Nýsköpun í matvælaiðnaði byggð á hefðum
Leiðari íslensks iðnaðar nóvember 2010
Matvælaframleiðendur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Lykillinn að sveigjanleika og aðlögun að sveiflukenndum aðstæðum er nýsköpun. Endurbætur á vörum, umbúðum, verkferlum og þjónustu er fyrirtækjum lífsnauðsynlegt til að halda samkeppnisstöðu á síbreytilegum markaði.
Matvælaframleiðendur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Í núverandi efnahagsástandi hafa íslenskir framleiðendur lagað sig að breyttum aðstæðum til að geta boðið vörur á lægra verði til að mæta þörfum neytenda. Á sama hátt þarf matvælaiðnaðurinn að vera viðbúinn að bregðast við aukinni eftirspurn og kröfum um verðmætari vörur þegar efnahagslífið réttir aftur úr kútnum. Lykillinn að sveigjanleika og aðlögun að sveiflukenndum aðstæðum er nýsköpun. Endurbætur á vörum, umbúðum, verkferlum og þjónustu er fyrirtækjum lífsnauðsynlegt til að halda samkeppnisstöðu á síbreytilegum markaði.
Nýsköpun byggist á þekkingu
Flest matvælafyrirtæki á Íslandi eru lítil eða í mesta lagi meðalstór í alþjóðlegum samanburði. Þau hafa takmarkaðan aðgang að sérfræðiþekkingu innan sinna eigin veggja og þurfa því að reiða sig á utanaðkomandi þekkingu til að geta stundað öfluga nýsköpun. Mikil krafa er gerð um hollustu og því þarf að taka tillit til ráðlegginga um mataræði. Og umfram allt þarf maturinn að vera bragðgóður. Því er mikilvægt að þau hafi aðgang að sérfræðingum með fjölbreytta þekkingu s.s á sviði vöruþróunar, næringar, framleiðslutækni og markaðssetningar.
Samstarf ólíkra fagsviða hvetur til nýsköpunar
Þróunarvettvangar á sviði matvæla byggjast á því að tengja saman þekkingu úr ýmsum greinum sem tengjast matvælaframleiðslu, s.s. matvælafræði, næringar, framleiðslutækni, rekstrar, markaðssetningar og stjórnsýslu. Þeir hafa það að markmiði að efla nýsköpun í matvælaframleiðslu til aukinna lífsgæða fyrir neytendur. Þróunarvettvangar á sviði matvæla á öllum Norðurlöndunum hafa unnið saman að því undanfarin tvö ár að skilgreina leiðir til að auka framboð hollra máltíða í skólum. Verkefnið hefur leitt í ljós að lykilatriði til að ná árangri er samstarf ólíkra fagsviða. Þekking iðnaðar, skólastjórnenda, matreiðslufólks, opinberra innkaupastofnana, lýðheilsuyfirvalda, foreldra og nemenda þarf að koma saman til að hægt sé að tryggja að börnum líki maturinn og hann sé jafnframt bæði næringarríkur og á viðráðanlegu verði.
Íslenskur matur um jólin
Senn líður að jólum og hver getur hugsað sér jólin án íslenskra matvæla? Hangikjöt og laufabrauð, flatkökur, smákökur, hamborgarhryggur, grænar baunir, rauðkál, kók og malt og appelsín. Þeim Íslendingum fer fækkandi sem muna eftir því þegar amma fór á fætur löngu fyrir dögun á laufabrauðsdaginn til að hnoða laufabrauðsdeigið svo stórfjölskyldan gæti sameinast í laufabrauðsskurði. Þegar mamma bakaði flatbrauð fyrir jólin og hangikjötið var sótt út í reykkofa á Þorláksmessumorgun. Fyrir flesta eru þessir tímar liðnir. Íslenskur matvælaiðnaður hefur leyst þessi heimilisstörf af hólmi. Það hefur ekki komið af sjálfu sér. Nýsköpun felst í því að laga heimilisiðnað fyrri tíma að nútímatækni og fjöldaframleiðslu. Framleiðsla kjötvinnslufyrirtækja á hangikjöti og hamborgarhrygg er byggð á hefðbundnum aðferðum en löguð að þörfum og smekk nútímafólks. Öflug og stórvirk brauðgerðarfyrirtæki hafa leyst ömmu af hólmi við að hnoða og fletja út laufabrauðið, samkvæmt aldagömlum uppskriftum, en fjölskyldur landsins geta enn sameinast við að skera það út eftir eigin hugmyndum. Fáir vildu vera án rauðkáls og grænna bauna með jólasteikinni en fæstir standa í því nú til dags að leggja í bleyti og sjóða grænar baunir eða sjóða niður rauðkál. Matvælaiðnaðurinn sér um það.
Kynnumst matvælaframleiðslu
Íslenskir matvælaframleiðendur taka höndum saman um að kynna íslenska matvælaframleiðslu í aðdraganda jólanna. Kjötiðnaðarmeistarar úrbeina hangikjöt í Vetrargarðinum í Smáralind fyrstu helgina í desember, sem kjötiðnaðarfyrirtækin gefa síðan mæðrastyrksnefnd til úthlutunar fyrir jólin. Kaffibrennslur taka á móti gestum á meðan starfsmenn þeirra pakka jólakaffinu sem síðan ratar inn á heimili landsmanna. Í bakaríum verður tekið á móti gestum með kaffi og smákökum svo fátt eitt sé nefnt.
Svo er fagþekkingu, nýsköpun og þróun í íslenskum matvælaiðnaði fyrir að þakka að við getum notið hefðbundins jólamatar með takmarkaðri fyrirhöfn.