Fagleg umræða um Evrópumál
Niðurstöðum könnunar SI ber saman við aðrar kannanir sem gerðar hafa verið á síðustu mánuðum meðal almennings. Þær sýna hik sem virðist vera á Íslendingum gagnvart aðild að ESB og endurspegla vel það ástand sem ríkir í efnahagsmálum heimsins. Um helmingur virðist vera þeirrar skoðunar að ljúka beri viðræðunum og fá fram samning sem borinn verði undir þjóðaratkvæði. Svo virðist sem fólk vilji bíða átekta og sjá hvernig ESB gengur að leysa úr þeim vanda sem nokkrar aðildarþjóðir glíma nú við. Hvernig mun Seðlabanki Evrópu koma að lausn erfiðra mála og við hverju geta Íslendingar búist í framtíðinni? Er ESB bandalag vinaríkja sem standa saman við úrlausn erfiðra mála og hjálpa hvert öðru? Hvað eru Þjóðverjar og aðrar öflugar þjóðir reiðubúnar að ganga langt í því að taka á sig skuldir annarra þjóða? Þetta eru áleitnar spurningar fyrir marga.
Ólík ríki sem starfa saman
Nú er það auðvitað svo að aðildarríki ESB eru ólík innbyrðis. Menning þjóðanna sem löndin byggja er ólík og tungumálin einnig. Við fyrstu sýn virðist ekki margt sameina ríki ESB. Þvert á móti virðist svo margt ólíkt með þeim að ótrúlegt má heita að þau geti starfað saman á markvissan og agaðan hátt til farsældar fyrir ríkin öll. Það er því sannarlega eftirtektarvert að öll 27 ríki ESB skuli deila framtíðarsýn um öfluga Evrópu ólíkra þjóða með sameiginlegan markað, friðarbandalag og um leið viðskiptabandalag.
Evrópusambandið spratt upp úr erfiðri reynslu nágrannaþjóða sem höfðu ítrekað háð blóðugar styrjaldir sem engu skiluðu öðru en ómældu tjóni. ESB er vissulega stofnað um hagsmuni og það er í grunninn viðskiptabandalag. En það er einnig og ekki síður friðarbandalag sem hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna á heimsvísu. Þar er vörður staðinn um réttindi barna, kvenna og minnihlutahópa, betur en annars staðar í heiminum. Innan ESB eru þjóðir sem láta sig mannhelgi, tjáningarfrelsi og persónuvernd miklu skipta. Gildi sem margir hér á landi taka sem sjálfsögð, en fæstir íbúar þessa heims búa þó við. Hin nána samvinna ESB ríkjanna neyðir þau til þess að skera úr ágreiningi með samningum eða fyrir dómstólum, stríðsátök eru ekki í boði. Ríkin mynda með sér einn stóran markað þar sem nærri engar hindranir eru fyrir viðskiptum eða öðrum menningarlegum samskiptum. Kosturinn er sá að atvinnulífið hefur óhindraðan aðgang að markaðnum fyrir afurðir sínar og getur sótt þangað allar þær bjargir sem það þarfnast, allt frá íhlutum til vinnuafls og fjármagns.
Náum hagstæðri niðurstöðu
Ljóst er að möguleg aðild Íslands að ESB er umdeild. Umræðan er oft mjög ómálefnaleg og mikið um rangfærslur sem gerir það að verkum að flestum reynist erfitt að átta sig á staðreyndum málsins.
Eftir að Alþingi ákvað að sækja um aðild og viðræður hófust, er hafið ákveðið úrvinnsluferli sem á að skila þjóðinni aðildarsamningi. Allir sem að þessu ferli koma þurfa að leggja sig fram um að niðurstaðan verði sem hagstæðust, hvort sem viðkomandi er með aðild, á móti eða óákveðinn.
Fólk treystir því að fá að greiða atkvæði um samninginn þegar þar að kemur. Það er ólíklegt að sátt náist meðal þjóðarinnar ef aðildarviðræður verða stöðvaðar eða að þeim staðið með ófaglegum hætti.
Fagleg og öfgalaus umræða
SI eiga að beita sér fyrir því að umræða um Evrópumálin sé fagleg og öfgalaus. Friður mun hvorki ríkja í íslensku efnahagslífi né hjá þjóðinni, ef samningahóparnir vinna ekki af heilindum og fagmennsku. Mikilvægt er að fulltrúar iðnaðar og annarra greina atvinnulífsins verði kallaðir til áður en viðræður um einstaka og mikilvæga málaflokka hefjast. Vanda þarf alla vinnu og gefa henni þann tíma sem nauðsyn krefur til að sátt verði um málin og sem hagstæðastar niðurstöður fáist.