Óásættanlega skilyrðið

9. maí 2011

  • Stjórn 2009 Helgi

Kjaraviðræður hafa staðið yfir undan­farna mánuði þar sem stefnan var tekin á þriggja ára samning á vinnumarkaði. Brýnt er að bæta kaup­mátt fólks. Atvinnulífið hefur hins vegar ekki möguleika á að bæta kjör nema til komi umtalsverður hagvöxtur næstu árin. Talað er um að 5% hagvöxtur næstu árin þurfi að verða til að unnt sé að bæta kjör að raungildi og taka mark­verð skref til minnkunar atvinnuleysis.

Kjaraviðræður hafa staðið yfir undan­farna mánuði þar sem stefnan hefur verið tekin á þriggja ára samning á vinnumarkaði. Brýnt er að bæta kaup­mátt fólks. Atvinnulífið hefur hins vegar ekki möguleika á að bæta kjör nema til komi umtalsverður hagvöxtur næstu árin. Talað er um að 5% hagvöxtur næstu árin þurfi að verða til að unnt sé að bæta kjör að raungildi og taka mark­verð skref til minnkunar atvinnuleysis.

Samtök á vinnumarkaði hafa lagt fram ítarlega áætlun sem gengur út á aðgerðir sem gætu orðið til að koma hagvexti úr engum eða lágum eins og stefnir í að óbreyttu og upp í þau 5% sem yrðu til að hraða endurreisn samfélagsins. Sú áætlun miðast við að allar atvinnugreinar landsins fái notið sín, að óvissu verði eytt og tækifærin nýtt sem hraðast en af öryggi og yfirvegun. Gildir það jafnt um nýtingu orkuauðlinda, uppbyggingu í stóriðju og öðrum iðnaði, sjávarútveg, ferðaþjónustu og verklegar framkvæmdir, t.d. á sviði samgöngumannvirkja.

Til þess að ná þessum árangri hefur þurft að koma til samstaða um samninga milli atvinnurekenda og launþega en einnig atbeini ríkisstjórnarinnar vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem hér ríkja. 

Mikilvægi óvina

Þrátt fyrir viðræður við ríkisstjórnina um þessi mál vikum og mánuðum saman hefur lítið þokast í samkomulagsátt og eru margir reyndar farnir að efast stór­lega um raunverulegan vilja sumra ráð­herra til að ná viðunandi niðurstöðum í þessum stóru hagvaxtarskapandi málum. Flókin pólitík virðist liggja að baki hjá ýmsum þar sem gott er að eiga umtal­aða óvini til að halda hjörðinni saman!

Þegar vel hafði miðað í viðræðum atvinnurekenda og launþega um kjara­samning til þriggja ára og einungis var beðið eftir viðbrögðum stjórnvalda rann sú stund upp að menn urðu að meta það hvort útspil ríkisstjórnarinnar væru við­unandi – þá varð það niðurstaðan að svo væri ekki og því skorti forsendur til að ljúka þriggja ára kjarasamningi. Þá var ákveðið að freista þess að gera skamm­tímasamning með eingreiðslu. Í fram­haldi af því átti að láta reyna betur á vilja stjórnvalda til að takast á við stóru málin.

ASÍ hafnaði 100 þús. krónum til launafólks

Skammtímasamningur var tilbúinn föstudaginn 15. apríl og gekk út á 50.000 króna eingreiðslu strax og vænt­anlega sömu fjárhæð næsta sumar. En þá gat launþegahreyfingin allt í einu ekki gengið frá samningi. Hvers vegna?

Jú, samkvæmt frásögn sumra forystu­manna ASÍ í fjölmiðlum frá þeim tíma áttu vinnuveitendur skyndilega að hafa sett fram „óásættanleg skilyrði“ eins og það er ítrekað orðað, síðast í Kastljósi að kvöldi 27. apríl. Og hvaða skilyrði voru svona „óásættanleg“?

Þegar samkomulag varð milli helstu forystumanna ASÍ og formanns, vara­formanns og framkvæmdastjóra SA um eingreiðsluleiðina þann 13. apríl, lagði SA fram drög að samkomulagi um ein­greiðslu með texta sem fól í sér gagnrýni á ríkisstjórnina. Forysta ASÍ gerði enga athugasemd við þann texta. Þegar þessi sami samningur og óbreyttur texti lá svo á borðinu tveimur dögum síðar, þá hét það að menn hefðu skellt inn „óásættan­leg­um skilyrðum“ á síðustu stundu. Og það var látið duga til að ASÍ gekk frá samningnum og afþakkaði þessar    greið­sl­ur til tugþúsunda launþega þá strax. Síðan hefur verið haldið uppi linnulausu áróðursstríði um eftiráfundnar skýringar á viðbrögðum ASÍ og lands­sambanda þess.

Textinn ógurlegi

En hvernig var þessi að því er virðist skelfilegi texti?

Fyrst var lýst með almennum orðum hvernig unnið hefur verið að gerð samn­inga í vetur til þriggja ára þar sem mark­mið um hagvöxt, fjölgun starfa, minnkun atvinnuleysis og auknar fjárfestingar í atvinnulífinu voru höfð að leiðarljósi. Þá var fjallað um aðkomu og hlutverk ríkis­stjórnarinnar við gerð samninganna. Varla hefur almenn umfjöllun um fram­gang mála valdið viðkvæmninni. Það hlýtur að hafa verið í lokin þegar nokk­urr­ar gagnrýni gætir á ríkisstjórnina:

„ASÍ og SA hafa frá því á síðasta ári reynt að fá stjórnvöld til viðræðna um atvinnuleiðina í efnahagsmálum en talað fyrir daufum eyrum. Ekki er unnt að end­urtaka mistökin í framkvæmd stöðu­leikasáttmálans frá júní 2009, enda sögðu bæði ASÍ og SA sig frá honum vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar.

Nú er þolinmæðin þrotin og samnings­aðilar sjá ekki tilgang í að halda áfram viðræðum um þriggja ára kjarasamning. Nauðsynlegt er að í landinu sitji ríkis­stjórn sem vill og getur skapað skilyrði fyrir atvinnuleiðinni út úr kreppunni. Núverandi ríkisstjórn hefur reynst ófær um það. Samningsaðilar telja fullreynt að árangur náist að þessu sinni og fresta því frekari viðræðum. Í stað þess er gert eftirfarandi samkomulag.“

Dæmi nú hver fyrir sig hvort þessi orð geti talist ósanngjörn eða til þess fallin að forysta ASÍ þurfi að ganga frá borði án þess að ljúka skammtímasamningi sem hún hafði þó lagt mikla árherslu á. Hagsmuna hverra var verið að gæta? Fólksins í verkalýðsfélögunum eða var verið að hugsa meira um að hlífa lask­aðri ásýnd ríkisstjórnar sem ræður illa við verkefni sín?

Þegar við í framkvæmdastjórn SA fundum hve þunglega þessu var tekið, þá buðum við að milda textann eða að ASÍ legði fram hugmynd að texta. En það var hvorugt þegið. Þess í stað var gengið frá borði! Og svo byrjað að tala um að allt hafi strandað á sjávarútvegi og að þolinmæði væri á þrotum og brýnt að vísa deilunni til sáttasemjara og farið í að hóta verkföllum og miklum skaða einstakra atvinnugreina.

Jón eða séra Jón

Í ljósi þessa er fróðlegt að bera saman viðhorf ASÍ í þessu tilviki og þann 22. janúar árið 2009 þegar miðstjórn ASÍ ályktaði m.a. á þá leið að boðað yrði til þingkosninga og valin ný ríkisstjórn. Í ályktuninni sagði:

„Nú er þolinmæðin þrotin og miðstjórn ASÍ sér ekki tilgang í að halda kjaravið­ræð­um áfram fyrr en ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum á Íslandi.“

Í janúar 2009 var við völd ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en nú er það ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Ekki sama hvort er Jón eða séra Jón!

Þessi umdeilanlega framkoma hefur þó ekki breytt hinu að sú skylda hvíldi á aðilum að ljúka samningum og tryggja vinnufrið eins og nú hefur orðið raunin á. Vonandi verður sátt um þennan þriggja ára samning sem mun halda ef stjórnvöld standa við sitt.