Skynsemin látin lönd og leið

1. júl. 2011

  • Bjarni-Mar-05

Sterk öfl í samfélagi okkar hafa litla trú hagrænum lögmálum. Einstaka stjórnmálamenn og hreyfingar virðast trúa því að með pólitíska hugsjón að leiðarljósi megi búa til betra og sterkara samfélag jafnvel þótt það þýði að horfa þurfi framhjá augljósum hagrænum sjónarmiðum.

Sterk öfl í samfélagi okkar hafa litla trú hagrænum lögmálum. Einstaka stjórnmálamenn og hreyfingar virðast trúa því að með pólitíska hugsjón að leiðarljósi megi búa til betra og sterkara samfélag jafnvel þótt það þýði að horfa þurfi framhjá augljósum hagrænum sjónarmiðum. Hugtök eins og hagvöxtur, fjárfesting, atvinnustig, skilvirkni og hagkvæmni víkja fyrir pólitískum sérhagsmunum. Þessi ádeila hefur verið áberandi í umræðum um uppbyggingu í stóriðju, samgönguframkvæmdir og nú síðast í tengslum við þá breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem stjórnvöld eru að reyna koma á. Þar er verið að tortryggja skynsamlegar niðurstöður hagfræðinga og sagt að horfa þurfi til „annarra sjónarmiða“. En hverju skilar þessi hugsun okkur? Er skynsemin látin lönd og leið?

Atvinnuleysi á Íslandi er í sögulegu hámarki en fjárfesting er hins vegar í sögulegu lágmarki. Þróun þessara lykilhagstærða er nátengd í sterku sögulegu samhengi þar sem hátt fjárfestingastig helst náið í hendur við lítið atvinnuleysi og öfugt. Um þessar mundir er fjárfesting aðeins um 13% af landsframleiðslu sem er næstum tvöfalt lægra en meðaltal síðustu fjörtíu ára. Atvinnuleysi er um 8% sem er birtingarmynd þess mikla framleiðsluslaka sem verið hefur í íslenska hagkerfinu síðastliðin tvö ár.

Líklega eru allir sammála um mikilvægi þess að draga úr atvinnuleysi enda eitt mesta þjóðfélagsböl sem til er. Atvinnuleysi þýðir að vinnufúsar hendur sitja heima og geta samfélagsins til að framleiða verðmæti er vannýtt. Aukin framleiðsluverðmæti verða að kaupmætti þeirra sem inna vinnuna af hendi. Atvinnuleysi er í raun hrein sóun. Því til viðbótar framleiðslufórninni sem við færum leggjast þungar byrðar á þá sem enn eru í vinnu þegar  atvinnuleysisbætur og annar kostnaður leggst á samfélagið í formi skattheimtu. Það er því allra hagur að vinna bug á þessu meini.

En fyrst samhengi fjárfestingar og atvinnuleysis er svona augljóst skyldi maður ætla að róið væri öllum árum við að lyfta fjárfestingunni. Svo er því miður ekki og virðist ástæðan m.a. haldast í hendur við þá trú sumra að skynsamlegt sé að víkja frá skynsamlegum hagrænum sjónarmiðum. Sjávarútvegurinn er í uppnámi vegna yfirvofandi breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Fyrir vikið er fjárfesting og endurnýjun á búnaði í lágmarki. Stjórnvöld virðast hafa skýr markmið um að koma í veg fyrir margvíslegar virkjanaframkvæmdir og tilsvarandi uppbyggingu á orkufrekum iðnaði, sérstaklega í áliðnaði. Fyrir vikið eru náttúruauðlindir okkar vannýttar sem og tækifæri til að draga til okkar beina erlenda fjárfestingu. Loks er ekki neinn pólitískur vilji til að hrinda af stað arðbærum  vegaframkvæmdum. Á öllum þessum sviðum væri hægt að lyfta fjárfestingunni verulega ef raunverulegur vilji væri fyrir hendi. Afleiðingin yrði aukin atvinna og nýgerðir kjarasamningar myndu öðlast tilverugrundvöll. En þegar skynsemin er lögð til hliðar og horft framhjá augljósum hagrænum sjónarmiðum með pólitíska sérhagsmuni að leiðarljósi bíður okkar ónógur hagvöxtur og hátt atvinnuleysi.

Með skynsemina að vopni getum við rutt hindrunum úr vegi, unnið bug á atvinnuleysi og skapað okkur betra líf.