Skýr framtíðarsýn og samvinna
En hvers vegna er þessi vandi til staðar og hvers vegna er ekki brugðist við honum í menntakerfinu? Það eru flestir sammála um að það sé óásættanlegt að hér sé 7% atvinnuleysi á sama tíma og fyrirtækin leita logandi ljósi að verk- og tæknimenntuðu starfsfólki. Þeir sem líta yfir atvinnuauglýsingar helgarblaðanna hafa eflaust tekið eftir miklum fjölda auglýsinga þar sem leitað er að t.d. forriturum og kerfis- og verkfræðingum.
Það eru í raun engin skynsamleg svör til við því hvers vegna ekki hefur verið brugðist við þótt að lengi hafi verið vitað að þessi skortstaða sé uppi. Um 11% af fjárlögum þjóðarinnar fara í mennta- og menningarmál og um a.m.k. 50% af almennu rekstrarfé sveitarfélaganna en kerfið er þunglamalegt og aukinnar langtímahugsunar er þörf til að koma á breytingum. Svo dæmi sé tekið þá mun unga fólkið okkar sem hefur framhaldsskólanám haustið 2012 ljúka fyrstu háskólagráðu vorið 2020. Og það er ljóst að langtímahugsun er ekki sterkasta hlið þeirrar pólitísku ákvarðanatöku sem stefna þjóðarinnar í menntamálum byggir á.
SI hefur lengi unnið að ýmsum menntatengdum verkefnum í samvinnu við fjölmarga aðila. Mikil áhersla hefur verið á iðn- og verknám og er aðkoma SI að Íslandsmótinu í iðn- og verkgreinum dæmi um velheppnað átak sem vaxið hefur ár frá ári.
SI hefur nýverið hafið samvinnu við menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga um að móta aðgerðaáætlun með það að markmiði að efla tækni- og raunvísindamenntun og áhuga grunnskólanemenda með sérstakri áherslu á 5., 6. og 7. bekk. Í menntamálaráðuneytinu er stefnan mörkuð með námskrám og því kerfi sem fjármagni er úthlutað eftir. Sveitarfélögin 75 reka síðan grunnskólana og eru því óneitanlega ráðandi í áherslum í þeim. Þó svo að fyrirtækin í landinu komi ekki beint að ákvarðanatöku varðandi skóla landsins geta þau lagt mikið af mörkum ef allir leggjast á eitt. Við bindum því miklar vonir við þetta samstarf og viljum gera okkar besta til að vel takist til með framtíðina í huga.
SI koma einnig að eða standa fyrir fleiri verkefnum sem hagsmunahópar innan Samtakanna vinna að. SUT, samtök upplýsingatæknifyrirtækja, eru aðilar að metnaðarfullu verkefni Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Verslunarskóla Íslands um að þróa námsbraut á upplýsingatæknisviði. Að verkefninu koma einnig tölvunarfræðideildir Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Virkt samstarf einmitt þessara aðila teljum við að sé lykillinn að því að byggja upp áhugaverða námsbraut bæði fyrir nemendur og atvinnulífið.
Annað áhugavert tilraunaverkefni sem er á teikniborðinu er TækniFæri, einnig í boði SUT, þar sem völdum grunnskólum verður boðinn gestakennari í tvöfaldan enskutíma þar sem kennsla í leikjaforritun og ensku verður samþætt með það að markmiði að kveikja áhuga nemenda á upplýsingatækni.
Iðn- og verknám er SI mikið hagsmunamál en mikil vinna hefur verið lögð í hjá ráðuneyti menntamála undanfarna mánuði að móta þar framtíðarstefnu og leggur SI sig fram um að koma sínum áherslum að í þeirri vinnu eins og kostur er. Samhliða því hefur verið úthlutað úr vinnustaðanámssjóð menntamálaráðuneytisins tvisvar sinnum. Sjóðurinn er nýjung og bundnar miklar vonir við að hann verði til þess að fleiri fyrirtæki taki á móti nemum og leggi metnað í að vanda til verka. Sá flöskuháls sem myndast hefur af því að fyrirtæki sjá sér ekki fært að taka nemendur á samning er verkefni sem atvinnurekendur þurfa að leysa ef ætlunin er að kveikja áhuga unga fólksins á slíku námi og tryggja framtíðarvinnuafl þessara mikilvægu greina.
Til að við náum að breyta áherslum í menntamálum þurfa allir að leggja sitt af mörkum, nemendur, foreldrar, kennarar og skólastjórnendur, fyrirtækin, sveitafélögin og ráðuneytið. Það er mikil áskorun að standa þannig að hlutunum að þegar unga fólkið, sem nú er að velja sér námsbrautir í framhaldsskóla og háskóla kemur út í atvinnulífið að 7 til 10 árum liðnum hafi þeim sem hafa starfsmenntun innan verk- og tæknigeirans og tækni- og raunvísindamenntun á háskólastigi fjölgað til mikilla muna.