Verkmenntun er forsenda velferðar
Tæknivædd atvinnugrein
Allt hefur þetta leitt til þess að málm-og véltæknifyrirtæki hér á landi hafa tekið stórfelldum tæknilegum framförum og standast mörg þeirra samanburð við samskonar fyrirtæki annars staðar í veröldinni. Ef vélar og tæki sem eru nú notuð eru borin saman við það sem var fyrir 20 til 30 árum er breytingin ótrúleg. Nú sjást víða í málmiðnaðarfyrirtækjum tölvustýrðar vélar og allt það nýjasta sem tæknivæddar þjóðir hafa tileinkað sér. Þar eru iðnaðarmenn sem kunna vel til verka og sækja endurmenntun í samræmi við framvindu tækninnar. Að auki er allt skipulag og umgengni í fyrirtækjum orðin til fyrirmyndar og þau sannarlega áhugaverðir vinnustaðir. Því er eðlilegt að þessi grein flokkist undir það sem nú er oft kallað skapandi iðngrein.
Tækifærin til staðar
Með þetta í huga er augljóst að málm- og véltækniiðnaðurinn hefur burði til að taka við stórum hluta þess unga fólks sem sækist eftir áhugaverðum og vel launuðum störfum á komandi árum og áratugum. Áætlað hefur verið að næstu tíu árin bætist um það bil 20 þúsund nýliðar á vinnumarkaðinn. Vitað er að hvorki sjávarútvegur né landbúnaður þarf á fleira fólki að halda meðal annars vegna tæknivæðingar og takmarkaðra auðlinda. Því er eðlilegt að horft sé til annarra greina. Eitt stendur þó í veginum en það er mikill skortur á faglærðu fólki í stálsmíði, vélvirkjun, rennismíði, málmsuðu, málmsteypu og blikksmíði. Hér er um að tefla tæknistörf þar sem virðisaukning er veruleg en það er forsenda þess að unnt sé að greiða góð laun. Vinnustaðirnir eru nú flestir þrifalegir og vel skipulagðir og þar er tæknin með öðru nýtt til að hanna og smíða eftirsóttar vélar og tæki sem seljast dýrum dómum hér heima og á alþjóðamarkaði. Sem sagt: allar forsendur eru fyrir hendi en áhugi unga fólksins beinist að öðru námi eins og sakir standa. Því er spurt hvernig á þessu standi?
Verk- og háskólanám lagt að jöfnu
Vakin hefur verið athygli á að Þjóðverjar, Finnar og Pólverjar hafa lagt mikla áherslu á iðnnám og telja það algjört grundvallaratriði til að tryggja góð lífskjör. Margar aðrar þjóðir – þar á meðal Íslendingar og þjóðir sunnar í Evrópu – hafa einlægt miðað menntunarstig sitt við hversu margir útskrifast úr háskólum með BA-próf, masterspróf eða doktorspróf. Ástæðulaust er að gera lítið úr þessari menntun en þegar kemur að því að tengja hana og verkmenntun við árangur þjóða við atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun kemur í ljós merkjanlegur munur. Sýnt hefur verið fram á að verkmenntaþjóðirnar nýta þann grunn mjög vel til að efla þá þætti atvinnulífsins sem gefa mest af sér. Þar eru tæknigreinarnar fremstar í flokki, en tilvist þeirra og hæfni byggist á vel menntuðum iðnaðar- og tæknimönnum. Í því liggur galdurinn – ekki flóknara. Þess vegna er full ástæða að efast um þá síbylju að varla sé takandi mark á annarri menntun en háskólamenntun – með fullri virðingu fyrir henni. Sannleikurinn er líka sá að þær þjóðir sem nefndar eru hér að ofan búa jafnframt yfir öflugum háskólum sem standast samskonar skólum í öðrum löndum fullkomlega snúning og jafnvel meira en það. Styrkur þessara þjóða felst í því að þær leggja verknámið að jöfnu við annað nám og uppskera ríkulega.
Hreyfing í málminum
Nokkur árangur hefur náðst með kynningarstarfi í efstu bekkjum grunnskóla og skjáauglýsingum í bíósölum og sjónvarpi. Aðsókn að grunndeildum málmiðna í mörgum framhaldssskólum hefur aukist síðustu tvö árin og ber að fagna því. Jafnfram þarf að tryggja að allir sem fara í grunndeildirnar, sem tekur tvo vetur, haldi áfram í náminu og ljúki sveinsprófum. Einstaka skólar hafa boðið nemendum sínum að hefja námið á því að læra á tölvustýrðar vélar og halda síðan yfir í handverkið eftir því sem líður á námstímann. Enn aðrir vinna með hagsmunaaðilum og menntamálaráðuneytinu að því að skilgreina og bjóða styttri námsleiðir, t.d. í stálsmíði og málmsuðu. Einnig standa vonir til að vinnustaðanámssjóður efli þann hluta iðnnámsins sem fram fer í fyrirtækjunum.
Verðmætin koma úr atvinnulífinu
Þannig er unnið að ýmsu til að gera nám í þessum iðngreinum aðgengilegra og eftirsóknarverðara. En betur má ef duga skal því tengja þarf með skilvirkari hætti atvinnustefnu framtíðarinnar því námi og þjálfun sem boðið er í skólunum – bæði hvað varðar gæði og magn. Forgangsröðunin í menntakerfinu verður að taka meira mið af þörfum atvinnulífsins því þaðan koma þau verðmæti sem velferð þjóðarinnar byggir á. Þau koma ekki af himnum ofan.