Gæðastjórnun í iðnaði
„Fyrirtæki í iðnaði þurfa að taka upp virka gæðastjórnun sem fastan þátt í starfsemi sinni. Auk þess að tryggja vörugæði þarf gæðastjórnunin að miða að bættri þjónustu og aukinni arðsemi fyrirtækjanna. Aðferða- og hugmyndafræði altækrar gæðastjórnunar á að vera sjálfsagður og eðlilegur þáttur í starfsemi hvers fyrirtækis. Íslenskum fyrirtækjum þarf að vera ljóst að gæðastjórnun eykur aðlögunar- og samkeppnishæfni og að vottað gæðakerfi hefur markaðsgildi. Hægt er að draga verulega úr kostnaði og fyrirhöfn við opinbert eftirlit með starfsemi iðnfyrirtækja með því að fella inn í gæðakerfi kröfur úr lögum og reglugerðum og nota stjórnunarþátt vottaðra gæðakerfa til nauðsynlegs eftirlits.
Þrátt fyrir þá einföldu staðreynd að gæðastjórnun þýðir einfaldlega „góð stjórnun“ og fjallar um „stjórnunarleg gæði“ hefur hugtakinu verið haldið á lofti sem mjög háfleygu hugtaki sem einungis sérfræðingum væri ætlað að skilja. Þetta viðhorf hefur, illu heilli, valdið því að meiri árangur hefur ekki náðst en raun ber vitni.
Samþykkt Samtakanna, á sínum tíma, byggðist meðal annars á að opinberir verkkaupar voru farnir að gera þá kröfu til verktaka að þeir sýndu fram á hæfni sína til þeirra verka sem þeir buðu í. Á þeim tíma sögðu sumir þeirra digurbarkalega að í framtíðinni ætluðu þeir að leggja áherslu á að meta hæfni verktaka ekki síður en lágt tilboð. Þrátt fyrir góð fyrirheit er raunin ekki sú í dag nema í algjörum undantekningar tilvikum.
Samtök iðnaðarins tóku þá stefnu árið 1997 að leggja áherslu á að veita félagsmönnum sínum sem besta aðstoð til að uppfylla kröfur verkkaupa um bætta stjórnun. Hugmyndir og aðstoð voru sótt til Noregs og yfirfærðar á íslenskar aðstæður. Sú aðstoð SI við félagsmenn hefur verið efld og aðlöguð nýjum áherslum og nýrri tækni þannig að Samtökin hafa aldrei verið eins vel í stakk búin í þessum efnum og aðstoða fyrirtækin við að útbúa eigin gæðahandbók og standa vel að skjala- og skráarvistun.
Til að auðvelda fyrirtækjum að tileinka sér aðferðafræði gæðastjórnunar með aðstoð SI var innleiðingu góðrar stjórnunar skipt upp í fjögur þrep. Þar lýkur hverju þrepi með úttekt og skjalfestri staðfestingu á árangri. Sú aðferðafræði nefnist „áfangaskipt gæðavottun SI“ og árangurinn má sjá á vefsetri SI undir fyrirsögninni „Gæðastjórnun og rekstur.“
Segja má að nú sé þessi aðferð að sanna sig því að fyrstu fyrirtækin, sem völdu þessa leið áfangaskiptrar gæðavottunar, eru að fá alþjóðlega vottun gæðastjórnunar samkvæmt staðlinum ISO 9001:2000. Yfirvöld virðast hafa áttað sig á mikilvægi góðrar stjórnunar því að í nýjum mannvirkjalögum er lögð rík áhersla á gæðastjórnun þótt þar hefði mátt ganga aðeins lengra.
Ekki er nóg að vilji sé fyrir hendi og gerðar séu samþykktir og kröfur. Það sem mestu máli skiptir er hæfni þeirra sem eiga að standa undir og fullnægja væntingum. Þar er fyrst og fremst átt við stjórnendur verktaka og verkkaupa.
Menntastofnanir verða, eins og aðrir, að fylgja þróuninni eftir með nýjum námskrám og endurmennta kennara til að fullnægja kröfum markaðarins á hverjum tíma.
Mikilvægt er að aðilar og stofnanir, sem eiga að búa nemendur sína undir að takast á við verkefnin sem bíða þeirra úti í fyrirtækjunum að námi loknu, lagi sig að nýjum kröfum um starfshætti.
Samkvæmt nýútkominni skýrslu frá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey má færa fyrir því rök að hluti skýringar á lágri framleiðni hér á landi eigi rætur að rekja til þess að hér er lítil sem engin áhersla lögð á menntun í framleiðslustjórnun. Stór hluti framleiðslu- og þjónustufyrirtækja hér á landi lýtur stjórn fólks sem hefur ekki sértæka menntun á þessu sviði. Menntastofnanir, sem þjónusta iðnaðinn, þurfa að taka sig á og bjóða meiri og betri menntun í þessu efni.
Boðskapur gæðastjórnunar er samvinna viðskiptavina og birgja. Ef allir, sem koma að mannvirkjagerð, hvort sem þeir eru verkkaupar, verktakar, eftirlitsaðilar eða menntastofnanir, leggja sig fram við að skilja og vera trúir boðskap staðalsins ISO 9001:2008 mun markmið nýrra laga um mannvirkjagerð ganga eftir átakalaust.
Ferdinand Hansen, gæðastjóri SI