Íslenskur iðnaður - uppspretta hagvaxtar
Árið 2013 er runnið upp. Ár sem margir binda miklar vonir við. Munu lífskjör fólks loksins fara batnandi? Leiða kosningar í vor til þess að takist að mynda sterka og einhuga ríkisstjórn sem er fær um að bæta skilyrði atvinnulífsins og þar með auka hagvöxt og bæta lífskjör?
Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Þannig hefur það verið frá hruni 2008; fátt um svör við mikilvægum og brennandi spurningum.
Forsenda hagvaxtar
Til að unnt sé að ná fram nauðsynlegum efnahags- og lífskjarabata þurfa forsendur batans að liggja ljósar fyrir. Hver er hin eiginlega forsenda hagvaxtar hér á landi? Það er að sjálfsögðu íslenskur iðnaður með allri sinni fjölbreyttu verðmætasköpun, nýsköpun, útflutningi og gjaldeyrisöflun. Ekkert skiptir meira máli og því leika fyrirtæki landsins og samtök þeirra, Samtök iðnaðarins, lykilhlutverk í efnahagsbata þjóðarinnar.
Í framtíðarsýn SI árið 2013 skipta þrjú atriði mestu máli:
- Verðmætasköpun iðnaðarins, tekjuöflun og sköpun vel launaðra starfa til langframa. Íslenskur iðnaður byggir á styrk og sérstöðu á fjölbreyttum sviðum.
- Aðlaðandi Ísland fyrir fólk og fyrirtæki. Íslenskur iðnaður byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda.
- Jákvæður viðskiptajöfnuður á grunni öflugs útflutnings, þekkingar og sjálfbærni. Íslenskur iðnaður er samkeppnishæfur á alþjóðlegan mælikvarða.
Nauðsynlegar forsendur eru margvíslegar, en hér er látið nægja að benda á þær mikilvægustu:
- Fyrirmyndarstarfsumhverfi innan fyrirtækja og stoðkerfi iðnaðar og nýsköpunar sem byggir á grunni skilvirkni, fagmennsku og gagnsæi.
- Nægt framboð af hæfu starfsfólki með nauðsynlega þekkingu; verkvit, hugvit og siðvit.
- Mikið og gott samstarf fyrirtækja, menntastofnana og rannsóknastofnana. Menntakerfið þarf að slá taktinn með atvinnulífinu allt frá grunnskólastigi.
- Markvisst markaðsstarf í takt við alþjóðlega markaðsþróun.
- Árangursrík nýsköpun, rannsóknir og þróunarstarf í fremstu röð.
- Fjármögnunarumhverfi í fremstu röð.
- Stöðugleiki í peninga- og gjaldeyrismálum.
- Skattaumhverfi sem er ekki síðra en í nágrannalöndunum.
Mikilvægi SI
Samtök iðnaðarins eru málsvari íslenskra fyrirtækja gagnvart stjórnvöldum og öðrum aðilum, bæði innlendum og erlendum. Þau eru einnig afar mikilvægur samstarfsvettvangur, bæði fyrirtækjanna innbyrðis en ekki síður í samskiptum fyrirtækjanna við stjórnvöld. Samtökin beita sér fyrir lagasetningu um málefni iðnaðarins og koma með ábendingar um það sem betur má fara við setningu laga og reglugerða. Þau halda uppi málefnastarfi innan faggreina og stuðla jafnframt að samtarfi fyrirtækja þvert á hefðbundnar faggreinar. Fræðslustarf, ráðstefnuhald og menntamál eru meðal þýðingarmestu verkefna sem starfsmenn SI vinna fyrir félagsmenn sína og aðildarfyrirtæki.
Fyrirtæki innan samtakanna skapa samtals um helming allra gjaldeyrisverðmæta þjóðarinnar og eru því burðarás hagkerfisins.
Samtök iðnaðarins geta verið farvegur fyrir þann mikla þekkingarauð sem býr með þjóð okkar; fyrir hagnýtingu hans og verðmætasköpun. Ég hvet stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja í íslenskum iðnaði til nýsköpunar á öllum sviðum. Að víða sé leitað fanga, og í þeirri leit sé horft til þeirra mikilvægu gilda að nýjungar gagnist okkur í sókn eftir bættu mannlífi og sjálfbærri nýtingu auðlinda sem er undirstaðan að farsælu lífi í þessu landi til framtíðar.
Staðan í Evrópumálum
Í Evrópu hyllir nú undir að menn nái stjórn á þeim ógnum sem steðjuðu að á seinasta ári. Þrátt fyrir miklar hrakspár hefur evran staðist áraunina og er enn sterkur gjaldmiðill. Líklegt er að svo verði um langa framtíð. Sama verður því miður ekki sagt um íslensku krónuna sem sveiflast upp og niður og gerir stjórnendum íslenskra fyrirtækja sem og öllum almenningi erfitt fyrir. Umræðan um upptöku annars gjaldmiðils hefur hljóðnað, líklega vegna þess að mönnum er orðið ljóst að Íslendingar eiga ekki aðra raunhæfa kosti en evru, vilji þeir á annað borð skipta um gjaldmiðil. Aðgangur okkar að innri markaði Evrópu er okkur nauðsynlegur. Hann fékkst með EES-samningnum en sá samningur er nú mjög kominn til ára sinna. Samningurinn hefur tekið litlum breytingum og þróun hans og aðlögun til framtíðar er óviss.
Nú hefur ríkisstjórn Íslands tekið ákvörðun um að hægja á viðræðum við ESB, tilkynnt hefur verið um að ekki verði opnaðir nýir kaflar fyrr en eftir kosningar og stjórnarskipti. Útaf fyrir sig er það fagnaðarefni að málinu sé stýrt út úr þrasfarvegi nú í aðdraganda kosninga enda mikilvægt að málefnabaráttan fyrir kosningar snúist nú um atvinnuuppbyggingu, hvernig lækka megi skatta, auka fjárfestingar, minnka atvinnuleysi, efla hagvöxt og bæta hag fólks og fyrirtækja næstu mánuði og árin.
Til að unnt sé að halda viðræðum við ESB áfram þarf að tryggja pólitíska forystu fyrir málinu á Alþingi. Það gleymist stundum að það eru gildar ástæður fyrir því að stjórnvöld á Íslandi ákváðu að sækja um aðild að ESB. Meginástæðan er sú að það mun stuðla að efnahagslegum stöðugleika sem sárlega hefur skort hér á landi. Önnur mikilvæg ástæða er sú að við yrðum þá fullgildir þátttakendur í öllu samstarfi Evrópusambandsþjóða. Þriðja ástæðan er sú að þá myndi draga úr ókostum þess að reka fyrirtæki á Íslandi miðað við nálæg Evrópulönd. Mjög brýnt er að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja alþjóðlega. Til að atvinnulífið nái að blómstra þarf að tryggja langtímastöðugleika og treysta umgjörð efnahagslífsins sem best. Aðild Íslands að ESB er valkostur í því efni, en þó aðeins ef við sýnum úthald og ljúkum viðræðunum.
Það er mikilvægt að viðræðurnar verði til lykta leiddar. Ef í ljós kemur að fórnirnar sem færa þarf eru of miklar, t.d. í sjávarútvegi, eru litlar líkur á að samningur við ESB verði nokkru sinni samþykktur af þjóðinni. Þess vegna þarf faglega umræðu til að greina kosti og galla samningsins og meta hvort vegi þyngra. Viðræðurnar við ESB eru mikilvægur hluti þeirrar umræðu. Að lokum tekur þjóðin ákvörðun í atkvæðagreiðslu og getur byggt afstöðu sína á þeim samningsdrögum sem þá liggja fyrir. Hér er um slíkt hagsmunamál fyrir þjóðina að ræða að ekki dugir að mynda sér afstöðu á tilfinninganótum, hér verður köld skynsemi að ráða för.
Friður á vinnumarkaði
Mikilvægt er að friður ríki á vinnumarkaði og stjórnvöld vinni með fyrirtækjunum, hafi samráð og taki þátt í virku samtali við fulltrúa atvinnulífsins um brýn hagsmunamál. Kjaradeildur hafa sett skugga á upphaf nýs árs og geta aukið hættu á enn meiri upplausn í samfélaginu. Nú virðast SA og ASÍ hafa náð samkomulagi sem felur í sér að gildistími núgildandi kjarasamninga verður styttur um tvo mánuði og mun samningurinn þá renna úr gildi í lok nóvember nk. Núgildandi samningur felur í sér hækkun launa frá 3,25 - 6,1% nú í febrúar.
Það er mjög ánægjulegt að tekist hafi að tryggja frið á vinnumarkaði. SA og ASÍ hafa náð saman um að hefja strax viðræður um næstu kjarasamninga og felur sú vinna m.a. í sér að aðilar móti sameiginlega atvinnustefnu til framtíðar. Samstaða er um að gera vinnubrögð við gerð kjarasamninga skilvirkari og nútímalegri. Þessar síðustu fréttir gefa tilefni til bjartsýni.
Megi Guð gefa að árið 2013 verði íslenskum iðnaði og fyrirtækjum landsins farsælt og heillaríkt.