónu hafa verið á stefnuskrá Samtaka iðnaðarins um árabil.

NÁUM HAGSTÆÐUM SAMNINGI

Full ástæða er til að fagna samþykkt ráðherraráðs Evrópusambandsins frá í júlí um að hefja viðræður við Ísland um aðild okkar að ESB. Aðild Íslands að ESB og upptaka evru sem gjaldmiðils í stað krónu hafa verið á stefnuskrá Samtaka iðnaðarins um árabil.

Þess er vænst að hagsmunaaðilar og stjórnvöld taki höndum saman um að vanda allan undirbúning vegna samningaviðræðnanna með það að markmiði að ná sem hagkvæmustum samningi við ESB. Mikilvægt er að ljúka því ferli sem hafið er með hagstæðum samningum fyrir allar atvinnugreinar og almenning á Íslandi þar sem hagsmuna Íslendinga verði gætt í hvívetna.

Einhverjir stjórnmálamenn hafa látið sér til hugar koma að heppilegast væri fyrir Íslendinga að draga aðildarumsóknina til baka og hverfa frá því samningsferli sem hafið er. Það væri afar óskynsamlegt og yrði ekki til annars en að rýra álit á landsmönnum á alþjóðavettvangi enn frekar en orðið er.  Íslendingar yrðu sér til minnkunar með slíku framferði enda verður því tæplega trúað að stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega muni halda slíku fram þegar á reynir.

Stjórnmálamenn, stjórnsýslan og fulltrúar hagsmunaaðila á ýmsum sviðum þjóðfélagsins þurfa að sýna ábyrgð, sameina krafta sína og standa saman um að ná sem hagstæðustum samningi við Evrópusambandið.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu mun svo þjóðin hafa síðasta orðið.

Eru unnendur lýðræðis nokkuð hræddir við það?

ER BOTNINN HEPPILEGUR ÁFANGASTAÐUR?

Fjármálaráðherra hefur birt fjölda blaðagreina til að gleðja okkur landsmenn og freista þess að sannfæra okkur um mikinn árangur af störfum núverandi ríkisstjórnar.

Ástæða er til að gleðjast með ráðherranum yfir því sem jákvætt er eins og þeirri staðreynd að vextir hafa lækkað verulega, krónan hefur styrkst og hafnar eru viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um aðild Íslands.

Nefnt er að atvinnuleysið er ekki eins mikið og svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Það gleður ekki nægilega. Á meðan meira er 13 þúsund manns eru án atvinnu yfir hábjargræðistímann að sumri, er ekki ástæða til að gleðjast. Þá má ekki gleyma þeim þúsundum sem hafa horfið af vinnumarkaði og flutt úr landi. Þar er bæði átt við Íslendinga sem hafa haldið til nágrannalandanna í atvinnuleit og einnig hefur brotthvarf útlendinga verið umtalsvert.

Þá má ekki gleyma því að við þurfum að skapa um tvö þúsund ný störf hér á landi  á ári næstu 10 árin og það gerist ekki af sjálfu sér. Því er grátlegt að horfa upp á ítrekaðar tafir og seinkanir vegna stórra fjárfestinga sem skapað gætu þúsundir starfa.

Þá hafa ráðamenn fagnað því sérstaklega „að botninum sé náð“. Vissulega eru Íslendingar nú á botninum. En er það eftirsóknarvert? Er líklegt að við séum eitthvað á leið af botninum með núverandi atvinnustefnu, skattastefnu og fjárfestingarstefnu stjórnvalda? Svarið við því er nei.

Því verður ekki trúað að botninn sé talinn áhugaverður áfangastaður til langframa.