Tækifæri til að efla atvinnulífið

10. jún. 2013

  • SHB2012
Árlegt stefnumót atvinnulífsins í Evrópu (European Business Summit) fór fram í Brussel um miðjan maí. Þar komu saman helstu forystumenn atvinnulífsins og Evrópusambandsins til að ræða um framtíðina. Viðfangsefni fundarins að þessu sinni var að finna leiðir til að efla evrópskan iðnað og skapa vöxt með því að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar.

Árlegt stefnumót atvinnulífsins í Evrópu (European Business Summit) fór fram í Brussel um miðjan maí. Þar komu saman helstu forystumenn atvinnulífsins og Evrópusambandsins til að ræða um framtíðina. Viðfangsefni fundarins að þessu sinni var að finna leiðir til að efla evrópskan iðnað og skapa vöxt með því að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar. Undirrituð tók þátt í umræðum um nýsköpun og hugverkarétt, sérstaklega innan hugbúnaðargeirans.

Við erum meðvituð um hversu hratt tæknin breytist og mikilvægi rannsókna og þróunar fyrir velgengni fyrirtækja, bæði innan hugbúnaðargeirans en einnig og ekki síður fyrir allar aðrar atvinnugreinar sem byggja á upplýsingatækni. Til að þjóðir Evrópu geti nýtt sér þá möguleika og ávinning sem upplýsingatæknin getur fært okkur verðum við að tryggja að öflugur hugbúnaðargeiri vaxi og dafni í Evrópu og leggja aukna áherslu á nýsköpun.

Heimurinn er að breytast og unga kynslóðin hugsar alþjóðlega og sér tækifæri í öðrum heimsálfum. Heimur þeirra skiptist ekki í Evrópu og restina af heiminum. Það er því ekki nóg að líta eingöngu til Evrópu heldur verðum við að horfa á heiminn í heild.

Þessar áskoranir munu ákvarða hvernig viðskiptamódel við byggjum upp í heimi þar sem tæknin leikur sífellt stærra hlutverk

Nýsköpun sem fram fer í samstarfi aðila er gríðarlega mikilvæg í þessu tilliti. Skapa þarf aðstæður og hvata sem örva fyrirtæki, menntastofnanir og aðra opinbera aðila til sem víðtækasta samstarfs. Ávinningur samstarfs þarf að vera skýr og það er mikilvægt að allir hagnist á einhvern hátt. Vöxtur hagkerfis Evrópu mun í auknu mæli haldast í hendur við hagkerfi Asíu og Bandaríkjanna. Þess vegna þurfum við að hvetja fyrirtæki, stofnanir og háskóla til vinna saman, þvert á landamæri og heimsálfur. Um leið þurfum við að mennta fleira fólk á sviði vísinda og tækni.    

Einkaleyfi eru einn mælikvarði á árangur rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Svo virðist sem Asíuþjóðirnar séu að taka fram úr Evrópu í fjölda skráðra einkaleyfi og margir telja það til marks um að Evrópuþjóðirnar hafi látið undan síga í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni. Einkaleyfakerfið höfum við þróað í þeim tilgangi að standa vörð um fjárfestingu í nýsköpun. Það er langt í frá gallalaust og það reynist mörgum bæði flókið og kostnaðarsamt að sækja um einkaleyfi. Sífellt fleiri líta svo á að einkaleyfi í hugbúnaðargerð eigi ekki rétt á sér. Það er þó mikilvægt í þessum geira eins og öðrum að standa vörð um fjárfestingu í nýsköpun og margir telja að hugbúnaður sé nægjanlega varinn með höfundarrétti.

Ný hátæknifyrirtæki eru alþjóðleg, þau staðsetja sig þar sem hentar þeim best með tilliti til aðgengis að mannauði og góðum starfsskilyrðum, innan Evrópu eða utan.

Vöxtur margra hátæknifyrirtækja byggir ekki á einkaleyfum. Sem dæmi má taka fyrirtæki úr upplýsingatæknigeiranum sem neita að setja einkaleyfi á verk sín vegna þess að litið er á gagnvirka miðlun upplýsinga og samvinnu sem undirstöðu velgengni.

Öflugur hugbúnaðargeiri og upplýsingatækni eru forsenda þess að hægt sé að nýta ný tækifæri í evrópsku atvinnulífi og sækja fram. Skapa þarf ný störf og hleypa nýju lífi í efnahagslífið þar sem hagvöxtur er of lítill. Bregðast þarf hratt við, skapa nýjar lausnir og tækifæri fyrir unga fólkið okkar ásamt því að tryggja fyrirtækjum góð starfsskilyrði og að þau búi við fyrirsjáanleika í starfsumhverfinu.