Sókn með klasasamstarfi
Betri þjónusta fyrir minna fé
Samtök iðnaðarins efndu í nóvember til fundar þar sem fjárlögin voru rýnd með augum nýsköpunar. Tilgangurinn var að skoða hvort hægt væri að sjá tækifæri í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir niðurskurð.
Samtök iðnaðarins standa fyrir samstarfsverkefninu ÁR NÝSKÖPUNAR – undir kjörorðunum „frumkvæði – fjárfesting – farsæld.“ Hér er lögð er áhersla á að nýsköpun á erindi við alla. Háskóli Íslands fagnar í ár 100 ára afmæli og mun af því tilefni standa fyrir margþættri dagskrá undir yfirskriftinni „Fjársjóður framtíðar.“ Stjórnvöld lögðu í byrjun ársins fram áætlunina Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag undir kjörorðunum „þekking, sjálfbærni, velferð.“ Í þessu er óneitanlega talsverður samhljómur sem þarf að samstilla og virkja betur.
Betri þjónusta fyrir minna fé – ný hugsun gegn viðjum vanans
Samtök iðnaðarins efndu í nóvember til fundar þar sem fjárlögin voru rýnd með augum nýsköpunar. Tilgangurinn var að skoða hvort hægt væri að sjá tækifæri í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir niðurskurð. Horft var sérstaklega til útgjalda í mennta-, heilbrigðis-, orku- og umhverfismálum. Framsögumenn og þátttakendur í pallborði voru sammála um nauðsyn þess að finna nýjar leiðir til að halda uppi þjónustu hins opinbera og helst bæta hana fyrir minna fé en áður. Í reynd má útvíkka hugsunina þannig að allir taki hana til sín, jafnt ríki, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og félagastarfsemi hvers konar.
Þetta krefst hins vegar nýrrar hugsunar og nýrra lausna. Í því sambandi er gagnlegt að horfa á tækifæri í klasasamstarfi stjórnvalda, stofnana og fyrirtækja á grunni straumlínustjórnunar. Straumlínuhugtakið (lean thinking) felur í sér þá hugsun að horfa á þjónustu- og framleiðsluferli frá sjónarhorni viðskiptavina. Mörg af framsæknustu fyrirtækjum í heimi hafa náð undraverðum árangri með þessari hugsun á undanförnum árum. Hvatinn til samstarfs um verkefni á ábyrgð ríkis og sveitafélaga liggur í því að flytja fjármagn úr föstum farvegi fjárlaga í samkeppnisjóði fyrir nýsköpunar- og þróunarverkefni þar sem forgangsröðun er tengd árangri og gildi fyrir viðskiptavini. Helstu hindranir eru viðjar vanans – tilhneigingin að halda öllu í sama fari.
Klasasamstarf og fjármögnun nýsköpunarverkefna á lykilsviðum
Í framhaldi af fundinum um fjárlögin lögðu Samtök iðnaðarins fram tillögu fyrir þá fimm ráðherra og fulltrúa stofnana sem þátt tóku um að efla samstarf á heilbrigðis-, mennta- og orkusviði í formi klasasamstarfs. Lagt var til að taka frá 250 milljónir króna til nýsköpunarverkefna á hverju þessara þriggja sviða í formi útboðs um samstarfsverkefni fyrirtækja og stofnana.
Markmiðið er að skapa betri og hagkvæmari lausnir til að uppfylla þarfir á þessum sviðum og skapa um leið tækifæri til þróunar á lausnum sem eiga erindi á alþjóðlegan markað.
Einfalt er að koma þessu fyrirkomulagi á í tengslum við umsóknarferli Tækniþróunarsjóðs og skipun sérstakra klasafagráða sem meta umsóknir. Fjármögnunin yrði sótt í þá föstu farvegi sem eru til staðar á hverju sviði, en auk þess yrði gerð krafa um mótframlag fyrirtækja í hverju verkefni. Verkefni yrðu tengd sumarvinnu nemenda, atvinnuleitendum á bótum og alþjóðlegu rannsókna- og þróunarsamstarfi. Þannig yrði svigrúm og umfang verkefna sem skilað yrði til baka á viðkomandi sviði í reynd margföld sú fjárhæð sem hið opinbera legði til.
Hugsunin er sú að brjótast úr viðjum vanans með því að leggja þó ekki væri nema örlítið brot af tæplega 280 milljarða útgjöldum ríkisins í þessum málaflokkum í nýjan farveg.
Ekki tókst að tryggja fjármagn á fjárlögum 2011 – en ekki er öll nótt úti!
Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð ráðherranna fimm tókst ekki að tryggja fjármagn á fjárlögum til að fylgja þessari hugmynd eftir. Þetta voru vonbrigði og sýnir hversu erfitt er að brjótast úr viðjum vanans í fjárlagagerðinni þótt allir séu sammála um þörfina fyrir að kalla eftir nýjum og betri lausnum fyrir minna fé.
Enn er hluti af iðnaðarmálagjaldinu frá árinu 2010 óráðstafaður í fjáraukalögum. Þessa fjármuni eru menn sammála um að setja í farveg Tækniþróunarsjóðs og þá mætti slá tvær flugur í einu höggi með því að nota hluta fjármagnsins í framangreindan farveg. Þetta eru í raun fjármunir iðnaðarins og því eðlilegt að stjórnvöld legðu sitt á móti og tryggðu áframhaldandi fjármögnun verkefna.
Verkefnið fellur vel að Sóknaráætlun 2020 sem ríkisstjórnin lagði nýverið fram. Það er von okkar að hugmyndin um verkefnaútboð á þrem lykilsviðum sem tengjast fjármálum ríkisins geti náð fram að ganga og verði í framhaldinu fjármögnuð á fjárlögum næstu árin undir Sóknaráætlun 2020. Samtök iðnaðarins skora á stjórnvöld að koma nú myndarlega að framangreindu samstarfi fyrirtækja, félaga, stofnana og ráðuneyta og sýna þar með fram á að stefnunni er ætlað að virka í verki.