Sterk samtök í veiku umhverfi

20. des. 2011

  • Stjórn 2009 Helgi

Samtök iðnaðarins hafa aldrei verið sterkari en nú. Samtökin eru að stækka umtalsvert og fjölgun félaga gefur okkur aukinn slagkraft í þeirri baráttu sem framundan er. Ekki veitir af því efnahagsumhverfið er áfram veikt, það vantar aukinn kraft í margar greinar atvinnulífsins ekki síst vegna þess að áfram hefur verið fylgt rangri efnahags­stefnu.

Samtök iðnaðarins hafa aldrei verið sterkari en nú. Samtökin eru að stækka umtalsvert og fjölgun félaga gefur okkur aukinn slagkraft í þeirri baráttu sem framundan er. Ekki veitir af því efnahagsumhverfið er áfram veikt, það vantar aukinn kraft í margar greinar atvinnulífsins ekki síst vegna þess að áfram hefur verið fylgt rangri efnahags­stefnu. Í stað þess að taka höndum saman um öfluga hagvaxtarstefnu sem byggðist á fjárfestingum og aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu hafa stjórnvöld fetað veg niðurskurðar og skattpíningar í stað þess að breikka skattstofnana með því að greiða fyrir auknum fjárfestingum og umsvifum.

SI og SART sameinast

Fyrir skömmu gengu Samtök iðnaðarins og SART, Samtök rafverktaka, frá sam­einingu undir nafni SI. Við það fækkar stoðum innan Samtaka atvinnulífsins um eina og verða nú 7 að tölu. Sameining þessara tveggja stoða er mikið fagnaðar­efni og eflir starf okkar á sviði mann­virkja- og byggingariðnaðar. Félagar í SART eru um 200 talsins.

Viku eftir að SI og SART sameinuðust gekk Meistarafélag húsasmiða til liðs við SI og bættust okkur þá 120 nýir félagar sem við bjóðum einnig velkomna. Húsa­smiðirnir eiga svo sannarlega heima í Samtökum iðnaðarins eins og fleiri hópar byggingariðnaðarmanna sem eru á leið til okkar nú á jólaföstu. Við væntum þess að fyrir áramót gangi til liðs við okkur Múrarameistarafélag Reykjavíkur og Félag dúklagn­inga – og veggfóðrara­meistara. Von er á enn fleiri aðilum úr byggingargreininni sem eftir þessar breyt­ingar verður sam­einuð í heild innan Samtaka iðnaðarins. Það er mikið fagnaðarefni enda standa samtökin ekki vel undir nafni nema þessir aðilar séu hluti þeirra. Með þess­um breytingum fjölgar í SI um 40% og við trúum því að þessi öflugi liðsauki efli samtökin til enn frekari dáða. Því segi ég að Samtök iðn­aðarins hafi aldrei verið sterkari en nú.

Hvernig var árið?

Þegar við hjá Samtökum iðnaðarins lítum yfir árið 2011 finnum við fyrir blendnum tilfinningum. Við fögnum fjölda nýrra félaga og sjáum að samtökin eru að efl­ast. Þá gleðjumst við yfir ýmsu sem tekist hefur að þoka í rétta átt. Við höf­um staðið fyrir átaksverkefninu Ár ný­­sköp­unar og teljum að það hafi heppnast einkar vel. Átakið hefur fært okkur heim sanninn um að það býr mikið afl í iðn­aðinum og atvinnulífinu öllu. Nýsköpun er öflug og er að skila árangri miklu víðar en við gerum okkur ljóst að óat­hug­uðu máli. Það er gleðiefni og eykur okkur bjartsýni og áræði þegar horft er inn í nýtt ár og til framtíðarinnar.

Vonbrigðin snúa að því rekstrarum­hverfi sem atvinnulífinu er búið á Íslandi um þessar mundir. Enn eitt árið er liðið þar sem beitt er rangri efnahagsstefnu sem gerir það að verkum að Íslendingar eru ekki að nýta þau tækifæri sem bjóð­ast. Tíminn er illa nýttur og enn eitt glatað ár hefur bæst við að þessu leyti.

Það hefur ekkert breyst

Fyrir einu ári sagði ég hér í blaðinu: „Í stað þess að standa fyrir djarfri vaxtar­stefnu til að efla verðmætasköpun, vinna bug á atvinnuleysi og auka útflutnings­tekjur, hefur verið beitt harðri skattpín­ing­arstefnu sem dregur mátt úr fólki og fyrirtækjum. Vantað hefur skýran vilja til að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar með markvissum og ábyrgum hætti. Þess í stað hefur tíminn farið í að deila um stefnumörkun varðandi nýtingu orkuauð­linda og fiskistofna.“

Það hefur því miður ekkert breyst á einu ári hvað þetta varðar. En þjóðin er í vaxandi mæli að gera sér ljóst að stefna stjórnvalda gengur ekki upp. Skoðana­kann­anir sýna að stjórnarflokkunum er hafnað. Annar þeirra er kominn niður í 18% fylgi og hinn í 13% ef marka má þær vísbendingar sem skoðanakannanir gefa. Þeim verður því refsað í næstu kosningum – nema þeir sjái að sér, snúi blaðinu við og taki upp djarfa efnahags­stefnu. Það þarf reyndar mikla bjartsýni til að trúa á slíkar breytingar!

Ég vona að nýtt ár gefi okkur nýjar vonir og að Íslendingar haldi áfram að varðveita þá trú að við höfum mikla möguleika og við munum nýta þá strax og hindrunum verður rutt úr vegi. Það styttist alltaf í það.

Samtök iðnaðarins óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Helgi Magnússon, formaður SI