Déjà vu 2012?

3. jún. 2011

  • orri_hauksson

Í maí 2009 var vor í lofti. Eftir efna­hagshrun vetrarins gekk hún víst býsna vel rústabjörgunin, sem svo var nefnd. Endurreisnin var hafin og leiðin upp fremur greið. Svo leið ár. Aftur var vor í lofti. Rústabjörgunin hafði haldið áfram en reynst heldur tafsamari en ráð hafði verið fyrir gert. En nú var botninum náð og fátt gat hamlað endurreisn. Síðan hefur liðið enn eitt ár. Það er vorið 2011 og aska úr gosinu í Grímsvötnum er að hverfa úr lofti. Trú árstíðinni segja stjórn­völd okkur nú að senn ljúki rústa­björguninni og batinn muni þá blasa við.

Í maí 2009 var vor í lofti. Eftir efna­hagshrun vetrarins gekk hún víst býsna vel rústabjörgunin, sem svo var nefnd. Endurreisnin var hafin og leiðin upp fremur greið. Svo leið ár. Aftur var vor í lofti. Rústabjörgunin hafði haldið áfram en reynst heldur tafsamari en ráð hafði verið fyrir gert. En nú var botninum náð og fátt gat hamlað endurreisn. Síðan hefur liðið enn eitt ár. Það er vorið 2011 og aska úr gosinu í Grímsvötnum er að hverfa úr lofti. Trú árstíðinni segja stjórn­völd okkur nú að senn ljúki rústa­björguninni og batinn muni þá blasa við.

En hvernig hefur þetta í raun gengið fram að þessu?

Ísland dregst aftur úr

Fjármálakreppa heimsins hóf innreið sína seinni hluta árs 2007. Hún náði fullum þunga eftir mitt ár 2008 og olli þar á eftir allsherjar niðursveiflu víða um heim. Áhrifunum var þó afar misskipt eftir löndum. Við Íslendingar höfðum með margvíslegum hætti komið okkur í þannig stöðu, að reiðiskjálf fjár­málakerfa heims hafði langtum drama­tískari áhrif hér en víðast hvar. Nú vorið 2011 má bregða raunverulegu máli á framvindu liðinna ára og meta með reynslugögnum hvernig okkur hefur reitt af, t.d. í sam­anburði við önnur Norðu­rlönd og evru­svæðið (sjá mynd).

landsframleidsla-2007-2011

Á meðan önnur lönd fikruðu sig mark­visst upp á við héldum við okkar hætti, nýlega uppteknum, að rýra lífsgæði okkar í rólegheitum. Þriðji ársfjórðungur ársins 2010 gaf von þótt veikburða væri um að einhvers konar botni væri náð. En árið endaði með miklum vonbrigðum. Við bætist að fátt má finna í raungögnum fyrstu mánaða ársins 2011, svo sem um útflutning, sem vekur vonir um þann hægfara bata sem væntingar hafa staðið til í ár.

Skattbyrðar og háir vextir

Kannski er skýringin á lán­leysi okkar sú að við brugðum á það ráð að leggja ofurþungar skattbyrðar á efnahagslífið, einmitt þegar síst skyldi. Þar við bættust flóknar sífelldar vending­ar hefðbundinna skatta, ásamt refilstig­um allra nýju skatt­­anna, þrepanna, vöru­gjaldanna og gjaldskrárhækkananna. Núverandi skatt­kerfi er orðið að slíkri völundarsmíð að halda mætti að skapari þess hefði varið sjö dögum til verksins, á Woodstock.

Við settum á sama tíma beinar og óbeinar hömlur á fjárfestingar, einmitt þegar slakinn í hagkerfinu og lágt raun­gengi voru skýrt ákall efnahagslífsins um fjárfestingu. Áhugasömum útlendingum hefur hreint ekki verið tekið fagnandi, hafi þeir sýnt áhuga á að taka þátt í íslenskum iðnaði. Við bætist bein opinber sveiflumögnun. Hið opinbera hefur lagst í framkvæmdahýði í kreppunni, þótt boðist hafi hagkvæm fjármögnun utan ríkis­reikn­ings til arðbærra framkvæmda. Mannvirkjageirinn á Íslandi er af þessum sökum nú innan við þriðjungur þess sem hann var þegar mest lét.

Raunvextir hafa verið hærri gegnum alla kreppuna en var nokkurn tíma í upp­sveiflunni. Gjaldeyrishöftin, sem átti að vera búið að leggja af, eru enn rammgirt og ku eiga að standa að mestu um ára­bil. Lífeyrissjóðir landsins þurfa að finna farveg fyrir á annað hundrað milljarða á ári til að ávaxta lífeyri sjóðsfélaga, en eru læstir í ávöxtunarrýrum verkefnum, aðallega við að fjármagna ríkissjóð. Haldi svo áfram um nokkurt skeið er sú hætta raunveruleg, að lífeyrissjóðakerfi landsins breytist úr einu sterkasta uppsöfnunar­kerfi heims með persónubundnum rétt­ind­um, í ósjálfbært fyrirbæri sem líkist fremur hefðbundnu opinberu gegnum­streymiskerfi. Þar við bætast skaðvæn­legar nýjar hugmyndir um að skattleggja íslenska lífeyrissjóði í fyrsta sinn í sög­unni.

Gróska í tækni- og hugverkaiðnaði

Ljósir punktar finnast þó. Hinn fjöl­breytti hugverka- og tækniiðnaður hefur dafnað hratt. Hugvitssamar lausnir sem fyrirtæki okkar smíða á sterkum heima­velli eru traust sjálfbær uppspretta út­­flutn­­ings­tekna. Má nefna orku- og um­­hverfisgreinar, hinn fjölbreytta sjávar­klasa og fyrirtæki í heilbrigðistækni. Lítill jaðarkostnaður hlýst af hverri nýrri sölu og sókn á alþjóðlega markaði takmarkast ekki af auðlindanýtingu heima fyrir, þótt hún eigi oft uppruna sinn þar í. Gjald­eyris­höftin eru hins vegar þungt fótakefli fyrirtækja í alþjóðlegum rekstri. Þá hefur skortur á tæknimenntuðu fólki á Íslandi og takmarkað námsframboð, einmitt í þeim námsgreinum sem atvinnulífið kall­ar eftir, beint hluta vaxtar þessara fyrir­tækja til útlanda. Samkeppnin um stað­setningu framsækinna fyrirtækja eykst einnig sífellt. Þannig bjóða fjölmörg sveit­­arfélög í Kanada, Bandaríkjunum og Evrópu framsæknustu íslensku fyrirtækj­unum gull og græna skóga ef þau færa starfsemi sína frá Íslandi og setja sig niður á viðkomandi stað. Ekki má mikið út af bregða til að við missum þannig fjölmörg vel launuð störf út landi.

Þar við bætist að íslenski sjávarklasinn, sem er einstakur á heimsvísu og telur hundruð fyrirtækja, hefur verið settur í hægagang af stjórnvöldum og honum nú innrætt skammtímahugsun. Hryggjar­stykkið í klasanum, þ.e. sjávarútvegurinn sjálfur, hefur vegna yfirvofandi umbylt­ing­­ar greinarinnar haldið að sér höndum. Ekki er fjárfest nema nauðsynlega þurfi vegna bilana eða óhappa. Nær enginn leggur út í samstarfsverkefni eða þróun, sem duga eiga til langs tíma. Áhrifin verka eins og deyfilyf á þjónustufyrirtæki í málmsmíði og viðhaldi sem og hug­verka- og útflutningsfyrirtækin sem þjónusta íslenska útgerð.

Raunverulegur bati?

Við hverju má þá búast vorið 2012? Augljóslega verður haldið upp á að rústabjörguninni sé þá að ljúka og hröð endurreisn sé innan seilingar. Ræðurnar eru tilbúnar nú þegar. En verður raun­verulegur bati í kortunum eftir ár? Svarið er: Já, því má sannarlega koma í kring. En ótalmörg mannanna verk þessa dag­ana vinna þó gegn því að svarið reynist rétt. Nú er nýbúið að gera kjarasamn­inga til þriggja ára. Atvinnurekendur samþykktu þessa samninga með hálfum hug, enda eru þeir dýrir og framhlaðnir, byggðir á bjartsýni, sem sumir telja að jaðri við óskhyggju. Í þröngri stöðu var þó betra að hætta ekki á ófrið á vinnu­markaði. En blekkjum ekki sjálf okkur. Ef verðmætasköpunin gengur ekki eftir, eru þessir samningar ekki aðeins gagnslausir, heldur mun verri en engir. Þá eru þeir risastór bjarnargreiði við launafólk og alla Íslendinga. Engin innistæða er þá fyrir launahækkununum, sem munu bara þrýsta upp verðlagi, ýta fyrirtækjum í frekari uppsagnir og skapa stórhættu á að við festumst um langt skeið í víta­hring vaxtarlausrar verðbólgu. Hvora leiðina ætlum við að velja? Verða ræð­urn­ar eftir ár loks byggðar á raunveru­legum bata, eða sami broslegi vorboðinn og fyrr?