Á forsendum félagsmanna
Samtök iðnaðarins eru stærstu samtök á Íslandi sem fyrirtæki eiga beina aðild að. Innan okkar raða eru fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Sum eru með 10 starfsmenn en önnur hafa þúsundir fólks á launaskrá. Sum hafa tekjur í tugum gjaldmiðla en önnur í einum. Í sumum þeirra er fólk að störfum allan sólarhringinn einhvers staðar í heiminum en önnur starfa á 50 fermetrum hérlendis.
Meginmarkmið okkar, sem störfum fyrir sameiginlegan vettvang þessarar fjölbreyttu flóru fyrirtækja, er að vinna að bættu starfsumhverfi. Þar má nefna skattamál, menntun, peningastjórnun, hagtölur, fjárfestingar, prófmál, opinber innkaup o.fl.
Stundum stangast á hagsmunir einstakra fyrirtækja. Félagmenn SI eiga oft í harðri innbyrðis samkeppni eða standa í erfiðum samningaviðræðum sín á milli. Við reynum ekki að sætta öll sjónarmið, en sem betur fer eru grundvallarhagsmunir langflestra fyrirtækja hinir sömu. Lykillinn að farsælli hagsmunasókn er að þekkja sem best rekstur fyrirtækja innan Samtakanna, skilja ólíkar aðstæður þeirra og hið daglega umhverfi sem þau starfa í.
Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Samtaka iðnaðarins haft samband við drjúgan fjölda stjórnenda og rýnt með þeim í stöðu fyrirtækjanna. Um þessar mundir eru viss tímamót í efnahagslífinu, þar sem dýpsta kreppan er vonandi að baki og jafnvel má leyfa sér að dreyma um ögn betri tíð. En hver er staða iðnaðarins einmitt á þessari stundu?
Nýir kjarasamningar voru undirritaðir í vor og fólu þeir í sér verulegar kauphækkanir auk eingreiðslu strax í upphafi. Fæst fyrirtæki telja fulla innistæðu fyrir þessum samningum, nema fjárfestingar aukist. Ekki ríkir mikil bjartsýni þar um hjá fyrirtækjunum og trú á fyrirheit stjórnvalda í því efni er takmörkuð.
Kreppan lék marga grátt. Sum fyrirtæki hafa skipt um hendur eða farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Núverandi staða er víða orðin þokkaleg þótt óvissa ríki um framhaldið. Rekstur margra fyrirtækja er í samræmi við áætlanir á fyrri hluta ársins, en væntingar voru almennt ekki hátimbraðar í upphafi árs. Veruleg óvissa ríkir enn í efnahagslífinu, bæði hjá þeim sem hafa tekjur sínar af erlendum mörkuðum og þeim sem starfa eingöngu hér heima. Fasteignamarkaðurinn, þar með taldar nýbyggingar, virðist vera að taka rólega við sér eftir langvarandi lægð. Ljóst er að talsverð undirliggjandi þörf er fyrir tilteknar tegundir húsnæðis, svo sem smáar íbúðir, en töluvert framboð er enn af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Á sumum svæðum á landsbyggðinni er hins vegar skortur á íbúðarhúsnæði sem heldur aftur af vexti atvinnulífsins.
Útflutningsfyrirtæki hafa átt bærilegu gengi að fagna en aðstæður á erlendum mörkuðum eru viðkvæmar, viðskiptakjör eru enn orðin ótrygg og álverð fer lækkandi. Fjármálakerfi álfunnar sýnir svipuð teikn og sáust vestan hafs haustið 2008 í aðdraganda falls Lehman Brothers og íslensku bankanna í kjölfarið. Nú er hér uppi önnur staða og íslenska efnahagslífinu stendur ekki sama ógn af fjármálakerfinu og þá var. En opinber fjármál, skattar og gjaldeyrishöft setja hagkerfinu miklar skorður. Höftin trufla ekki dagleg viðskipti nema lítillega en kostnaður vegna gjaldeyrisviðskipta er afar mikill. Höftin virðast helst koma í veg fyrir fjárfestingar og skapa almenna vantrú á efnahagskerfið.
Fjárfestingar hafa verið í algeru lágmarki sl. tvö ár og hafa lítið aukist sem af er þessu ári. Hins vegar er að safnast upp veruleg þörf í atvinnulífinu. Viðhaldskostnaður véla og tækja hefur hækkað umtalsvert og ekki verður hægt að halda framleiðslugetunni í horfinu, nema til komi aukin fjárfesting.
Bankarnir eru fullir fjár en góð afkoma þeirra byggist á að nýta afskriftasjóðina, en ekki að lána til arðbærra verkefna, sem ætti að vera meginverkefni bankastofnana. Fyrirtæki hafa helst fengið lán ef þau hafa getað sýnt fram á að þurfa ekki á þeim að halda. Samskipti fyrirtækja og banka eru almennt vinsamleg og skilvirk, en vilji bankanna til að vinna að uppbyggingu góðra verkefna var lengi takmarkaður þótt nú örli á aukinni viðleitni.
Undarleg staða ríkir á vinnumarkaði. Atvinnuleysi er nú um 7% - eða margfalt meira en verið hefur nær allan lýðveldistímann. Þar að auki hefur fjöldi fólks flutt af landi brott og annar hópur sest á skólabekk. En þrátt fyrir snarminnkaða atvinnuþátttöku, kvarta fyrirtæki undan skorti á starfsfólki við hæfi. Þessi skortur á ekki aðeins við tæknimenntaða, heldur mismunandi starfsfólk í nær öllum greinum iðnaðarins. Kaupmáttur bóta og lægstu launa hefur hækkað langt umfram almenn laun síðustu árin auk þess sem tekjuskattar hafa hækkað verulega. Hvati til að ráðast til hefðbundinna starfa hefur beinlínis minnkað og það bitnar á framleiðni og framleiðslugetu íslensks iðnaðar. Svört atvinnustarfsemi er einnig vaxandi vandamál í mörgum greinum iðnaðarins.
Hið opinbera er mjög stór kaupandi vöru og þjónustu og er auk þess helsti verkkaupi á verktakamarkaði. Mikið ber á því að opinberir aðilar hafi horfið frá fyrri viðmiðum við val á verktökum og seljendum vöru og þjónustu. Lægstu tilboðum er tekið blint, of oft frá aðilum sem áður töldust hafa brennt allar brýr að baki sér. Slíkt skaðar heilbrigt samkeppnisumhverfi og ýtir undir kennitöluflakk.
Fyrirtæki í öllum greinum iðnaðarins finna fyrir háum sköttum og ljóst er að lengra verður ekki gengið í þeim efnum. Stjórnvöld gætu ekki gert hagkerfinu meira gagn en að lækka skatta, ýta þannig undir aukna verðmætasköpun og leggja þar með grunn að skatttekjum framtíðarinnar. Hins vegar hafa stjórnendur takmarkaða trú á að núverandi stjórnvöld rati inn á þá augljósu braut og óttast fremur hið gagnstæða.
Samtök iðnaðarins hafa það hlutverk að vekja athygli á stöðu iðnaðarins. Við gerum það sem í okkar valdi stendur til að bæta starfsskilyrði fyrirtækjanna. Samtal okkar við félagsmenn gegnir lykilhlutverki við að afla nýjustu upplýsinga og sjónarmiða, svo að starf okkar geti orðið fyrirtækjunum að sem mestu liði.