Framleiðni er ekki allt...

11. nóv. 2013

  • Orri Hauksson
Á austurströnd Bandaríkjanna býr úfinn og úrillur Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði að nafni Paul Krugman. Sá dælir út blaðagreinum og bloggfærslum og hefur tautað ýmislegt óvenjulegt í skegg sér í gegnum tíðina. Að mati hans eru ríkisútgjöld flestra efnahagsmeina bót.

Á austurströnd Bandaríkjanna býr úfinn og úrillur Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði að nafni Paul Krugman. Sá dælir út blaðagreinum og bloggfærslum og hefur tautað ýmislegt óvenjulegt í skegg sér í gegnum tíðina. Að mati hans eru ríkisútgjöld flestra efnahagsmeina bót. Slík er ástríðan í þessum skoðunum hans að væri enn á lífi hagfræðingurinn John Maynard Keynes, sem var þekktastur fyrir að vilja beita ríkisútgjöldum til að stýra eftirspurn í hagkerfinu, þætti honum vafalaust nóg um keynesisma Krugmans. Íslenska krónan er einnig í sérstöku eftirlæti hjá Krugman og hann virðist jafnvel furða sig á því að ekki hafi fleiri tekið hana upp.

En ummæli hans um framleiðni, grundvallarmælieiningu á hagræn afköst, eru bæði frægari og óumdeildari: “Productivity isn't everything, but in the long run it is almost everything.” Einu varanlegu efnahagslegu framfarirnar, sem hægt er að treysta á, eru að mati Krugmans aukin framleiðni. Krugman á mörg skoðanasystkini í því efni. Hugmyndin snýst um að stöðugar umbætur, yfirleitt afmarkaðar hver um sig, séu hin trygga leið til þess að vinna okkar skili meira í dag en í gær. Bætt vinnubrögð, betri nýting aðfanga og vaxandi tæknistig séu rétta leiðin til sífellt aukins efnahagslegs virðis og bættra lífskjara.

Þótt Íslendingar hafi gengið í gegnum langa efnahagslega lægð á undanförnum árum hefur hagsaga landsins síðustu öldina einkennst af örum framförum. Íslendingar hafa tekið mörg stór efnahagsleg stökk, stundum skrykkjótt og vanstillt, en íslenska hagkerfið hefur að meðaltali vaxið hraðar á þessum langa tíma en hagkerfi flestra nágrannalanda. Við byrjuðum í mun rýrari stöðu, fluttum inn erlendar tækninýjungar og komum ýmsum framfaramálum í kring. En stökkbreytingin í umfangi hagkerfisins fólst lengi framan af ekki í aukinni framleiðni heldur í ytri útþenslu hagkerfisins, svo sem með Ástandinu, Marshall aðstoðinni og stækkun landhelginnar í 200 mílur. Þegar slíka landvinninga þraut, var hins vegar ekki annað í boði en nýta betur þau takmörkuðu aðföng sem við höfðum úr að spila, þ.e. að auka hina títt nefndu framleiðni.

Sjálfsprottnar framfarir og sameiginlegar

Hér á landi hafa flest vinnubrögð batnað á undanförnum áratugum og svo mun verða áfram. Hjá hinu opinbera er fjölmörgum lykilspurningum ósvarað, ekki síst um umfang opinbers rekstrar. Fyrir dyrum stendur að sameina háskóla, svo að dæmi sé tekið. Ennfremur hyggjast menntayfirvöld nýta betur mikilvægustu takmörkuðu auðlind hverrar manneskju, tímann, til að brautskrá stúdenta fyrr en nú er gert. Þá hefur ríkisvaldið boðað hagræðingu í eftirlitsstarfsemi hins opinbera, ekki síst í þeim tilgangi að auka skilvirkni í hagkerfinu í heild. Þessu öllu ber að fagna og styðja við.

Einkafyrirtæki hafa sjálf sína hagrænu hvata til að auka framleiðni sína. Hún felst yfirleitt í jaðarnýsköpun hér og þar. Slíkar umbætur leiða t.d. af örlítið bættum vinnuferlum, aukinni sjálfvirkni og nýtingu upplýsingatækni. Stundum finna fyrirtæki nýjar grundvallaraðferðir sem auka framleiðni í stórum stökkum. Ríkir efnahagslegir kraftar knýja allar slíkar sjálfsprottnar framfarir áfram, stórar sem smáar.

En oft þarf kerfisbreytingar til að koma framförum í kring. Tökum dæmi. Aflamarkskerfið í sjávarútvegi hefur stóraukið framleiðni í þeirri grein, ekki vegna þess að stjórnendur fyrirtækjanna einir og sér hafi allt í einu orðið miklu útsjónarsamari en fyrr, heldur vegna þess að þeir störfuðu eftir breytinguna innan miklu skynsamlegri ramma en áður. Með nýjum rekstrarforsendum gátu stjórnendur tekið ákvarðanir um hagkvæmar tímasetningar veiðar og með vinnsluáætlunum til langs tíma. Eftir breytinguna var hægt að vinna með viðskiptavinum sínum í útlöndum að vöruþróun og markaðsfærslum til langs tíma, leggja mátti upp plön með birgjum sínum í iðnaði, við að innleiða nýjustu tækni, svo að nokkuð sé nefnt.

Yfirleitt þarf miðlæga aðila, eins og samtök í atvinnulífi, til að vinna að því að koma slíkum kerfisumbótum í kring. Þótt hver og einn geri sitt besta, getur rangur rammi um tiltekna grein, t.d. óljós eignarréttur eða almennt vondar umgengnisreglur, leitt til þess að sókn eins fyrirtækis að eigin hag skapar engin verðmæti í heild, heldur leiði til sóunar fyrir heildina. Það er einmitt af þessari ástæðu sem sérlega ánægjulegt hefur  verið að vinna fyrir Samtök iðnaðarins undanfarin ár. Nær öll verkefni samtakanna felast einmitt í að reyna að laga ytra umhverfi atvinnulífs á Íslandi, oft gagnvart hinu opinbera, t.d. menntakerfinu, Seðlabanka, eftirlitsstofnunum, löggjafanum, skattayfirvöldum eða í dómssal. Önnur verkefni hafa snúist um sameiginleg framfaraverkefni, sem atvinnulífið getur saman unnið að óháð stjórnvöldum. Einstök fyrirtæki eiga erfiðara með að koma slíku í kring. Sem dæmi um slíkt má nefna sameiginlegt gæðakerfi, rafræna viðskiptastaðla, erlent samstarf og stefnumörkun tiltekinna greina. Við höfum líka reynt að auka framleiðni í starfi samtakanna sjálfra með því að fjölga félagsmönnum og sinna þeim með færri starfsmönnum en fyrr, með því að auka samstarf við önnur samtök í atvinnulífi og reyna að nýta takmörkuð aðföng sem best.

Sá, sem þetta ritar, lýkur nú störfum hjá Samtökum iðnaðarins eftir nokkurra ára starf. Sá tími hefur verið afar gefandi, enda eru verkefnin mikilvæg, stjórnarmenn ósérhlífnir, félagsmenn opinskáir og starfsfólkið framúrskarandi. Framleiðni er ekki allt, en til langs tíma er hún næstum allt, sagði prófessorinn. Og ekki rengjum við hann. Mesta ánægju við þessi starfslok veitir sú vissa, að á mínum starfstíma hafi tekist að auka örlítið á það, sem til langs tíma ku skipta næstum öllu.