Aðgerðir þurfa að fylgja fögrum fyrirheitum

5. apr. 2011

  • BMG
 

Hinar ýmsu hagtölur og hagspár gefa til kynna að botni kreppunnar hafi verið náð. Íslenska hagkerfið sökkvi ekki dýpra. Stjórnvöld keppast við að sann­færa okkur um að bjartari tíð sé handan við hornið og sú söguskýring fær gjarnan að fljóta með að íslenska krónan sé helsti bjargvættur íslensks atvinnulífs.

Hinar ýmsu hagtölur og hagspár gefa til kynna að botni kreppunnar hafi verið náð. Íslenska hagkerfið sökkvi ekki dýpra. Stjórnvöld keppast við að sann­færa okkur um að bjartari tíð sé handan við hornið og sú söguskýring fær gjarnan að fljóta með að íslenska krónan sé helsti bjargvættur íslensks atvinnulífs.

Aðstæður slæmar

Slíkar fullyrðingar samrýmast illa þeim skilaboðum sem stjórnendur fyrirtækja senda okkur. Samkvæmt nýrri könnun meðal stærstu fyrirtækjanna telja um 81% fyrirtækja í iðnaði aðstæður í efna­hagslífinu slæmar og 27% telja að aðstæður verði verri eftir 6 mánuði. Þótt árin 2009 og 2010 hafi verið ein þau verstu sem atvinnulífið hefur gengið í gegnum telur þriðjungur fyrirtækja að hagnaður verði minni á þessu ári en í fyrra og helmingur að hann verði óbreytt­­­ur. Mun fleiri fyrirtæki hyggjast fækka fólki en fjölga og fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Í þessu ljósi er eðli­legt að spyrja sig um innistæðu fyrir full­yrðingar á borð við að nú taki við hag­vöxt­ur og að botninum sé náð. Enn­fremur hvort staða okkar á botni krepp­unnar sé traust og hverjar séu forsendur þess að viðspyrna leiði til raunverulegs efnahagsbata.

Óvissa og aðgerðarleysi

Á sama tíma og unnið er að því að sannfæra okkur um að nú liggi leiðin upp á við er ekki sérlega margt að finna í aðgerðum stjórnvalda sem styður við þá þróun. Lítið þokast í að koma mikilvæg­um málum áfram á stjórnarheimilinu. Erfiðlega gengur að koma margvíslegum stórframkvæmdum í gang. Það á einkum við um stóriðjuframkvæmdir þar sem sumir ráðherrar beinlínis gera það sem þeir geta til að ekkert verði af slíkum framkvæmdum. Vissulega eru framkvæmdir við Búðarháls og stækkun í Straumsvík í góðum gangi en betur má ef duga skal. Ennþá er mikil óvissa um sjávarútvegsmál en sú óvissa hefur mikl­ar og alvarlegar afleiðingar víða í iðnað­inum. Erfiðlega gengur að taka ákvarð­an­ir í samgöngumálum jafnvel þótt fyrir liggi vilji hjá einkaaðilum til að taka þátt í fjármögnun. Loks gengur illa að fá stjórnvöld að samningaborðinu með aðil­um vinnumarkaðarins. Í þessum orðum felst ekki endilega ásökun á hendur stjórn­völdum um að vilja ekki koma hinum títtnefndu hjólum atvinnulífsins í gang. Vilji og góður ásetningur dugar bara ekki til.

Mikilvægt að skapa trú og væntingar

Fyrsta skrefið felst ekki endilega í að blása til stórframkvæmda þótt það yrði vissulega til bóta. Mikilvægara er að skapa trú og væntingar meðal fólks og fyrirtækja um að raunveruleg innistæða sé fyrir bættum efnahag. Fyrr tekur fjárfesting og einkaneysla ekki við sér. Í því efni hefur stjórnvöldum helst mistekist. Raunar hafa yfirlýsingar stjórnvalda um mögulegar skattahækkanir og þjóðnýt­ingu einkafyrirtækja o.fl. ýtt undir vænt­ingar um áframhaldandi kreppu. Rétta leiðin til að komast upp af botninum felst að minnsta kosti ekki í að gefa út nýjar hagspár og flytja tilkomumiklar ræður á tyllidögum. Slíkum orðum þurfa að fylgja aðgerðir en ekki bara fögur fyrirheit. Framkvæmdir og pólitískur kjarkur eru til þess fallin að skapa trú á betri tíð.

Áhættusamt að fjárfesta

Skýr birtingarmynd þessarar vantrúar felst í mati alþjóðlega tryggingarisans Aon á landsáhættu fyrir beina erlenda fjárfestingu hér á landi. Aon metur lands­­­áhættu hér í þriðja flokki af sex eða í meðalflokki. Ísland er eina vestræna ríkið sem stendur svo neðarlega í flokkun Aon. Meðal þeirra ríkja sem deila þeim flokki með Íslandi eru Rússland, Egyptaland, Tyrkland, Kína og Saudi-Arabía. Aon telur minni áhættu að fjárfesta í Suður-Afríku, Namibíu, Botswana og Rúmeníu en hér á landi svo að nokkur dæmi séu nefnd. Miðað við hve lítið er fjárfest hér á landi virðast jafnvel lands­menn sjálfir deila þeirri skoðun að hér sé áhættusamt að fjárfesta og öruggara að liggja með fé óhreyft inni á bankareikn­ingum. Grunnástæðan fyrir mati Aon er annars vegar mikil pólitísk óvissa og hins vegar efnahagslegur óstöðugleiki.

Mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að vinda ofan af þessari vantrú. Það er ekki nóg að vísa til þess að hagspár bendi til að hagvöxtur sé að aukast og svo þurfi að samþykkja Icesave. Forsendur þess að hagspár rætist er að fyrirtækin fari að fjárfesta á ný og heimilin í landinu vilji og geti aukið neyslu.

Náum vopnum okkar á ný

Íslenskur iðnaður og allt atvinnulíf í landinu stendur frammi fyrir algerlega nýjum aðstæðum eftir efnahagshrunið. Nánast allir þættir er snúa að rekstri fyrirtækja eru breyttir frá þeim tíma sem við héldum að Ísland yrði alþjóðleg fjármálamiðstöð. Fjármálaumhverfið er breytt, skattaumhverfið er breytt, vinnu­markaðurinn breyttur, peningastefnan er óþekkt og krónan í höftum. Í þessu um­­hverfi þurfum við að spyrna okkur upp af botninum, synda upp á yfirborðið og ná vopnum okkar á ný.