Atvinnulífið hefur ekki kosningarétt
Ómarkviss neyslustýring
Árið 2007 rættist sá langþráði draumur atvinnulífsins að hin alræmdu vörugjöld yrðu endanlega lögð af hér á landi. Skattlagning átti þaðan í frá að vera gagnsæ og byggjast á jafnræði milli fyrirtækja, atvinnugreina og vöruflokka en ekki tilviljanakenndum sköttum á mismunandi vörur. Eftir áratuga vinnu við að útrýma vörugjöldum gengu núverandi stjórnvöld hratt til verks og sneru aftur til ómarkviss og illskiljanlegs kerfis neyslustýringar, að sögn í þágu lýðheilsu og annarra göfugra markmiða. Öllum mátti þó vera ljóst að tilgangurinn var fyrst og fremst að afla fjár bakdyramegin, án þess að neytendur yrðu varir við skattheimtuna með beinum hætti. Þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, má reyndar eiga að hann viðurkenndi að tekjuöflunarsjónarmið hefðu strax borið hin meintu almannaheill ofurliði. Nú á enn feta sömu braut og afla næstum milljarðs í viðbót árlega með gjöldum á vörur sem samkvæmt stjórnvöldum eru óhollar. Hugmyndirnar byggja á afar einfeldningslegum fullyrðingum um lífstíl og heilsu þar sem einstakir þættir, sem tiltölulega auðvelt er að skattleggja, eru slitnir úr samhengi við allt annað sem hefur áhrif á heilsufar. Þessi stýrihyggja er bæði átroðslusöm í lýðfrjálsu landi og hefur auk þess ójöfn og ófyrirséð áhrif. Útfærsla hinnar auknu skattheimtu liggur þar að auki ekki fyrir, ekki frekar en vísindaleg rök fyrir hinum óljósu boðuðu breytingum. Hækkun vörugjalda á margvíslegar vörur mun ekki hafa áhrif á heilsu- eða holdafar landsmanna en mun leggjast þungt á samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu.
Einbeittur vilji til vanefnda
Árið 2009 sömdu stjórnvöld og stór iðnfyrirtæki um fyrirframgreiðslu tekjuskatts og tímabundna álagningu orkuskatts. Iðnfyrirtækin tóku á sig stórauknar byrðar í nokkur ár þegar illa áraði hjá ríkissjóði. Forsenda samkomulagsins var að hinn sérstaki tímabundni skattur félli niður að þremur árum liðnum. Skv. fjárlagafrumvarpinu ætla stjórnvöld hins vegar að hafa samkomulagið að engu, einmitt þegar iðnaðurinn hefur staðið við allan sinn hluta þess. Svipað var líka reynt í fyrra en stjórnvöld féllu blessunarlega frá fyrirætlunum sínum í það skiptið þegar ljóst varð að slíkum samningsbrotum yrði mætt af fullum lagalegum þunga. Einnig er ljóst að stjórnvöld eru með gjörtapað lagalegt mál nú ef þau vanefna sinn hluta samkomulagsins. Það versta við þessa tilhneigingu íslenskra stjórnvalda að komast frá eigin skuldbindingum er hins vegar hve trúverðugleiki landsins bíður djúpstæðan hnekki til langs tíma, t.d. í gerð fjárfestingarsamninga við erlenda aðila. Viðskiptasiðferði af þessu tagi væri fljótt að grafa undan venjulegum fyrirtækjum svo þau ættu ekki mikla möguleika á markaði.
Lýst eftir langtímahugsun
Stjórnvöld mæta miklum skilningi hjá fólki og fyrirtækjum landsins við stjórn ríkisfjármála. Fólk áttar sig á að það er hreint ekki vandalaust verk að ná endum saman og allra hagur er að ríkissjóður láti af skuldasöfnun. „Hér varð hrun“ er reglulega rifjað upp og stjórnvöld hreykja sér af verkum sínum við erfiðar aðstæður. En hver er raunin, nú þegar fjögur ár eru liðin frá bankahruninu? Ríkissjóður hefur að meðaltali verið rekinn með hátt í hundrað milljarða halla á ári eða um tvöfalt umfram fjárlög. Stjórnvöld hafa vissulega haldið í við ýmis útgjöld og gert kröfu um sparnað hjá stofnunum sínum, sem er langt í frá sársaukalaus. Í fjárlagafrumvarpinu nú er gert ráð fyrir snarminnkuðum halla frá undanförnum árum og því ber að fagna. En fögnuðurinn þarf að byggjast á raunsæi. Í fyrsta lagi hefur niðurstaðan hvert einasta undangengið ár verið milljarðatugum verri en fjárlög sögðu til um. Erfitt er að þróa með sér sannfæringu fyrir að allt annað verði uppi á teningnum í þetta sinn. Nú þegar liggja fyrir áform um milljarða ríkisútgjöld á næsta ári sem ekki koma fram í fjárlögum. Í öðru lagi er flöt krónutölulækkun á föst útgjöld ein og sér hvorki klókindaleg stefnumörkun né skilar sparnaði til langs tíma. Ef engu er breytt nema tölunum munu þær einfaldlega hækka á ný síðar. Ríkisreksturinn mun hvorki þróast né leiða til hagkvæmari aðferða í framtíðinni. Í allri kreppu felst tækifæri til að hugsa hluti upp á nýtt og láta ekki vanann festa rangt mynstur í sessi. Það er engin ráðdeild að ýta útgjaldaþörf eingöngu inn í framtíðina en gera ekki ráðstafanir til að draga úr henni.
Nýsköpun í ríkisrekstri
Aðhaldið í ríkisfjármálum undanfarin ár er bæði ofmetið og hefur að hluta komið skakkt niður. Helsti tækniháskóli landsins, Háskólinn í Reykjavík, hefur mátt þola mestan niðurskurð háskólanna einmitt á sama tíma og skortur er á tæknimenntuðu starfsfólki. Fjárfestingum hins opinbera hefur verið frestað en viðvarandi rekstrarkostnaði minni gaumur gefinn. Greiningaraðilar hafa bent á að höfuðstóll ríkiseigna hafi rýrnað að raungildi og að safnað hafi verið upp þörf fyrir aukin útgjöld á næstu árum, sem hvergi sér stað í reikningum. Það er dýrara að uppfæra innviði, svo sem samgöngumannvirki og tækjabúnað, þegar viðhaldi er ekki sinnt og hlutum leyft að grotna niður. Samtök iðnaðarins buðu stjórnvöldum að taka þátt í sameiginlegu verkefni fyrir tæpum tveimur árum, svokallaðri klasaáætlun sem nefnd var „betri þjónusta fyrir minna fé.“ Hún felst í að beisla nýsköpun í íslenskum tækni- og hugverkafyrirtækjum til að þróa nýjar og hagkvæmari aðferðir fyrir hið opinbera að inna þjónustu sína af hendi. Mennta- og heilbrigðisgeirar hins opinbera voru þar í sérstöku kastljósi og samvinnuverkefnið átti að vera hinu opinbera til heilla og fyrirtækjunum um leið. Sú áætlun, sem stjórnvöld gáfu vilyrði fyrir í maí árið 2011, hefur þó ekki náð fram að ganga eins og vonir stóðu til. Hið sama á við um fyrirheit stjórnvalda frá í maí 2011 um nýbreytni í fjármögnun og rekstri samgöngumannvirkja. Þau vilyrði reyndust einnig innistæðulaus.
Að bjarga fyrir horn
Langbesti tekjumöguleiki stjórnvalda felst í að stækka kökuna. Stjórnvöld hafa hins vegar haldið aftur af viðgangi hagkerfisins með hugmyndafræðilegri baráttu sinni við auðlindanýtingu í landinu, til lands og sjávar. Sú sífellda togstreita hefur snarminnkað fjárfestingu í landinu og tafið þróun iðngreina sem sinna auðlindaverkefnum. Hagkerfið er einfaldlega minna að umsvifum en það ella væri. Fyrir vikið búa færri hér á landi og skuldir ríkisins eru af þeim sökum meiri en vera þyrfti. Ríkisfjármálin hafa þannig byggst um of á skammsýni í tekjum og kostnaði. Á hverju hausti þarf því að bjarga fjárlagafrumvarpinu með einhverjum hætti fyrir horn, eins og nú blasir við. Brugðið er á það fyrirsjáanlega ráð að leggja nýja og hækkaða skatta á starfsemi, sem þegar er fyrir hendi, í stað þess að skattleggja með hóflegum hætti en breikka stofninn í staðinn til lengri tíma. Slíkar álögur eru skammgóður vermir.