Þjónusta fyrir iðnaðinn í landinu

Leiðari Íslensks iðnaðar í september 2010

1. okt. 2010

  • orri_hauksson

Það er margt sem brennur á iðnaði á Íslandi, núna þegar tvö ár eru liðin frá upphafi óvenjulega djúprar efnahagslægðar. Um 13 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá í landinu. Verklegar framkvæmdir hafa skroppið saman, raunar langt umfram það sem eðlileg aðlögun að snöggkældum efnahag landsins hefði átt að kalla á.

Starfsemi Samtaka iðnaðarins er fjölbreytileg. Við eigum aðild að þremur ólíkum menntastofnunum, Iðunni, Háskólanum í Reykjavík og Tækniskólanum, og erum stolt af því margvíslega menntunarúrvali sem þar er í boði fyrir atvinnulíf og einstaklinga. Við störfum beint með einstökum aðildarfélögum og starfsgreinahópum í því sem efst er á baugi hjá fyrirtækjunum hverju sinni. Til að mynda veita sérfræðingar Samtakanna ráðgjöf um umhverfistækni, lagaleg atriði, fjármögnun, gæðamál, framkvæmdafræði, nýsköpun og hagræna þætti. Við tökum þátt í samningahópum í aðildarferli Íslands að ESB og leggjum í því starfi þunga áherslu á hagsmuni einstakra iðngreina. Við stundum kynningarstarf og bjóðum hinum ólíku starfsgreinum iðnaðarins upp á eigin vettvang innan SI til að vinna að sérhæfðum hugðarefnum sínum. Við erum stærsta aðildarfélag Samtaka atvinnulífsins og búum þau undir kjarasamninga vetrarins með aðildarfélögum okkar. Við veitum umhverfi okkar aðhald, s.s. ríkisstjórn, ráðuneytum, löggjafanum, eftirlitsstofnunum, sveitarfélögum og fjármálafyrirtækjum.

Það er margt sem brennur á iðnaði á Íslandi, núna þegar tvö ár eru liðin frá upphafi óvenjulega djúprar efnahagslægðar. Um 13 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá í landinu. Verklegar framkvæmdir hafa skroppið saman, raunar langt umfram það sem eðlileg aðlögun að snöggkældum efnahag landsins hefði átt að kalla á. Hálfköruð hús víðs vegar um höfuðborgarsvæðið eru skýr birtingarmynd þessa ástand. En það þarf að ljúka gerð þessara mannvirkja – og raunar er talsverð þörf umfram framboð af vissri tegund húsnæðis, s.s. litlum og ódýrum íbúðum. Hið opinbera hefur jafnframt lengi boðað að hefja skyldi hið fyrsta arðbærar framkvæmdir sem eru á döfinni hvort sem er. Lífeyrissjóðir hafa boðist til að lána til slíkra aðgerðum. Enn er beðið eftir ákvörðunum.

Aðrar greinareiga við allt önnur vandamál að stríða en mannvirkjageirinn. Tölvuleikjaframleiðendur og ýmis önnur hátæknifyrirtæki hafa vart undan að stækka og fá ekki fólk við sitt hæfi. Þetta er sannkallaður velmegunarvandi. SI hafa í samstarfi við menntastofnanir og Vinnumálastofnun hafið átak sem miðar að því að koma fólki af atvinnuleysisskrá í nám sem atvinnulífið þarfnast. Þetta er þarft verkefni en alls engin töfralausn fyrir núverandi stöðu, það tekur tíma og þarfnast þolinmæði. Til langs tíma þarf menntakerfið sjálft að veita atvinnulífinu þá þjónustu og þá menntuðu starfskrafta sem það þarfnast.

Hin ólíku vandamál milli iðngreina lýsa glöggt því ósamhverfa ástandi sem ríkir. Fyrirtæki sem treysta á útflutning og fá greitt í erlendum gjaldeyri hafa mörg hver náð vopnum sínum eftir bankahrun, en innlend eftirspurn er svo daufleg að fáar íslenskar krónur koma í kassa þeirra sem selja vörur sínar og þjónustu hér heima.

Þar við bætast ýmsir sértækir fingurbrjótar. Þar má nefna gjaldeyrishöftin sem valda fjölmörgum sprotafyrirtækjum erfiðleikum við að tryggja erlent áhættufé, sem er í boði. Á innlendum fjármálamarkaði eru enn allt of háir raunvextir og bankar halda að sér höndum, þótt yfirfullir séu af fé. Afturganga vörugjalda og annarra skattahækkana á innlenda starfsemi setur hana reglulega í uppnám. Óvissa með úrlausn gengislánanna eykur enn á tafirnar og sú pólitíska ósamstaða sem ríkir í landinu eykur á þyngslin í atvinnulífinu.

Samtök iðnaðarins vilja taka frumkvæði í að aðstoða félagsmenn sína. Við lítum á það sem okkar verkefni að uppræta vítahringi í efnahagslífinu, leiða saman fjármagn og arðbær verkefni og ýta úr vegi hindrunum þar sem það er hægt. Nú blasir við Samtökunum nýr veruleiki í fjármögnun. Iðnaðarmálagjaldið hefur verið lagt af og Samtökin verða að vinna þétt með félagsmönnum sínum og að þörfum þeirra. Á því byggist samtakamáttur íslensks iðnaðar.

Sá sem þetta ritar hefur þá ánægju að vera að hefja starf fyrir iðnaðinn á Íslandi. Ég er fullur tilhlökkunar að vinna með starfsmönnum Samtaka iðnaðarins og reynslumiklum sérfræðingum þeirra í að veita félagsmönnum Samtakanna sem besta og víðfeðmasta þjónustu.

Samtök iðnaðarins hlakka til spennandi vetrar.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI