Stoppum í menntagatið
Einstakt er hve margir eru nú án vinnu hér á landi. Viðvarandi fjöldi á atvinnuleysisskrá sveiflast kringum 14 þúsund manns. Margir eiga tímabundna vist á þeirri skrá en sumir eru þar um langa hríð. Hlutfall atvinnulausra undir 26 ára aldri er sláandi hátt á þeim lista.
Einstakt er hve margir eru nú án vinnu hér á landi. Viðvarandi fjöldi á atvinnuleysisskrá sveiflast kringum 14 þúsund manns. Margir eiga tímabundna vist á þeirri skrá en sumir eru þar um langa hríð. Hlutfall atvinnulausra undir 26 ára aldri er sláandi hátt á þeim lista.
Samhliða hinum mikla atvinnuskorti þessi misserin, vill svo skringilega til að á hér á landi er skortur á ýmsu sérhæfðu starfsfólki. Sum fyrirtæki þurfa beinlínis að velja milli þess að láta tiltekna þætti starfsemi sinnar fara fram erlendis eða ráðast í það kostnaðar- og tafsama verkefni að ráða fólk erlendis frá til slíkra starfa hér á landi. Þriðji kostur er hreinlega að ráða ekki fólk í tilteknar stöður. Öllum þessum kostum er það sameiginlegt að vinnufúsar íslenskar hendur finna kröftum sínum ekki viðnám. Jafnframt er ljóst að umhverfi af þessum toga flækir framþróun fyrirtækjanna á Íslandi.
Samtök iðnaðarins létu nýlega kanna mannaflaþörf aðildarfyrirtækja sinna á næstu misserum. Niðurstaðan er skýr. Á ýmsum sviðum vilja fyrirtækin ráða fólk mun hraðar en þau geta fundið mannskap til. Um þessar mundir vantar fyrirtæki af ýmsu tagi til að mynda sárlega fólk með margs konar verklega og akademíska tæknimenntun.
Í slíku misvægi er eðlilegt að litið sé til menntakerfisins og spurt: Hvers vegna situr fjöldi auðum höndum á sama tíma og ekki finnst fólk með þá menntun sem leitað er að? Það undrar engan að niðurskurður opinberra útgjalda skuli ná til menntamála, sem og flestra annarra þátta. En sú tilraun til ráðdeildar hefur víða komið óhyggilega niður því að einmitt þær greinar, sem atvinnulífið óskar eftir, heyja ströngustu varnarbaráttuna. Bilið, sem nú er milli þarfa atvinnulífsins og nýliðunar menntakerfisins, mun næstu árin festa í sessi hið sláandi misvægi í atvinnumálum landsmanna, verði ekkert að gert.
Sem betur fer er þó margt hægt að gera til úrbóta. Samtök iðnaðarins hafa unnið með Vinnumálastofnun, háskólunum og stjórnvöldum að því undanfarna mánuði, að beina nokkrum fjölda úr aðgerða- og atvinnuleysi yfir í þær námsgreinar sem atvinnulífið kallar á. Einnig höfum við lagt lið sérstöku átaki sem er í bígerð á vettvangi Alþingis og Stjórnarráðsins. Það leiðir vonandi til þess að menntastofnanir hafi burði til að leysa úr læðingi þann mannauð sem fyrirtæki leita að.
Fyrst og síðast er það þó langtímahugsunin í samspili atvinnulífs og menntakerfis sem öllu skiptir. Ég er þeirrar skoðunar að undirbúningurinn hefjist þegar í grunnskóla. Tendra þarf nýsköpunar- og frumkvæðishugsunina strax hjá börnum og unglingum. Sá sparnaður, sem nú fer fram í grunnskólum landsins, kemur helst niður á frumkvöðlastarfi, tæknihugsun og skapandi hvatningu. Við bætist að nýbakaðir gagnfræðingar standa frammi fyrir mun erfiðara vali um næstu skref en vera þyrfti. Fimmtán ára unglingur virðist geta kosið að fara í verklegt nám, iðnnám en á þá einungis kost á að bæta námi við sig síðar á því sama sviði. Hinn kosturinn, sem blasir við, er bóklegur framhaldsskóli sem getur síðar opnað dyr til háskólanáms. Þessi skörpu skil, raunveruleg og ímynduð, leiða til þess að iðnám er leið sem of fáir vilja taka áhættuna af að fara. Óttinn er ekki síst sá að iðnnám kunni að hindra aðgang iðnmenntaðra að háskólanámi síðar meir.
Mun fleiri hefja því framhaldsskólanám en eiga þangað erindi eða hafa á því raunverulegan áhuga þá stundina. Sú skekkja getur svo af sér hátt brottfall úr framhaldsskóla. Margir brottfallinna hefðu notið sín mun betur í verklegum greinum og praktískri iðntækni á framhaldsskólaárum en í bóklegu námi.
En raunveruleikinn er hreint ekki sá að hin verklega leið komi í veg fyrir að hægt sé að nema akademíska grein síðar meir þótt girðingarnar virðist enn of háar. Samtök iðnaðarins eiga ríkan þátt í rekstri Tækniskólans og þau eru líka stolt af aðild sinni að iðnbrautum víða um land. Þessar stofnanir hafa reynst ráðagóðar og drjúgar við erfiðar aðstæður undanfarið. Framundan er áhersla á síaukna samþættingu námsframboðs iðn- og tæknináms við háskólastigið. Háskólinn í Reykjavík er í æ ríkari mæli tækniháskóli en viðskiptaháskóli. Háskóli Íslands á 100 ára afmæli í ár og hefur sett sér raunhæf markmið til næstu ára. Allar krosstengingar skólakerfisins þarf að opna enn betur og gera sýnilegri.
Markmiðið er ekki flókið. Atvinnulífið, menntakerfið og stjórnvöld þurfa að binda menntakerfi og atvinnulíf traustum böndum til framtíðar. Fyrirtækin þurfa starfsfólk við hæfi og fólk þarf störf við hæfi. Samtök iðnaðarins bjóða fram krafta sína við þann prjónaskap.