Leynivopnið er traust

20. des. 2012

  • Orri Hauksson
Við Austurvöll og allt umhverfis Arnarhól sinna íslenskir stjórnmála- og embættis­menn nú sínum árlegu aðventuverkefnum. Þau felast í að breyta skattkerf­inu sem hér á að gilda innan nokkurra vikna. Í þetta sinn á meðal annars að hækka matarskatta, ferðamannaskatta, fjármálaskatta, orkuskatta og tryggingar­skatta á vinnu fólks.
„The country has one of the world's most attractive and reliable tax regimes. The stable political, economic and social environment provides the required pre­dictability to investors and business­es. The tax administration is easily accessible to market players and adopts a probusiness attitude.“

 

Þessa umsögn er að finna á vefsíðu hins alþjóðlega endurskoðunar- og ráð­gjafarfyrirtækis Ernst & Young. Þar er þó ekki átt við Ísland, eins ánægjulegt og það nú væri. Þarna er lýst viðskipta-  og skattaumhverfi Lúxemborgar. Lands­fram­leiðsla á mann þar hefur árum saman verið sú mesta í heimi og mælist nú um tvöfalt meiri en hér á landi. Þar hefur um langa hríð verið önnur af fjár­málamiðstöðvum álfunnar. Ísland á ekki að reyna að keppa á því sviði við hið landlukta borgríki í miðri Evrópu. Hér á landi eru tækifærin næg en býsna frábrugðin þeim sem Lúxem­borg hefur nýtt sér. Hins vegar er gráupp­lagt að hnupla lykilatriðunum úr efnahagsáætlun þessa auðuga smáríkis. Þau eru fyrirsjáanleiki, stöðugleiki, orðheldni og traust.

Ólíkt hafast menn að

Við Austurvöll og allt umhverfis Arnarhól sinna íslenskir stjórnmála- og embættis­menn nú sínum árlegu aðventuverkefnum. Þau felast í að breyta skattkerf­inu sem hér á að gilda innan nokkurra vikna. Í þetta sinn á meðal annars að hækka matarskatta, ferðamannaskatta, fjármálaskatta, orkuskatta og tryggingar­skatta á vinnu fólks. Á annað hundrað skattbreytingar hafa verið gerðar hér á landi síðastliðin þrjú og hálft ár. Flestar hafa þær legið fyrir í endanlegri útfærslu skömmu áður en þær hafa komið til framkvæmda. Þetta vinnulag hefur skap­að tímabundin uppgrip hjá þeim sem veita skattaráðgjöf og breyta upplýsinga­kerfum fyrirtækja. Erfitt er að koma auga á fleiri jákvæða fylgifiska.

Strembið verkefni stjórnvalda

Núverandi stjórnvöld tóku við þungri stöðu þjóðarbúsins nokkrum mánuðum eftir bankahrun. Stærstu ákvarðanirnar höfðu að vísu þegar verið teknar. Sett höfðu verið neyðarlög sem vörðuðu stýrt fall stóru bankanna. Gerð hafði verið áætlun um efnahagsstjórn og fjár­mögnun hins opinbera í samvinnu við AGS. Verkefni stjórnvalda var samt sem áður harðdrægt frá fyrsta degi vorið 2009. Þá þurfti að lækka útgjöld ríkisins og afla því umtalsverðra tekna í skuld­settu hagkerfi. Stjórnvöld hafa mætt almennum skilningi í þessari viðleitni sinni og lagt mýmargt á sig til að hægja á skuldsetningu ríkissjóðs. Sumar ráð­stafanir hafa reynst býsna sársaukafullar og ekki til vinsælda fallnar, fremur en búast mátti við. En þótt verkefnin séu vandasöm á ekki að skoða vinnubrögðin með gagnrýnislausum hætti. Svo vill til að stjórnvöld hafa ítrekað neitað sér um heilbrigðar tekjur sem fylgja auknum umsvifum í hagkerfinu. Ráðamenn hafa einnig heykst á að ráðast í afmarkaðar kerfisbreytingar á ríkisrekstrinum, breyt­ingar sem draga úr útgjaldaþrýstingi til frambúðar.

Niðurskurður sagður að baki

Um þessar mundir lýsa stjórnvöld því ítrekað yfir að ríkulegur árangur hafi náðst í ríkisfjármálum. Svo rösklega hafi verið gengið til verks að nú þurfi ekki að skera meira niður. Halli á rekstri ríkis­sjóðs sé að hverfa, nú megi stíga af bremsunni og leggja góðum málum til myndarlegt fé, svo sem hækka barna­bætur og setja á fót verkefnið Grænkun íslenskra fyrirtækja. En við þessa frásögn er ýmislegt að athuga. Áfram er gripið til stórfelldra handahófskenndra skatta­hækk­ana á elleftu stundu sem er ekki vísbending um sjálfbær fjármál. Árin 2009-2012 hefur ríkissjóður að meðaltali verið rekinn með um 100 milljarða ár­­legum halla og rekstur ríkisins sl. þrjú ár farið tugi milljarða fram úr fjárlögum á hverju einasta ári. Reyndar er það svo að við samþykkt undangenginna fjárlaga hefur risastórum fyrirsjáanlegum út­­gjalda­­liðum ávallt verið haldið utan fjár­laga þótt útgjöldin hafi svo komið til, svo sem greiðslur til sjóða og fjármálafyrir­tækja sem ríkið hefur gengist í ábyrgð fyrir. Fjárlög ársins 2013 eru þar engin undantekning. Til að mynda liggur fyrir að stoppa þarf upp í tugmilljarða gat Íbúðalánasjóðs á árinu. Þessara augljósu ráðstafana sér ekki stað í fjárlögum, ekki frekar en t.d. SpKef fyrir ári. Þar við bæt­ist að tekjuforsendur fjárlaganna eru vísvitandi of bjartsýnar. Þar er enn miðað við hagvaxtarspá Hagstofunnar frá miðju ári 2012 sem síðan hefur verið færð niður.

Gott orðspor er verðmætasta eignin

Eftir að árið 2010 hafði runnið sitt skeið kallaði forsætisráðherra það ár „týnda árið.” Hrósa má ráðherranum fyrir hrein­skilnina því að það reyndist því miður réttnefni. Frá því um mitt ár 2009 fram á árið 2011 töldu fjárfestar, lánveit­endur og viðskiptavinir íslenskra fyrir­tækja að fjármálakreppan í Vesturheimi væri að mestu afstaðin. Síðar kom í ljós að það var misskilningur. Það breytir ekki því að um langt skeið var afar auðvelt að fjár­magna ýmis útflutningsver­k­efni og gera hagstæða viðskiptasamn­inga til langs tíma. Þá eins og nú var raungengið lágt á Íslandi og kjörið að hleypa af stað fjárfestingu í landinu, efla útflutningsgetu atvinnulífsins og auðvelda hagkerfinu að vinda ofan af skulda­stöðu sinni. Í mörg­um smáum þáttum var jafnframt hægt að nýta kreppuna til að hagræða varan­lega í rekstri ríkisins í stað þess að fresta aðeins fjárfestingum og útgjöldum sem síðar verða enn kostnaðarsamari. Sam­tök iðnaðarins hafa ítrekað lagt til aðgerðir til að auka hagræði í opinberum rekstri til langs tíma, aðgerðir sem um leið hefðu aukið styrk og útflutnings­hæfni íslensks atvinnulífs.

Það er sárt að hafa misst af efnahags­legum tækifærum á undanförnum árum. Framtíðin er hins vegar verðugra viðfangsefni en fortíðin. Ísland er á fimmta ári frá bankahruni þegar trúverðugleiki landsins beið mikinn hnekki í einu vetfangi. Þótt svo langt sé um liðið hefur landið ekki byrjað að geisla frá sér orðheldni eða fyrirsjáanleika á ný, allra síst úr skatta- og fjárfestingarumhverfinu. Hin hagræna ára landsins er full tor­tryggni og engin vissa ríkir um að orð muni standa. Frá og með árinu 2013 er kjörið að byrja að snúa þessu til betri vegar, leggja á ný ríka áherslu á trúverðug­leika, inn á við og út á við. Það tekur langan tíma að byggja upp traust en með trausti má skapa mikil verðmæti eins og íbúar Lúxemborgar vita vel.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI