Þetta er vel hægt

6. feb. 2012

  • OrriH-2011
Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum á undanförnum vikum haft samband við ýmsa félagsmenn okkar, stjórnendur íslenskra iðnfyrirtækja og spurt um stöðu og horfur í rekstri þeirra. Sum þessara svara eru birt hér í blaðinu og sýna fjöl­breytta mynd. Ýmsir eru hóflega bjart­sýn­­ir, ekki síst þeir sem stunda útflutning eða byggja hluta rekstrar síns á erlend­um ferðamönnum.
Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum á undanförnum vikum haft samband við ýmsa félagsmenn okkar, stjórnendur íslenskra iðnfyrirtækja og spurt um stöðu og horfur í rekstri þeirra. Sum þessara svara eru birt hér í blaðinu og sýna fjöl­breytta mynd. Ýmsir eru hóflega bjart­sýn­­ir, ekki síst þeir sem stunda útflutning eða byggja hluta rekstrar síns á erlend­um ferðamönnum. Á síðasta ári varð makrílveiði ánægjuleg búbót í hag­kerfinu en í ár standa væntingar til þrótt­mikillar loðnuvertíðar. Tækifærin eru víða en margir eru hikandi. Óvissan lykur enn um.
 
Uppnámið í fjármálakerfi Evrópu hefur enn ekki komið niður á íslenskum fyrir­tækjum svo að teljandi sé. Við erum þó afar næm gagnvart efnahag álfunnar og munum finna fyrir því jafnharðan ef þar hægist meira um. Við getum ekki brynj­að okkur gegn slíkum atburð nema að hluta. Okkur er þó í lófa lagið að leysa úr læðingi mun meiri kraft og auka atvinnu hér í landinu sjálfu.

 

Menntun þróist með atvinnulífi

Hvort sem litið er til lengri eða skemmri tíma er mjög aðkallandi að þróa mennta­kerfi okkar hratt að framtíðaratvinnulífi þjóðarinnar. Samtök iðnaðarins þreytast ekki á að benda á að fjölmörg fyrirtæki okkar finna ekki starfsfólk með menntun og reynslu sem þeim hentar. Þessi stað­reynd er sérlega bagaleg þegar haft er í huga hve margir eru án vinnu eða hafa flust úr landi vegna atvinnuskorts. Ekki er sérstaklega við núverandi menntayfir­völd að sakast, fremur en stjórnvöld fyrri ára. Þessi menntagjá hefur verið að myndast á löngum tíma og Ísland er ekkert einsdæmi hvað þetta varðar því að systursamtök okkar annars staðar í Evrópu glíma einmitt við sams konar vanda. Í bígerð er víðtækt verkefni Sam­taka okkar, menntayfirvalda og  annarra hagsmunaaðila einmitt um þetta grund­vallarviðfangsefni.

Þau fyrirtæki okkar, sem hraðast vaxa, koma mörg úr tækni- og hugverkagrein­um. Eðli málsins samkvæmt eru slíkar greinar oft viðkvæmar enda bjóða þær oft nýjar eða endurbættar vörur og ekki er hægt að ganga að vinsældum afurð­anna vísum. Þessir vaxtarsprotar þarfn­ast eins fyrirsjáanlegs umhverfis hér heima og hægt er að veita. Við hjá Sam­tökum iðnaðarins höldum til streitu til­lögum okkar um verkefnið “Betri þjón­usta fyrir minna fé” sem við lögðum til fyrir rúmu ári og fylgdum eftir með ríf­legu fé af iðnaðarmálagjaldinu sáluga. Markmiðið er að virkja úthlutunarferli samkeppnissjóða til að fá íslensk hug­verka­­­fyrirtæki til að aðstoða hið opinbera á Íslandi við að bæta ferli og spara fé í rekstri sínum. Um leið verði til afurðir, vörur og þjónusta sem fyrirtækin eigi sjálf, geti þróað áfram og selt á alþjóð­legum markaði, vonandi með drjúgum hagnaði. Þessi aðferðafræði rataði inn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með kjara­samningum sl. vor en hefur enn ekki komist til framkvæmda.

Hvar er rammaáætlunin?

Ýmis framsækin íslensk fyrirtæki leitast við að byggja upp lausnir sínar kringum íslenskan orkuiðnað. Þarna höfum við kjörið tækifæri til að verða í fararbroddi á heimsvísu, þróa lausnir í íslenskri orku­nýtingu en selja svo um víðan völl. Fram­­farir í slíkri starfsemi verða oft í stökkum, til að mynda þegar ný orku­verk­efni leiða til nýrrar þekkingar og aðferðafræði. Straumhækkunin og aðrar uppfærslur, sem fara nú fram á álverinu í Straumsvík, eru á tæknilegum heims­mæli­­kvarða þótt lágt fari.

Flestir virðast á einu máli um að nýta eigi orku í iðrum Íslands með skynsam­legum hætti. Engin verkefni eru þó fyrir­fram hafin yfir gagnrýni því að öllum slíkum framkvæmdum fylgir rask sem oftast má deila um hvort sé réttlætan­legt. Til að leiða slíkar umræður til lykta með skipulegum hætti var fyrir mörgum árum efnt til gerðar rammaáætlunar um virkjanakosti í landinu. Stjórnvöld taka jafnan fram að ekki verði hafist handa við ný verkefni fyrr en sú áætlun liggur fyrir. Þessari vinnu lauk sl. haust og þá hafði miklu verið til kostað. Áætlunin var faglega unnin og naut þverpólitísks trausts. Á síðustu stigum þeirrar vinnu var áætlunin hins vegar tekin úr hinu faglega ferli og komið fyrir í pólitísku bakherbergi. Ljóst var ætíð að Alþingi myndi eiga síðasta orðið um áætlunina en aldrei stóð til að vélað væri um hinar faglegu niðurstöður áður en stjórnmála­menn fengju að ræða málið fyrir opnum tjöldum. Þannig hurfu ýmsir virkjana­kostir á síðustu stundu með dularfullum hætti úr nýtingarflokki en birtust skyndi­lega í bið- og verndarflokkum sem fyrir voru þéttskipaðir. Enn hefur áætlunin ekki verið lögð fyrir Alþingi og meðan svo er ástatt verður ekki lagt í ný verk­efni.

 

Iðnaðurinn fyrsta fórnarlamb óvissu í sjávarútvegi

Svipaða sögu er að segja af iðn- og tæknifyrirtækjum sem sinna sjávarút­vegi. Tugir íslenskra fyrirtækja selja til útlanda í eigin nafni afurðir sem þróaðar hafa verið í samvinnu við íslenska út­­gerð. Þessi fyrirtæki eru af ýmsum toga svo sem í vélbúnaði, líftækni, gerð fæðubótarefna, málmtækni, lyfjaiðnaði, skynjaratækni og kæliaðferðum. Sum þessara fyrirtækja fá umtalsverðan hluta tekna sinna frá útlöndum, í sumum tilvikum yfirgnæfandi meirihluta.

Framþróun og lausnamyndun fyrir­tækjanna fer hins vegar enn fram hér á landi. Sá skortur á fyrirsjáanleika, sem stjórnvöld hafa valið íslenskri útgerð síðastliðin ár, hefur verkað eins og sterkt deyfilyf. Stjórnendur sjávarútvegsfyrir­tækja halda að sér höndum og hugsa til eins skamms tíma og þeir geta. Skipa­floti og búnaður í botnfiskveiðum hefur á nokkrum árum úrelst hratt og fjárfesting hefur skroppið saman um þrjá fjórðu frá því sem áður var. Það eru fyrst og fremst fyrirtæki í uppsjávarveiðum sem uppfæra tæki sín. Ef óvissunni verður aflétt má gera sér vonir um að íslensk útgerðarfyrirtæki nái sér hratt á strik eftir nokkurra ára óvissu, á meðan þau vörðu rekstrarafgangi sínum að mestu til að greiða niður skuldir. En íslensk iðn­fyrirtæki í þessari grein hafa misst nokkur ár úr þróunarferli sínu og þau verða ekki endurheimt. Ef öll útgerðar­fyrir­tæki hefja fjárfestingar á ný á sama tíma má jafnframt búast við fjárfesting­ar­­bólu á þessu sviði. Það yrði þá ekki í fyrsta skipti sem við ásköpuðum okkur slíka sveiflumögnun í þessu landi.

Dæmi þar um eru verklegar fram­kvæmd­­ir. Um miðjan síðasta áratug var hið opinbera geysiötull verkkaupi á sama tíma og Íbúðalánasjóður og bankar keppt­­ust við að veita fé til mannvirkja­gerðar. Útkoman varð yfirbólginn fram­kvæmdageiri með fasteigna- og skulda­bólu sem síðar sprakk. Um þessar mund­ir er  hægt að fá verktaka til fram­kvæmda fyrir lítið fé og lífeyrissjóðir hafa boðist til að fjármagna til langs tíma ýmsar hagkvæmar lagfæringar á innvið­um landsins. En þá bregður svo við að hið opinbera heldur að sér höndum. Svona þarf þetta þó ekki að vera. Svíar brugðust til að mynda þveröfugt við sambærilegri stöðu. Á uppgangsárunum kringum 2005 hélt sænska ríkið sér til hlés en hefur heldur bætt í núna þegar hægt hefur um og framkvæmdaaðilar falbjóða þjónustu sína við lægra gjaldi en fyrr. Þá hefur elsti seðlabanki heims, Riksbanken í Stokkhólmi, verið lunkinn við að stíga ölduna. Á þessu norræna dæmi sést að boðaföllin sem á okkur dynja þurfa ekki nauðsynlega að vera svo dramatísk sem raun ber vitni, heldur er umfang þeirra að miklu leyti heimatilbúið.

Það sem keisarans er

Ofan í fyrrgreinda framkvæmdastefnu, sem ýmist er í ökkla eða eyra, flækir opinber gjaldtaka myndina enn frekar. Mitt í framleiðsluslakanum og atvinnu­leysinu mælist verðbólga nú skjótast upp.  Frá áramótum hefur hið opinbera enn eina ferðina verið iðnast við að þrýsta upp vísitölunni með hækkuðum álögum. Þetta er alger óþarfi og beinlínis skaðlegt þar sem opinber rekstur hér á landi á fyrst og fremst við útgjaldavanda að stríða en ekki tekjuvanda. Tekjurnar munu aukast með auknum umsvifum í hagkerfinu. Verkefnið er því ekki svo flókið þegar á allt er litið: Leyfum efna­hags­kerfinu að taka á sprett en þvæl­umst ekki fyrir.