Hvaða leið verður vörðuð?

26. feb. 2013

  • Orri Hauksson
Það er ekki algengt að stjórnmálamenn úr ólíkum flokkum tali einni röddu um málefni atvinnulífsins. Merkilegt nokk átti það sér stað nú um miðjan febrúar. Þá héldu Samtök iðnaðarins Tækni- og hugverkaþing ársins 2013 ásamt samstarfsaðilum. Fulltrúar hvers stjórnmálaflokks á fætur öðrum færðu þar fram afmarkaðar tillögur sem þeir töldu til hagsbóta fyrir umhverfi tækni- og hugverkafyrirtækja hér á landi.

Það er ekki algengt að stjórnmálamenn úr ólíkum flokkum tali einni röddu um málefni atvinnulífsins. Merkilegt nokk átti það sér stað nú um miðjan febrúar. Þá héldu Samtök iðnaðarins Tækni- og hugverkaþing ársins 2013 ásamt samstarfsaðilum. Fulltrúar hvers stjórnmálaflokks á fætur öðrum færðu þar fram afmarkaðar tillögur sem þeir töldu til hagsbóta fyrir umhverfi tækni- og hugverkafyrirtækja hér á landi. Þar glitti í sjaldgæfa þverpólitíska samstöðu varðandi framfaramál í skattkerfi, menntamálum og fjárfestingarumhverfi nýsköpunar. Vonandi skilar sá samhljómur sér inn á Alþingi og þaðan í löggjöf og aðgerðir.

Annað var sammerkt með málflutningi hinna ólíku flokka. Núverandi atvinnulíf landsins varð að mestu útundan í umræðunni, líkt og tilurð nýrra hugverkafyrirtækja væri einangruð starfsemi, sérstakt hagkerfi sem lítið hefði með hefðbundnar greinar að gera.

Nýsköpun ekki í tómarúmi

Flest hugverkafyrirtæki á Íslandi hófu starfsemi sína með því að skapa lausnir fyrir íslenskt atvinnulíf. Öflugustu tæknifyrirtæki okkar eru sprottin upp úr matvælaframleiðslu, orkuöflun, verktöku, flutningastarfsemi, stóriðju og heilbrigðisþjónustu. Þau stunda sjálfbæran útflutning og skapa varanleg verðmæti sem bæta lífskjör allra landsmanna. Tölvuleikjafyrirtækin eru skemmtileg undantekning frá þeirri heimamarkaðsreglu. CCP, Betware og Gogogic fluttu vörur út frá fyrstu stundu en upphaflegar afurðir þeirra komu Íslandi ekkert frekar við en öðrum löndum. Almenna reglan er hin að tæknifyrirtækin hafa fyrst þróað lausnir hér heima fyrir og síðan notað þann grunn til að sinna hinum stóra heimi. Því er lykilatriði fyrir nýsköpun í landinu að helstu atvinnugreinarnar séu burðugar og þess umkomnar að kalla eftir nýjum lausnum til að þróa eigin starfsemi. Megnið af þróun nýrra viðskiptalausna og tækniafurða í heiminum á sér stað í fyrirtækum sem þegar eru til, aðallega innan veggja þeirra sjálfra en einnig í útvistuðu formi. Einnig þarf að hafa hugfast að hið opinbera á Íslandi er fyrirferðarmikill kaupandi vöru og þjónustu. Þessi langstærsta hagræna eining landsins hefur sterk áhrif á nýsköpunarumhverfið og þarf að gæta þess að vera ekki eins og fíll í postulínsbúð.

Erfitt að spá, sérstaklega um fortíðina

Því er það sérstakt keppikefli að stjórnvöld hvers tíma hafi skilning á því að atvinnustarfsemi dagsins í dag er vistkerfið þar sem verðmætasköpun nánustu framtíðar á sér samastað. En baksýnisspegillinn nýtur sífellt meiri vinsælda. Fjölmargar ríkisstofnanir hafa verið efldar á undanförnum árum til að gera þeim kleift að rýna nánar inn í fortíðina. Sumum þessara stofnana virðist jafnvel ætlað að koma í veg fyrir bankahrunið 2008. Seðlabankinn, Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið hafa það með höndum árið 2013 að spá fyrir um hagvöxt, samkeppnisstig og efnahagsreikninga landsins fram til ársins 2012.  Þegar nýjar upplýsingar berast, versna yfirleitt spárnar fyrir árið á undan. Hluta þessa mannvits mætti snúa við og nýta til að huga að framtíðinni. Gjöfulasta viðfangsefni okkar er að átta okkur á hvernig við sköpum sem best lífskjör í landinu frá og með deginum í dag. Þótt ekki sé síður erfitt að spá fyrir um framtíðina en liðna tíð, eru sterkir, sýnilegir ytri kraftar að verki bæði í mannheimum og í náttúrunni. Þeir skapa forsendurnar og varða leiðina að því hvernig við nýtum tækifærin sem bjóðast, um leið og við viljum bægja frá okkur fyrirsjáanlegri hættu. Um þá framtíð verður rætt á Iðnþingi 14. mars.

Lærum af framtíðinni

Náttúruleg þróun er ör hér á norðurslóð og felur í sér fjölmörg tækifæri en einnig ýmsar ógnanir. Við höfum ekki á efni á að vera vanbúin enda munu þessir kraftar hafa áhrif á alla efnahagsstarfsemi landsins. Íslensk mannvirkjafyrirtæki, verkfræðistofur og frumkvöðlar hafa þegar brugðist við og haslað sér völl á Grænlandi, í Noregi og úti á ballarhafi. Orkuöflun á norðurhveli jarðar er í hraðri þróun sem mun hafa sterkari áhrif hér á landi en víðast annars staðar. Lýðfræði Íslendinga er talsvert frábrugðin öðrum ríkjum og skapar ýmsar áhugaverðar forsendur í heilbrigðistækni og velferðarþjónustu á næstu árum. Þá má gera ráð fyrir að togstreita milli tækni og löggjafar verði óvenjumikil í heiminum næstu árin. Sum stærstu fyrirtæki heims hafa sprottið undrahratt upp af netinu á undanförnum árum. Velgengni þeirra hefur leitt til ýmissa viðbragða löggjafans í Norður-Ameríku sem ekki sér fyrir endann á. Fjölmörg tækifæri felast í þessari framvindu fyrir Íslendinga, sérstaklega ef við látum af þeirri óskhyggju sem nú ber á, að við getum stýrt öllu misjöfnu í netheimum með heimatilbúinni sérsmíði. Ennfremur er fjármálakreppa undanfarinna ára rétt að byrja að hafa langtímaáhrif á hagkerfi helstu viðskiptaríkja okkar í Evrópu. Sú þróun skapar ýmis ný viðfangsefni fyrir íslensk fyrirtæki. Þessi munstur í umhverfi okkar, sem sum eru skýr en önnur óljós, ætlum við að greina á Iðnþingi, meðal annars með hjálp alþjóðlegra sérfræðinga. Við munum svo krefja stjórnmálaleiðtoga okkar um þá framsýni að geta varðað sannfærandi leið um þetta breytilega en áhugaverða landakort.

Verið velkomin á Iðnþing.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI