Ekki vernda störfin
Þegar efnahagssamdrátturinn skall á Íslendingum fyrir um fimm árum sögðu margir íslenskir stjórnmálamenn að þeir hygðust vernda störfin. Fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, hvort sem var í meirihluta eða minnihluta, í sveitarstjórnum eða á Alþingi, tók undir þessa stefnu. Hún fólst í að halda eins mörgum á launaskrá hins opinbera og framast væri unnt við erfiðar aðstæður. Yfirlýst markmið var að missa fólk ekki úr virkni í atvinnuleysi. Allt verkaði þetta göfugt í sjálfu sér og í sumum tilvikum fjölgaði störfum, t.d. vegna aukins umfangs eftirlitsstofnana og rannsóknarstarfs af ýmsum toga sem var sett á laggirnar til að komast að hinu sanna um orsakir fjármálaáfallsins. Þar að auki ákváðu Reykjavíkurborg og ýmsar stofnanir ríkisins að færa inn fyrir sína veggi verkþætti sem áður hafði verið sinnt utan þeirra. Opinberum starfsmönnum var í auknum mæli gert að sinna ýmsum verkefnum s.s. í mötuneytum, tölvuþjónustu, viðhaldi og þrifum, í þeim tilgangi að vernda störf þeirra. Gefin var út sú dagskipun að kostnaðarliði á borð við „verktöku“ og „ráðgjöf“ bæri að lágmarka sem frekast væri unnt en launaliðir og annar innri kostnaður opinberra stofnana mættu hækka á móti.
Vandamálið við fyrrgreinda stefnu er að hún heldur ekki uppi atvinnustigi í landinu. Til langs tíma litið leiðir slík stefna fremur til þess að störfum fækkar í stað þess að fjölga. Eins og við var að búast dró slælegt efnahagsástand fjármálakreppunnar úr umsvifum og verkefnum í hagkerfinu almennt. Þar við bættist hins vegar hinn sérstaki samdráttur hjá þjónustu- og iðnfyrirtækjum sem áður höfðu sinnt þeim þörfum sem hið opinbera tók að innvista í auknum mæli. Ríki og sveitarfélög eru langstærstu hagrænu einingarnar í landinu. Samantekið hurfu þó margfalt fleiri störf hjá einkafyrirtækjum í kreppunni eða hátt á annan tug þúsunda.
Flatur niðurskurður – seinkun kostnaðar
Kjörnir stjórnendur ríkis og sveitarfélaga hafa ekki verið öfundsverðir af viðfangsefnum sínum undanfarin ár. Aðferðirnar, sem valdar hafa verið við aðhald í rekstri, hafa hins vegar í mörgum tilvikum ekki verið nægilega markvissar, heldur um of byggðar á flötum prósentum í niðurskurði. Stefnan varðandi framtíðarskipan hins opinbera kerfis hefur ekki verið skýr. Þannig hefur lítil endurskipulagning átt sér stað, fjárfestingum hefur verið frestað en svipuðu vinnulagi og fyrr haldið til streitu. Reynt hefur verið að halda í við hækkun kostnaðar frá misseri til misseris en með misgóðum árangri. Höfuðstóll ríkiseigna hefur þannig rýrnað, viðhaldsþörf hefur aukist og margir hópar opinberra starfsmanna telja sig eiga inni myndarlegar kjarabætur eftir erfið ár. Nú þegar er því mikil undirliggjandi þörf fyrir hækkaðan kostnað hins opinbera á næstu árum. Þetta er ein af afleiðingum þess að reynt var að vernda störf, sem fyrir voru, í stað þess að hugsa upp á nýtt aðferðafræðina við að veita opinbera þjónustu.
Nýtt hagræðingarátak
Ný ríkisstjórn hefur sett á laggirnar þingmannahóp til að gera tillögur um nýskipan ríkisrekstrarins. Miklar væntingar eru bundnar við slíkar hugmyndir og að þær komist til framkvæmda. Samtök iðnaðarins hafa í nokkur ár bent á að slá megi þrjár flugur í einu höggi, þ.e. skerpa þjónustu við almenning, spara skattfé og bæta um leið umhverfi atvinnulífsins. Verkefnið „Betri þjónusta fyrir minna fé“ frá 2010 var einmitt liður í þeirri viðleitni og þáverandi stjórnvöld tóku því frumkvæði vel. Hins vegar hefur gengið mun hægar að koma því verkefni af stað en vonast var til. Til að slík verkefni verði ekki tregðulögmáli að bráð þarf sterkan vilja og leiðsögn stjórnmálamanna. Þetta verkefni og ýmis önnur af sama meiði eru fólgin í að nýta gróskuna í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum til að leysa verkefni hins opinbera með nýjum og hagkvæmari hætti. Um leið nýtist hið mikla umfang hins opinbera til að tryggja tiltekinn stöðugleika í vistkerfi þessara viðkvæmu fyrirtækja sem vonandi geta þróað afurðir sínar í útflutningsvörur og skapað um leið vel launuð störf og skatttekjur til framtíðar. Nýr heilbrigðisráðherra hefur undanfarið talað fyrir nýrri hugsun í heilbrigðiskerfinu og formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Alþingi hefur sagt það skýrt, að ekki þurfi endilega opinbera starfsmenn til að sinna opinberri þjónustu. Sem dæmi má nefna að aðrar Norðurlandaþjóðir nýta sjálfstæð fyrirtæki í skólastarfi og heilbrigðistækni í mun ríkari mæli en Íslendingar gera.
Framleiðni er lykill að bættum lífskjörum
Hið opinbera hér á landi rekur allt of margar stofnanir, setur, stofur og miðstöðvar. Margar þeirra mega missa sín að öllu leyti en verkefni annarra ættu betur heima í stærri og burðugri einingum. Þjónustuaðilar atvinnulífsins, sem ekki eru fjármagnaðir fyrir opinber framlög, hafa fundið á eigin skinni að einingar sem þessar þurfa að vera af tilteknu lágmarksumfangi, til að starfið sé sæmilega markvisst og snúist ekki of mikið um það að halda sjálfu sér gangandi. Sem dæmi má nefna að við hjá SI höfum verið að þétta eigin raðir, með því að í samtökin gengu gagnver, kvikmyndaframleiðendur, rafverktakar, verkfræðistofur, meistarafélög í byggingariðnaði og fleiri iðngreinar sem áður stóðu utan SI. Á sama tíma hefur starfsfólki SI fækkað lítillega. Nú eru um yfir 80 fyrirtæki í SI fyrir hvern starfsmann Samtakanna en þetta hlutfall var um 50 fyrir þremur árum. Frumkvöðlasetrin Innovit og Klak, sem um þessar mundir reka hið frábæra átak Startup Reykjavík, sameinuðust nýlega til að nýta betur takmarkaða fjármuni og mannskap. Framfarir í starfsemi, sem hið opinbera sinnir að jafnaði, munu á næstunni einnig geta leitt til að nýta betur aðföng, velji hið opinbera að grípa slík tækifæri. Nýjar kennsluaðferðir, svo sem hið svokallaða “flip the classroom“, felur í sér tækifæri til að nýta kennslutíma markvissar en fyrr og festa kennsluefnið betur í sessi í huga nemenda. Stefna um að stytta nám til stúdentsprófs hverfist um sama markmið. Þá er svonefnd straumlínustjórnun (e. lean management) vaxandi aðferðafræði sem nýtist jafn vel hjá hinu opinbera og einkafyrirtækjum.
Má ekki fækka?
Ríkið hefur verið rekið með mörg hundruð milljarða halla undanfarin ár og á engan annan kost en að spara í rekstri sínum. Sú staðreynd – auk allra ofangreindra atriða – veitir von um að hin nýja nefnd velti við hverjum steini og láti einskis ófreistað að koma opinberum rekstri á sjálfbært spor. SI bjóða fram krafta sína og hugmyndir í því efni. Nær öll ríki á Vesturlöndum velta nú fyrir sér hvernig þau eigi að þróa ríkiskerfi sín til hagkvæmari vegar til að þau sligi ekki hagkerfi sín til framtíðar með sköttum. Ríkisstarfsmenn eru almennt ekki æviráðnir og vinnubrögð hins opinbera mega ekki staðna, með því að tabú sé að hreyfa við störfum sem fyrir eru. Megnið af útgjöldum hins opinbera er launakostnaður og þess vegna verður að vera svigrúm til að endurskoða störf, færa þau til og leggja niður, sé þess þörf. Á sumum sviðum mun störfum fjölga á móti, vonandi til dæmis í kennslu tækni- og iðnnáms.
Þess vegna hefur vakið nokkurn ugg að fleiri en einn hinna nýju ráðherra hafa á opinberum vettvangi dregið mjög úr því að starfsfólki gæti fækkað við fyrirhugað hagræðingarátak. Fyrir skömmu voru þrjár litlar ríkisstofnanir sameinaðar í eina í nafni hagræðingar, sem er lofsvert í sjálfu sér. Hins vegar var tekið sérstaklega fram að starfsmönnum yrði ekki fækkað. Sú tilkynning var hugsuð sem sýnidæmi um hve breytingin væri vel útfærð. Kannski eru þarna einhvers konar pólitísk hyggindi til að styggja ekki þá sem kunna að berjast gegn breytingum ef skýrt þykir að við það fækki opinberum störfum einhvers staðar. Svíar hafa breytt sínu opinbera kerfi undanfarna tvo áratugi til sveigjanlegri vegar og aukið hlutverk einkafyrirtækja, án þess að hugmyndafræðileg átök hafi ríkt þar um. En það breytir ekki hinu að yfirleitt er hreinlegast og best að segja skýrt hvað stendur til. Aðalatriðið er að það verði ekki forsenda fyrirhugaðra breytinga, að vernda beri núverandi störf og aðferðir. Þá næst enginn árangur.