Hollywood endir?
Áform stjórnvalda um svokallaðan kolefnisskatt á eldsneyti í föstu formi ollu talsverðu uppnámi í síðasta mánuði. Þarna var um að ræða stórfellda tvöfalda gjaldtöku af stórum iðnfyrirtækjum hér á landi. Sú gjaldtaka braut í bága við sérstakt samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við þau fyrirtæki fyrir tveimur árum.
Áform stjórnvalda um svokallaðan kolefnisskatt á eldsneyti í föstu formi ollu talsverðu uppnámi í síðasta mánuði. Þarna var um að ræða stórfellda tvöfalda gjaldtöku af stórum iðnfyrirtækjum hér á landi. Sú gjaldtaka braut í bága við sérstakt samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við þau fyrirtæki fyrir tveimur árum. Skatturinn hefði fyrst og fremst lagst á fyrirtæki sem þegar falla undir hið samevrópska viðskiptakerfi með losunarheimildir, ETS (e. emissions trading system). Stjórnvöld hafa fyrir margt löngu ákveðið að innleiða ETS hér á landi en það kerfi felur í sér hagræna hvata til að takmarka losun fyrirtækjanna á gróðurhúsalofttegundum við framleiðslu sína. Því þróaðri umhverfistækni sem fyrirtækin nýta, því lægri gjöld fyrir heimildir.
Aðfangaskattur bætir ekki umhverfið
Kolefnisskatturinn umræddi leggst hins vegar á hráefni sem fyrirtækin nýta í framleiðslu sinni. Mikilvægt er að átta sig á þeim grundvallarmun sem er á þessum tveimur útgáfum skattheimtu. Í aðfangaskatti, eins og kolefnisskattinum, er ekkert hagrænt keppikefli til að lágmarka losun á hverja framleidda einingu. Þegar hráefnið er komið inn fyrir dyr fyrirtækisins, hefur skatturinn fallið til, óháð því sem gengur af í framleiðsluferlinu. Í kolefnisskattinum er því ekkert tilefni til að fjárfesta í heilnæmu verklagi eða mengunarvörnum. Má þar nefna afhendingu CO2 inn í verksmiðjugróðurhús, eins og er í fyrirhugað á Hellisheiði, og framleiðslu metanóls, eins og Carbon Recycling rekur í Svartsengi. Hefðbundin förgun kemur líka til greina. Því er ekki að undra að öll önnur Evrópulönd hafa eftir áralanga skoðun ákveðið að nota ETS fremur en hráefnisskatt til að tempra losun.
Vafasöm skattáform
Eftir nokkurt at og misvísandi skilaboð úr stjórnarráðinu, tók fjármálaráðherra loks af allan vafa og dró þessar hugmyndir til baka. Allt er gott sem endar vel, segir orðtækið. Hins vegar er umhugsunarefni hví þessi misskilningur, sem svo hefur verið nefndur af kurteisi, fór af stað á annað borð. Uppákoman er sérstaklega kvíðvænleg í ljósi þess að þrjú ný kísilverkefni komast vonandi brátt á legg. Eina kísilfyrirtækið, sem nú þegar er starfandi hér á landi, Elkem á Grundartanga, hefur í hyggju að auka umfang starfseminnar. Fyrrnefnd skattafyrirætlan hefði gert þau áform að engu og reyndar lagt að velli núverandi starfsemi Elkem. Sú niðurstaða átti ekki að koma ráðamönnum á óvart enda málið margrætt á undanförnum árum.
Skyndiákvarðanir óheppilegar
Atburðarásin leiðir hugann að því almenna umhverfi sem við búum fjárfestingu í landinu. Tíðar og tilviljanakenndar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu á liðnum þremur árum og óvarlegt er að treysta á að þessar grunnundirstöður hagkerfisins séu eins í dag og í gær. Það eina, sem er fast í hendi eru stöðugar breytingar. Ríkisfjármálin á Íslandi á hins vegar hvorki að meðhöndla sem átaksverkefni né beita skyndireddingum. Fjárhag hins opinbera ber þess í stað að rétta af með varanlegum hætti með því að auka efnahagsleg umsvif í landinu til frambúðar. Sá veiki hagvöxtur, sem nú má greina, byggist á einkaneyslu. Skuldug íslensk heimili geta ekki ein og óstöðug borið vöxtinn lengi uppi.
Kjarni máls er því ekki flókinn. Það bráðvantar aukna fjárfestingu hér á landi til að skapa megi framtíðarvirði og útflutning. Óumdeilt er að tekjuáhrif örfárra fjárfestingarverkefna eru umtalsvert meiri en áformaðar tekjur af hinu vanhugsaða kolefnisgjaldi. Þannig má með varfærnum hætti reikna út að skatttekjur ríkissjóðs af framkvæmdum við álver og kísilver í Helguvík næmu vel á annan tug milljarða á ári. Því verður að láta nú þegar af flumbrugangi sem rýrir traust á stofnunum og stjórnvöldum landsins, hvort sem er gagnvart útlendingum eða okkur sjálfum. Þá mega ráðamenn ekki freistast til að reyna að skilja á milli nýrra fyrirtækja og rótgróinna þegar á að fá útrás fyrir skammsýna skattgleði. Hin nýju verða nefnilega rótgróin um leið og þau hefja starfsemi. Nýir fjárfestar eru ekki það bláeygir að þeir líti bara til spariviðmóts sem kann að mæta þeim í upphafi ef hinir rótgrónu þramma sífelld svipugöng. Við eigum því að taka kurteislega og fagmannlega á móti erlendum fjárfestum og reyna að gera við þá viðskiptasamninga sem við höfum góðan hag af og vonandi þeir líka. Það er hvorki siðaðra háttur að breyta reglunum eftir á né reyna að þurrausa þá sem geta ekki forðað sér með hraði. Kolefnisskatturinn fékk farsælan endi eins og hefðbundin Hollywood mynd. Vonandi dettur engum í hug að gera framhaldsmyndina. Þær eru alltaf verri ef eitthvað er.