Eigin gæfu smiðir
Fjárlagagerð fyrir árið 2012 stendur nú yfir. Sú smíði mun miklu skipta fyrir efnahagslega framvindu Íslands, en verður örugglega ekki neinn hægðarleikur að koma saman. Fyrir því eru tvær meginástæður. Önnur er hnattræn. Heimshagkerfið er fremur brotakennt og verður vísast um hríð.
Fjárlagagerð fyrir árið 2012 stendur nú yfir. Sú smíði mun miklu skipta fyrir efnahagslega framvindu Íslands, en verður örugglega ekki neinn hægðarleikur að koma saman. Fyrir því eru tvær meginástæður.
Brotakennt heimshagskerfi
Önnur er hnattræn. Heimshagkerfið er fremur brotakennt og verður vísast um hríð. Þannig eru skuldamál í mörgum Evrópulöndum enn afar viðkvæm og þær lausnir sem ráðamenn meginlandsins hafa hingað til boðað komast ekki fyrir rót vandans, heldur byggjast um of á skammvinnum sjónarmiðum. Bandaríska alríkið lendir að öllu óbreyttu í greiðslufalli 2. ágúst, vegna þráteflis í stjórnmálum og eyðslu umfram efni undanfarin ár. Þróttmikil hagkerfi finnast sem betur fer sitt hvoru megin við Norður-Atlantshafið og má sem dæmi nefna Þýskaland, Noreg, Svíþjóð og Kanada. Japanir eru hins vegar ekki öfundsverðir af sinni stöðu, Rússland er stórt spurningamerki í augnablikinu, Brasilía hefur vaxið hratt en er við að ofhitna og Mið-Austurlönd og Norður-Afríka verka sérlega ótrygg næstu ár. Indland, Kína og fleiri hagkerfi í Asíu eru hins vegar enn á öruggri hraðsiglingu.
Með því að máta saman þessa fjölbreytilegu stöðu heimsins við viðskiptamynstur Íslands, sést hve ólíklegt sé að alþjóðlegir hagkraftar leiði okkur sjálfkrafa eða hratt til bjargálna. Eftirspurn frá Evrópu eða Bandaríkjunum leysir okkar einfaldlega ekki úr snörunni og síst erum við sjálf að leggja ofuráherslu á opnun nýrra vaxtarmarkaða, svo sem Kína.
Viljann vantar
Síðari meginástæðan til að óttast erfiða fjárlagagerð er samansafn heimatilbúinna atriða. Nýgerðir kjarasamningar voru öllum vinnuveitendum dýrir, hinu opinbera þar á meðal. Innlendur vöxtur er enn lítt sýnilegur og bifumst við aðeins löturhægt upp af hinum djúpa botni kreppunnar. Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki, en þær mynda undirstöðu vaxtar, yfirleitt með nokkurri tímatöf. Kaldhæðnin er þó, að tækifærin blasa hvarvetna við okkur. Arðbærar fram-kvæmdir í samgöngumálum, fjárfestingar í búnaði og lausnum í sjávarútvegi, orkutengdur iðnaður, rannsóknir á Drekasvæðinu. Öll þessi atriði og svo mörg fleiri gætu verið á fleygiferð með miklum gróskuáhrifum í nútíð og framtíð, ef vilji væri fyrir hendi. En viljann vantar, hann hverfur í pólitískri andstöðu og óeiningu, misráðinni skattastefnu og fylgispekt við vanhugsaða peningastefnu og gjaldeyrishöft. Í staðinn höfum við varið 80 milljörðum króna í atvinnuleysisbætur frá hruni.
Betri þjónusta fyrir minna fé
Að öllu óbreyttu er þannig fátt sem bendir til rösks bata hagkerfisins næstu misseri. Kyrrstaðan setur verulegt álag á ríkissjóð og hallarekstur hans, með því að tekjur staðna og kröfur um útgjöld aukast. Þetta óeftirsóknarverða ástand hefur þó eitt gott í för með sér: Það laðar fram aukinn vilja til að velta við hverri krónu ríkisútgjalda. Yfirvöld skoða með opnari hug en fyrr, hvort ná megi sömu eða betri niðurstöðu í ýmsum ríkisrekstri, með lægri kostnaði.
Við hjá Samtökum iðnaðarins teljum ennfremur að þessi krafa um betri opinbera þjónustu fyrir minna fé geti orðið til að styrkja ýmsar hugverkagreinar og framtíðaratvinnuvegi. Nýjar lausnir, vörur, ferli og þjónusta, sem okkar framsæknustu fyrirtæki þróa fyrir opinberar stofnanir, bjóða upp á leiðirnar til hagræðingar. Slíku jákvæðu samspili hins opinbera við nýsköpunarfyrirtæki okkar viljum við hraða. Lykillinn að árangri í þessum efnum er að beina opinberum fjármunum í auknum mæli úr sínum viðteknu föstu skorðum í samkeppnisfarvegi á borð við Tækniþróunarsjóð.
Fé sem innheimt var í fortíðinni af iðnaði í landinu með hinu svokallaða iðnaðarmálagjaldi, og sem rann áður til Samtaka iðnaðarins, er nú í síðustu úthlutun þess varið til ýmissa tækniskóla og háskóla. Samtök iðnaðarins hafa að auki beitt sér fyrir samkomulagi um að 150 milljónum af gjaldinu verði beint í nýja markáætlun í samstarfi SI, Hátækni- og sprotavettvangs, ríkisstjórnar og Tækniþróunarsjóðs á sviði heilbrigðismála, menntamála og orku- og umhverfismála.
Þær lausnir sem nýsköpunarfyrirtæki bjóða upp á og sem auka hagkvæmni í opinberum rekstri geta fengið styrki, gegn mótframlagi bæði frá fyrirtækjunum sjálfum og hinum opinberu stofnunum sem um ræðir. Lykilatriði er að til verði afurðir og lausnir sem leiði til umbóta í opinberum rekstri en skapi um leið fyrirtækjum tækifæri til framhaldsþróunar og markaðssetningar á heimamarkaði og erlendis. Markmiðið er einmitt að endurselja þessar varanlegu lausnir sem oftast, með litlum jaðarkostnaði, stór hluti kostnaðarins liggur oftast í upphaflegri þróunarvinnu.
Framlagið úr iðnaðarmálagjaldinu sáluga til ofangreinds klasasamstarfs er ekki ríkulegt í stóra samhenginu, það hreyfir ekki aukastaf í opinberum rekstri ríkisins. En við teljum það þó skapa fordæmi og treysta í sessi uppbyggilegar aðferðir í samstarfi fyrirtækja við hið opinbera, sem stærðar sinnar vegna er fyrirferðarmikið í innkaupum.
Skortur á tæknimenntun
Verkefnið hefur önnur eftirsóknarverð hliðaráhrif. Skortur er á tæknimenntuðu fólki í Evrópu á sama tíma og atvinnu-leysi hefur rokið upp, einkum meðal þeirra lítt menntuðu. Ísland er skýrt dæmi um þessa þróun. Með ofangreindri aðferð má nýta betur þá takmörkuðu krafta sem við höfum í tæknimenntuðu fólki. Árangur og jákvæðar fyrirmyndir skapa aukinn skilning og hvata fyrir fleiri til að feta slíka menntabraut, atvinnulífinu og þjóðinni allri til heilla.
Ytri horfur eru okkur ekki hagstæðar næstu misseri. Innri horfur gætu verið mjög hagstæðar næstu misseri, en hin pólitíska þrástaða býður því miður ekki upp á það í bili. En viljum við vera okkar eigin gæfu smiðir, og þá er eins gott að við nýtum þennan týnda tíma til einhvers gagnlegs. Okkar tillaga felur í sér leiðir til hagkvæmari opinbers rekstrar, sem treystir um leið undirstöður okkar framsæknustu atvinnugreina.