Alltaf vantar tíma

2. mar. 2012

  • Stjórn 2009 Helgi

Hjá Samtökum iðnaðarins er höfð í heiðri sú regla að enginn getur setið lengur í senn sem stjórnarmaður eða formaður en 6 ár. Með því er tryggð nauðsynleg endurnýjun og komið er í veg fyrir að stjórnarmenn lendi í þeirri sjálfheldu að trúa því að þeir séu ómiss­andi og megi ekki hætta vegna þess að engum öðrum sé treystandi.

Hjá Samtökum iðnaðarins er höfð í heiðri sú regla að enginn getur setið lengur í senn sem stjórnarmaður eða formaður en 6 ár. Með því er tryggð nauðsynleg endurnýjun og komið er í veg fyrir að stjórnarmenn lendi í þeirri sjálfheldu að trúa því að þeir séu ómiss­andi og megi ekki hætta vegna þess að engum öðrum sé treystandi. Sá kaleikur er einfaldlega tekinn frá fólki með því að hafa viðmiðun af þessu tagi. Hér er um góða reglu að ræða og mætti beita henni á ýmsum öðrum svið­um samfélagsins þar sem fólk er gróið við stóla sína tugi ára, oft á tíðum löngu eftir að það hefur nokkuð fram að færa eins og dæmin sýna.

Á þeim 6 árum sem ég hef gegnt for­mennsku í SI hefur mikið gengið á í þjóðfélaginu. Þegar ég tók við árið 2006 voru enn eftir 2 ár af uppsveiflunni áður en hrunið brast á. Síðan hefur atvinnu­lífið barist fyrir endurreisn samfélagsins og talið sig mæta takmörkuðum skilningi stjórnvalda á mikilvægi atvinnusköpunar og fjárfestingar til eflingar iðnaðar og annarrar atvinnustarfsemi. Síðustu þrjú ár hafa einkennst af þessari baráttu, til­raunum til samstarfs við ríkisvaldið og oftar en ekki sviknum loforðum. Við gætum verið komin mun lengra á veg í endurreisn ef hér hefði ekki verið fylgt rangri efnahagsstefnu stöðnunar og skattpíningar fólks og fyrirtækja. Þrátt fyrir það hefur margt jákvætt og áhugavert verið að gerast í iðnaðinum. Það höfum við upplifað sterkt á undan­gengnum misserum. Verður vikið að því hér á eftir.

Störfum fækkaði í iðnaði um 17,5%

Lítum fyrst á nokkrar tölulegar stað­reyndir um þróun hér á landi frá árinu 2006 til 2012: Störfum í iðnaði og mannvirkjagerð hefur fækkað á þessum tíma úr 30,800 í 25,400 eða um 17,5%. Fjöldi starfa á vinnumarkaði hefur hins vegar aðeins dregist saman um 2,8%, úr 169,900 í 165,100 þannig að ljóst má vera að iðnaður hefur fengið þungt högg saman borið við aðrar greinar atvinnumark­aðar­ins. Atvinnuleysi var 2,5% árið 2006 en er nú 6%, skv. tölum frá Hagstofu Íslands. Atvinnuþátttaka hefur minnkað úr 82,10% í 78,40%. Til viðbótar atvinnu­leysinu eru svo glötuð störf á tímabilinu vegna þeirra sem flutt hafa úr landi um­­fram aðflutta. Þá hefur kaupmáttur launa rýrnað því að verðbólga tímabilsins mæl­ist 45% á meðan laun skv. launavísi­tölu hafa hækkað um 37%. Landsframleiðsla á föstu verðlagi hefur þó aukist um 1,8% og það gleðilegasta er að útflutningur á föstu verðlagi hefur aukist á þessum 6 árum um 48%. Sú aukning liggur að drjúgum hluta í iðnaði.

Stórt og smátt

Á árunum frá 2006 til 2012 hefur at­­hygli einkum beinst að stórum fyrirtækj­um og verkefnum í iðnaði. Á tímabilinu tók Alcoa Fjarðarál til starfa og nú standa yfir miklar framkvæmdir og fjár­festingar hjá álveri Alcan í Straumsvík, þá hafa gagnaver komist í gang, Becro­mal hóf starfsemi á Akureyri og verksmiðja Actavis var stækkuð um helming í Hafnarfirði.

Margt annað hefur ekki vakið eins mikla athygli en er engu að síður mikil­vægt og vel heppnað. Gróska hefur verið í starfsemi sprota­fyrir­tækja og mikil bylgja er með ís­­lensku handverki og hönnun. Heilbrigðis­iðnaður hefur verið að eflast innan SI og til er að verða heilbrigðisklasi sem hefur að markmiði að efla samstarf með aukn­um tengslum við stjórnvöld, heilbrigðis­stofnanir og önnur fyrirtæki á heilbrigðis­sviði með bætta þjónustu, hagræðingu, verðmæta­sköpun og útflutning að leiðar­ljósi. Mikil gróska er í starfsemi tölvuleikja­iðnaðar á Íslandi og greinin veltir nú um 10 milljörðum króna og veitir 600 manns atvinnu. Ef rétt verður að málum staðið gæti þessi grein skapað 5.000 manns atvinnu eftir 10 ár og 70 milljarða út­­flutningstekjur á ári.

Íslenskar náttúruvörur eru í sókn og farnar að skapa gjaldeyristekjur, íslensk hugbúnaðarfyrirtæki sækja í sig veðrið, Carbon Recycling er hátæknifyrirtæki sem hefur hafið framleiðslu á vistvænu eldsneyti úr koltvísýringsútblæstri og orku frá jarðvarma, ýmis iðnfyrirtæki hafa unnið til alþjóðlegra viðurkenninga fyrir tæknilausnir og við bindum miklar vonir við þann stuðning sem Samtök iðn­aðarins hafa veitt háskólum og öðrum menntastofnunum á undanförnum árum. Við gerum okkur ljóst að menntun er lykill að þeirri þróun sem hér hefur orðið og þarf að eflast enn frekar.

Sem betur fer væri unnt að halda endalaust áfram og það gleður einnig að nýsköpunin fer fram í fyrirtækjum á flestum sviðum, jafnt gömlum sem nýj­um, litlum og stórum. Framþróun og kraftur einkenna iðnaðinn almennt séð – þrátt fyrir allt sem á móti hefur blásið.

Forréttindi

Ég lít á það sem mikil forréttindi að hafa átt þess kost að gegna formennsku í Samtökum iðnaðarins og vinna með öllu því góða fólki sem hefur komið þar að verki. Meðstjórnarmenn mínir þessi sex ár hafa verið: Aðalheiður Héðins­dóttir, Hörður Arnarson, Anna María Jónsdóttir, Ingvar Kristinsson, Loftur Árnason, Sigurður Bragi Guðmundsson, Þorsteinn Víglundsson, Tómas Már Sigurðsson, Andri Þór Guðmundsson, Bolli Árnason, Vilborg Einarsdóttir, Sigsteinn P. Grétarsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Kolbeinn Kolbeinsson. Allt hið mesta sómafólk eins og þeir fram­kvæmdastjórar sem stýrt hafa Samtök­unum á þessum tíma: Sveinn Hannes­son, Jón Steindór Valdimarsson og Orri Hauksson. Sama gildir um allt starfs­fólkið sem stendur sig með prýði.

Samtökin aldrei sterkari

Samtök iðnaðarins hafa aldrei verið sterkari en nú. Ekki veitir af því verkefn­in framundan eru ærin.

Þegar ég lýk nú þessum ferli mínum og þakka fyrir samstarfið, velti ég því auð­vitað fyrir mér hvort tekist hafi að áorka því sem að var stefnt. Því verður seint svarað því starfið er margt og verkefnin taka aldrei endi.

Tíminn til að hrinda góðum málum í framkvæmd er liðinn í minni formanns­tíð. Eða eins og hagyrðingurinn sagði: „Áfram líður ævin ströng, alltaf vantar tíma.“