Leysum sköpunarkraftinn úr læðingi

Leiðari Íslensks iðnaðar í október 2010

25. okt. 2010

  • orri_hauksson

Sérhvern dag í meira en tvö ár hafa neikvæðar fréttir glumið í eyrum okkar. Ekkert lát virðist á frásögnum af skuld­um, skatta­hækkunum, gjaldþrotum, atvinnuleysi og nauðungarsölum. Sem betur fer er veruleikinn þó ekki svo einhliða.

Sérhvern dag í meira en tvö ár hafa neikvæðar fréttir glumið í eyrum okkar. Ekkert lát virðist á frásögnum af skuld­um, skatta­hækkunum, gjaldþrotum, atvinnuleysi og nauðungarsölum. Sem betur fer er veruleikinn þó ekki svo einhliða. Þótt það fari ekki hátt er fjölmargt í íslensku atvinnulífi sem gefur tilefni til bjartsýni. Fyrirtæki víða um land og í fjölbreyttum greinum eru að laga sig að síbreytilegum og erfiðum aðstæðum, breyta ógnunum í tækifæri og stunda nýsköpun í stóru og smáu.

Össur, Actavis og Marel eru dæmi um stórfyrirtæki á íslenska vísu, sem öll eru á fleygiferð. Sum fyrirtæki í líftækni, um­hverfistækni, upplýsingatækni og hönnun tölvuleikja búa við það velmeg­unar­vandamál að ná vart að ráða til starfa fólkið sem það þarfnast. En ný­­sköpun á sér ekki bara stað í sprota­fyrirtækjum, þótt þar sé hún augljóslega lífsspursmál. Nýsköpun er einnig sam­keppnisvopn í ráðsettari greinum, s.s. matvælaiðnaði, stóriðju, heilsurækt, húsgagnahönnun, hljóðverum, mann­virkjagreinum, plastiðnaði og þjónustu við orkuiðnað og sjávarútveg.

Nýsköpun er því ekki einhvers konar galdur sem eingöngu tölvufræðingar eða hátæknifyrirtæki stunda, heldur sífellt viðfangsefni, eins konar lífstíll fjölmargra fyrirtækja. Afraksturinn getur verið nýjar vörur, viðskiptaferli, framleiðsluaðferðir, gæðastjórnun, fjármögnun, umhverfis­mál, starfsmannastjórnun eða öryggis­atriði. Finna má urmul dæma úr íslensku atvinnulífi sem gefa góð fyrirheit um sköpun fleiri starfa og aukin varanleg verðmæti. 

Samtök iðnaðarins ætla ásamt félags­mönnum sínum og fjölmörgum sam­starfsaðilum að efna til átaks, sem heitir Ár nýsköpunar og mun það standa í heilt ár frá upphafi nóvember 2010. Markmið verkefnisins er að efla nýsköpun sem leið til endurreisnar í íslensku atvinnulífi, að kynna það sem vel er gert og hvetja sem flesta til dáða í verðmætasköpun. Þannig viljum við m.a. efla útflutning íslenskra fyrirtækja og festa í sessi samstarf um þróunarstarf á lykilsviðum. Þetta gerist m.a. í formi svokallaðra klasa og með þróun lausna fyrir opinbera innkaupaaðila. Þá viljum við auka fram­boð á fólki til ný­­sköpunarstarfa í fyrir­tækjum til langs tíma, treysta mennta- og þekkingarstig í atvinnulífinu. Við vilj­um vinna með fjár­málastofnunum í að leiðrétta ranga efnahagsreikninga í hag­kerfinu og með Seðlabankanum, eins og okkur er fært, í afnámi gjaldeyrishafta. Við viljum aðstoða fyrirtæki í að finna tækifæri í hinu alþjóðlega viðskipta- og fjármögnun­arumhverfi. Grundvallaratriði er enn­fremur að innlent stoðkerfi at­­vinnu­lífis­ins, skattkerfið og umhverfi fjárfestinga sé aðgengilegt, skýrt og traustvekjandi. 

Átakið Ár nýsköpunar mun eiga sér stað í formi opinna funda, með kynningu á félagsmönnum SI og þeim leiðum sem þeir hafa valið til að halda starfsemi sinni í framþróun. Það verða haldnar ráðstefn­ur og efnt til fjölmiðlaumfjöllunar. Unnið verður með hinu opinbera og að tillögu­gerð handan opinberrar umfjöllunar. Efnt verður til langtímaverkefna sem og aðgengileg markmið sett til skemmri tíma. 

Nú er lag að auka skilning á því hvern­ig framfarir verða til og hvernig verðmæti eru sköpuð.

Það þarf að halda áfram og leysa miklu meiri kraft úr læðingi og þá þarf um­­hverfi atvinnurekstrar og nýsköpunar að vera hagfellt og fyrirsjáanlegt.