Skattar draga ekki úr offitu

2. nóv. 2011

  • Ragnheidur-2011
Fregnir af að Íslendingar séu orðin næst feitasta þjóðin á Vesturlöndum hafa enn á ný vakið upp hugmyndir um sértæka skattlagningu á „óhollar“ mat­vörur. Slík skattlagning er margreynd og virðist ekki skila tilætluðum árangri í baráttunni við aukakíló landsmanna. Hins vegar hefur sértæk skattlagning alvarleg, neikvæð áhrif á samkeppnishæfni ís­­lensks matvælaiðnaðar og atvinnu mörg hundruð manna.

Fregnir af að Íslendingar séu orðin næst feitasta þjóðin á Vesturlöndum hafa enn á ný vakið upp hugmyndir um sértæka skattlagningu á „óhollar“ mat­vörur. Slík skattlagning er margreynd og virðist ekki skila tilætluðum árangri í baráttunni við aukakíló landsmanna. Hins vegar hefur sértæk skattlagning alvarleg, neikvæð áhrif á samkeppnishæfni ís­­lensks matvælaiðnaðar og atvinnu mörg hundruð manna.

Ósanngjörn skattlagning

Samtök iðnaðarins hafa alla tíð barist gegn vörugjöldum sem voru fyrst lögð á til bráðabirgða fyrir 40 árum. Auk þess að skekkja samkeppnisstöðu milli fyrir­tækja hefur tvöfalt skattkerfi af þessu tagi mikið og óþarft skrifræði í för með sér ásamt þeim kostnaði sem skrifræðinu fylgir bæði fyrir framleiðendur og hið opinbera sem innheimtir gjöldin. Það var Samtökunum því mikið fagnaðarefni þegar vörugjöld voru loks felld niður af stærstum hluta matvæla árið 2007. Það reyndist þó skammgóður vermir. Strax eftir hrun, þegar ljóst varð að ríkissjóður þarfnaðist aukinna fjármuna, var ákveðið að taka aftur upp sérstaka skatta á mat­vælaframleiðendur sem sjá landanum fyrir sódavatni, ávaxtasafa, kexi, súkkulaði og gosdrykkjum. Stjórnvöld beittu fyrir sig umhyggjusamri neyslustýringu og kölluðu nýja skattinn sykurskatt. 

Gamla vörugjaldskerfið var endurvakið á miðju ári 2009 og kerfið sem var lagt niður árið 2007 tekið upp að nýju nema hvað skattaálagið var tvöfaldað. Skatt­lagn­­ingin hefur þó lítið með sykur að gera því að fjölmargar vörur, sem eru ýmist algjörlega sykurlausar, s.s. sódavatn, eða hafa hverfandi sykurinnihald, voru skattlagðar meðan stórir flokkar sætrar vöru voru undanþegnir vöru­gjaldinu.

Skattar af þessu tagi eru lagðir á undir því göfuga yfirskini að bæta lýðheilsu en markmiðið er í raun fyrst og fremst að stoppa í fjárlagagatið. Enda gera stjórn­völd aldrei ráð fyrir breytingu á neyslu þegar tekjur af skattinum eru reiknaðar þótt yfirlýst markmið með honum hafi verið að draga úr neyslu á viðkomandi vöruflokki eða fæðutegund. 

Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á að unnt sé að fara einfaldari og sann­gjarnari leiðir ef ætlunin er að ráðast gegn sykurneyslu með skattheimtu. Ein­faldasta leiðin til þess væri að leggja skatt á allan sykur sem fluttur er til landsins í hvaða formi sem er. Þannig væri tekist á við sykurinn sjálfan án mismununar milli innlendra framleiðenda og vöruflokka annars vegar og milli innflutnings og innlendrar framleiðslu hins vegar.

Lausnin felst í víðtæku samstarfi

Offita er vaxandi vandamál, um það er ekki deilt. En vandamálið er margþætt og þess eðlis að margir ólíkir aðilar þurfa að vinna saman að úrbótum. Þar má nefna stjórnmálamenn, bæði á landsvísu og sveitarstjórnarmenn, heilbrigðisstéttir, sérfræðinga á sviði matvæla og næring­ar, íþróttafélög og aðrar tómstundastofn­anir, neytendasamtök, skóla, kennara og foreldra. Aðeins með samstilltu átaki og sátt þeirra sem hlut eiga að máli má gera sér vonir um að ná árangri. 

Matvælaframleiðendur hvorki vilja né geta axlað alla ábyrgð af ofneyslu þjóð­arinnar en eru hins vegar boðnir og búnir að leggja sitt af mörkum til baráttunnar, t.d. með framleiðslu fitu-, sykur- eða saltskertra matvæla.

Hófsemi og reglubundin hreyfing vænlegri en neyslustýring

Sú skoðun nýtur vaxandi fylgis að heildarsamsetning mataræðis skipti mun meira máli en samsetning einstakra fæðu­­tegunda og aðalatriðið er magnið sem menn neyta. Hreyfing er líka sterkur áhrifaþáttur. Hófsemi og skynsamlegt hlutfall milli neyslu og hreyfingar eru leiðin til árangurs. 

Landlækni og embættismönnum á hans vegum er vel treystandi til að gefa góð ráð varðandi heilbrigði og meta alvarlegar afleiðingar ofeldis. En læknar eru ekkert endilega vel til þess fallnir að leggja mat á áhrif skattlagningar á fram­boð og eftirspurn eftir sykruðum vörum – ekki frekar en hagfræðingar að leggja mat á áhrif gosneyslu á tannskemmdir. Það er líffræðileg staðreynd að ofeldi okkar stafar af því að við neytum meiri matar en við þurfum. Það er hins vegar hagræn staðreynd að sértækir sykur- eða fituskattar munu hafa skaðleg áhrif á íslenskan matvælaiðnað.

Offita er víðtækur vandi, ekki síst félagslegur og hugarfarslegur. Menn verða að þora að viðurkenna það ef þeir vilja raunverulega taka á honum.