Krefjandi áskoranir
Gengislánin enn ókláruð
Fjögur ár eru liðin frá falli bankanna og krónunnar. Tvö ár eru liðin síðan kaupleigusamningar voru dæmdir ólögleg lán og eitt ár er liðið frá því að fjármögnunarleigusamningar voru dæmdir sem ólögleg lán. Samt eru þessi mál og uppgjör félagsmanna okkar ófrágengin. Afleiðingin er sú að efnahagsreikningur mjög margra fyrirtækja er óljós og þar með geta þeirra til að standa í eðlilegum atvinnurekstri. SI hafa lagt sitt af mörkum með því að reka stefnumarkandi dómsmál sem enn hafa ekki skilað neinu í vasa félagsmanna. Fjármálaeftirlitið virðist vera vanmáttugt til að rækja skyldur sínar og á meðan býr atvinnulífið við óþolandi óvissuástand. Fjármálafyrirtækin virðast tefja málin eins og þau geta. Ein afleiðing þessara tafa er að fyrirtækin veigra sér við að sækja fram og fjárfesta.
Ekkert lát á hækkun skatta
Fjórða árið í röð standa fyrirtækin í landinu frammi fyrir skattahækkunum af ýmsum toga. Iðnaðurinn fær stóran skerf þetta árið en nú stendur til að hækka vörugjöld á matvæli um ríflega þriðjung sem mun líklega helst lenda á sykruðum vörum. Réttlætingin er manneldissjónarmið og meint offita landsmanna. Orkufrekur iðnaður fær einnig sinn skerf enda ætla stjórnvöld að ganga á bak orða sinna og framlengja orkuskatta sem áttu að leggjast af núna samkvæmt sérstöku samkomulagi sem gert var 2009. Réttlætingin er að stóriðjufyrirtækin hafi hagnast svo af veiku gengi krónunnar síðustu misserin. Þau rök eru afar veik.
Staðreyndin er sú skattaáformin nú vega mjög að starfsskilyrðum fyrirtækja okkar sem að óbreyttu munu þurfa að bregðast við með því að draga úr umsvifum. Undanfarin ár hefur alda skattahækkana riðið yfir en nú er einfaldlega nóg komið. Loka þarf fjárlagagatinu með öðrum hætti.
Kjaramálin erfið
Fjölmargir félagsmenn hafa áhyggjur af stöðu kjaramála enda ljóst að forsendur kjarasamninga munu ekki halda, einkum vegna mikillar verðbólgu. Að nokkru marki er við atvinnurekendur að sakast enda samþykktu þeir kjarasamningana og greiddu út launahækkanir. En forsenda þess að menn trúðu því að fjárfestingar myndu aukast var að tryggingagjald myndi lækka og að aðstæður myndu réttlæta umsamdar launahækkanir. Ef stjórnvöld hefðu staðið við gefin loforð í yfirlýsingu sinni frá 5. maí 2011 væri staða atvinnulífsins betri. Þá væri að líkindum til innistæða fyrir hækkun launa um 3,25% í febrúar á næsta ári. Fyrir iðnaðinn og öll fyrirtæki í landinu er ákaflega mikilvægt að tryggingagjaldið lækki í takt við minnkandi atvinnuleysi. Þannig verður best tryggt að störfum taki að fjölga á ný. Ekki síður er mikilvægt að listi vanefnda stjórnvalda í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga styttist.
Umsvif víða að aukast
Því miður er ofangreint bara hluti þeirra áskorana sem félagsmenn standa frammi fyrir. Baráttan fyrir bættum starfsskilyrðum iðnaðarins heldur áfram og þótt ýmsir smásigrar hafi unnist á liðnum árum í þeim efnum er listinn yfir það sem miður hefur farið miklu lengri.
Þótt víða séu aðstæður krefjandi eru umsvifin samt að aukast. Sem betur fer eru fjölmörg fyrirtæki í sókn, hagnast, fjárfesta og fjölga starfsfólki. Það á hins vegar ekki enn við um hagkerfið í heild. Ef hagkerfið á að komast á beinu brautina til frambúðar verða starfsskilyrðin að batna.