Er bjart yfir?
Þótt raknað hafi úr ýmsum hnútum í efnahagslífi Íslendinga á árinu 2010 eigum við ennþá sorglega langt í land. Kreppan hefur staðið í 2 ár og fyrst um sinn verður hún ekki blásin formlega af. Ástæðan er sú að tíminn hefur verið notaður illa og í meginatriðum hefur verið fylgt rangri efnahagsstefnu.
Þótt raknað hafi úr ýmsum hnútum í efnahagslífi Íslendinga á árinu 2010 eigum við ennþá sorglega langt í land. Kreppan hefur staðið í 2 ár og fyrst um sinn verður hún ekki blásin formlega af. Ástæðan er sú að tíminn hefur verið notaður illa og í meginatriðum hefur verið fylgt rangri efnahagsstefnu. Í stað þess að standa fyrir djarfri vaxtarstefnu til að efla verðmætasköpun, vinna bug á atvinnuleysi og auka útflutningstekjur, hefur verið beitt harðri skattpíningarstefnu sem dregur mátt úr fólki og fyrirtækjum. Vantað hefur skýran vilja til að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar með markvissum og ábyrgum hætti. Þess í stað hefur tíminn farið í að deila um stefnumörkun varðandi nýtingu orkuauðlinda og fiskistofna.
Spyrja má hvort bjart sé yfir okkur Íslendingum. Tæplega verður því haldið fram af mikilli sannfæringu. Það væri mun bjartara yfir ef framsækinni uppbyggingarstefnu hefði verið fylgt síðustu 2 árin.
Leiðin út úr kreppunni liggur í gegnum markvissa verðmætasköpun. Verði henni ekki beitt munum við taka mörg ár í að fjalla um niðurskurð í opinberri þjónustu og hækkaðar skattprósentur á minnkandi skattstofna. Á meðan mun kreppan einungis dýpka og kjör þjóðarinnar versna. Við munum þá einnig missa fólk og dýrmæta þekkingu úr landi og þá verður enn erfiðara að endurreisa Ísland.
Samtök iðnaðarins vilja vöxt og hraða endurreisn. Við vitum að það ólgar mikill kraftur í fyrirtækjum okkar og fólki innan iðnaðarins. Enn er mikill baráttuhugur og vilji til að vinna sig út úr vandanum. Í þeim anda hafa samtökin efnt til átaksverkefnis sem snýst um að horfa fram á veginn og rífa sig upp úr svartnætti efnahagsmistaka og tímasóunar stjórnvalda.
ÁR NÝSKÖPUNAR
Hugmynd Samtaka iðnaðarins um Ár nýsköpunar hefur verið sérlega vel tekið, jafnt innan iðnaðarins sem og í öðrum atvinnugreinum og hjá samstarfsaðilum og stofnunum. Menn átta sig á því að nýsköpun er ekki bara bundin við sprotafyrirtæki eða hugverka-og tækniiðnað. Nýsköpun er að finna víðast hvar í atvinnulífinu. Hún þarf ekki að felast í því að innleiða nýjungar eða kynna uppfinningar heldur felst hún ekki síður í því að finna nýjar lausnir og bæta það sem fyrir er. Þetta gildir jafnt um framleiðsluvörur, þjónustu, tækni, aðferðarfræði, framleiðsluaðferðir, stjórnskipulag eða verklag við framleiðslu, sölu og markaðssetningu.
Það er víða mikill kraftur í nýsköpunarstarfi iðnfyrirtækja þó slík starfsemi dragi ekki að sér mikla athygli. Fjölmiðlum þykir yfirleitt brýnna að fjalla um það sem úrskeiðis hefur farið. Hér eru nefnd nokkur dæmi um nýsköpunarverkefni:
Vélsmiðjan Héðinn er að þróa og smíða heila fiskimjölsverksmiðju sem kemst fyrir í einum gámi. Carbon Recycling International er að hefja rekstur verksmiðju sem breytir koltvísýringsútblæstri frá jarðvarmavirkjuninni við Svartsengi í metanól – fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Ölgerðin býður upp á sérframleiddan bjór í míkróbrugghúsi. Kaffitár framleiðir kaffibjór. Mjólkursamsalan hætti fyrir skömmu að hella milljónum lítra af próteinríkri mysu í Eyjafjörðinn og hóf að nota hana í fjörost og prótíndrykki. Marorka er tæknifyrirtæki sem vinnur að þróun tölvukerfa sem lágmarka olíunotkun skipa og sem dregur þar með úr mengun og eldsneytiskostnaði. Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas er með 10 þróunarverkefni í gangi árin 2008-2011 sem miða að betri endingu malbiks og umhverfisvernd. Vistvæn orka hefur unnið að þróun á gróðurhúsalömpum sem geta stórlega dregið úr raforkunotkun. Nox medical hefur þróað og sett á markað svefngreiningartæki fyrir börn og Genís hefur þróað tímamótaefni til bæklunarskurðlækninga. Hér hafa einungis verið nefnd dæmi um þá fjölbreyttu nýsköpun sem fram fer án þess að verðskulduð athygli hafi yfirleitt beinst að henni. Víða er unnið hörðum höndum að því að laga sig að breyttum aðstæðum og sækja fram á nýjan hátt. Hugmyndum er hrint í framkvæmd og breytt í verðmæti.
LOSUM OKKUR VIÐ DRAUGANA
Það er von mín að Íslendingum takist á nýju ári að losa sig við sem flesta af þeim draugum sem hafa truflað endurreisn efnahagslífsins. Nefna mætti: Skattpíningardrauginn, Icesavedrauginn, gjaldeyrishaftadrauginn og draugana sem hafa hamlað gegn hagkvæmri nýtingu auðlinda okkar sem er forsenda hraðrar endurreisnar Íslands.
Megi nýtt ár bera með sér betri tíð og jákvætt hugarfar nýsköpunar og vonar.
Samtök iðnaðarins óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.