Fyrir 20 árum og framundan eftir 20 ár
Sama dag og Samtök iðnaðarins tóku til starfa varð Ísland aðili að innri markaði Evrópu með EES samninginn sem aðgöngumiða sinn. Það skref átti eftir að breyta gjörvallri umgjörð atvinnulífs í landinu og skapa fleiri tækifæri en nokkurn óraði fyrir.
Á árinu...
„áttu sér stað gleðileg umskipti í þjóðarbúskapnum. Hagvöxtur glæddist á nýjan leik eftir lengsta tímabil stöðnunar og samdráttar í sögu lýðveldisins. Um 1900 ný störf urðu til á árinu og nú hefur verið snúið af óheillabraut vaxandi atvinnuleysis. Útflutningur iðnvara stórjókst á árinu eða um 27% prósent af verðmæti. Kemur sú aukning bæði fram í stóriðju og í fjölmörgum greinum almenns iðnaðar. Þessi útflutningsaukning staðfestir vonandi það sem Samtök iðnaðarins hafa lengi haldið fram: Vaxtarmöguleikar í íslensku atvinnulífi á næstu árum hljóta öðru fremur að felast í vexti iðnaðar.“
Umrætt ár er 1994 en 1. janúar tóku Samtök iðnaðarins til starfa og sá sem lýsir svo fyrsta starfsárinu er Haraldur Sumarliðason húsasmíðameistari fyrsti formaður Samtakanna.
Það voru sex félög sem sameinuðust í SI eftir langan og svo vandaðan undirbúning að það tókst að leggja margvísleg þrætuepli til hliðar og mynda stærstu samtök atvinnurekenda á Íslandi. Loksins skapaði iðnaðurinn sér stöðu sem samræmdist sannarlega mikilvægi framlags greinarinnar til þjóðarbúsins. Menn vildu umfram allt hafa afl til að styrkja stöðu iðnaðarins andspænis hagstjórninni innanlands og til að sækja fram á opnum alþjóðlegum markaði. Sveiflujöfnun trónaði efst á forgangslista stefnumála.
Sama dag og Samtök iðnaðarins tóku til starfa varð Ísland aðili að innri markaði Evrópu með EES samninginn sem aðgöngumiða sinn. Það skref átti eftir að breyta gjörvallri umgjörð atvinnulífs í landinu og skapa fleiri tækifæri en nokkurn óraði fyrir. „Það verður að teljast glæsilegur árangur hjá útflytjendum iðnaðarvöru að auka magn útflutnings um 22 prósent á einu ári“ sagði í ársskýrslu Samtakanna um árangur iðnaðarins fyrsta árið á innri markaðnum.
Umbreyting iðnaðarins varð ævintýraleg með tilkomu fyrirtækja sem sköpuðu sér leiðandi alþjóðleg hlutverk á sínum sviðum og líka einstaklega farsæl því sársaukinn varð minni en af inngöngunni í EFTA og varanleg verðmætasköpun meiri. Við afmælisáramót má öllum vera ljóst, sem um það hugsa, að nútíma íslenskt atvinnulíf hefði verið ómöguleiki án innri markaðarins. Þess vegna ættu menn líka að spyrja sig þeirrar spurningar – hvar yrði Ísland statt ef það missti aðganginn að innri markaðnum?
Iðnréttindin sem fagmenn afla sér með námi og viðurkenndri kunnáttu eru aðgöngumiði hvers og eins einstaklings að tækifærum á 550 milljóna manna opnum markaði. Á þeim markaði hefur engin krísa verið, þvert á móti er hann jafn opinn og hann hefur alltaf verið. Það er Ísland sem hefur lokast í mörgum skilningi þess orðs og sér ekki fyrir endann á.
Nú væri við upphaf nýs árs ekkert meira gaman en geta fagnað jafn gleðilegum umskiptum í þjóðarbúskapnum og formaður Samtaka iðnaðarins gat gert fyrir 20 árum. Hagvöxtur hefur sem betur fer glæðst á síðasta fjórðungi ársins. Hann er hins vegar ekki fjárfestingadrifinn og raunar er það svo að nú hefst sjötta árið í sögu Íslands án fjárfestingadrifins hagvaxtar. Við höfum fyrr í þessari kreppu séð hagvaxtartölur rísa byggðar á einkaneyslu t.d. vegna endurreiknings á gengistryggðum lánum heimila og útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar. Það sem við þurfum er að fjárfestingin fari í gang. Þá verður sannarlega hægt að fagna eins og Haraldur gat gert fyrir 20 árum í krafti nýsköpunar, framleiðni og verðmætari útflutnings.
Áhrif hrunsins á einstakar atvinnugreinar voru mismunandi frá upphafi. Gjaldmiðilskreppan breytti starfsskilyrðum sumra greina mjög til góðs með lækkun krónunnar en á hinn bóginn fundu gríðarlega mörg fyrirtæki fyrir högginu af snarhækkun lána í erlendri mynt og það er fyrst núna sem sér fyrir endann á umreikningi þeirra og þar með þeirri óvissu sem hefur fjötrað hundruð fyrirtækja og komið í veg fyrir fjárfestingu og framsækni. Þeim hluta úrvinnslu hrunsins er að ljúka en eftir standa gjaldeyrishöft og glotta til þjóðar sem virðist ekki kunna ráð til að losna við þau.
Íslendingum gengur ekki nógu vel að sameinast um lykilatriði agaðrar hagstjórnar. Og þó við stöndum frammi fyrir grundvallarspurningum þar sem svörin þola ekki bið erum við iðnari en nokkru sinni fyrr að deila um allt annað en aðalatriðin.
Á afmælisári er áskorun Samtaka iðnaðarins því engu minni en hún var í upphafi. Ísland verður að ná tökum á að stýra eigin hagstjórn þannig að dugi samkeppnishæfu og verðmætaskapandi atvinnulífi til vaxtar. Ísland verður að vera aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki því landið má einfaldlega ekki við því að tapa þeim burt.
Til að viðhalda þeim lífskjörum sem þjóðin hefur vanist þarf að tvöfalda raunverðmæti útflutnings. Sé litið fram til ársins 2030 eins og t.d. var gert í McKinsey skýrslunni sem út kom á fyrrihluta ársins, sést að Ísland þarf á meiri framleiðsluvexti að halda en flest önnur ríki innan OECD. Framleiðni er það sem þarf.
Samtök iðnaðarins sigla inn í afmælisárið með fjölbreyttari fyrirtæki, starfsgreinahópa og samstarfsvettvanga innanborðs en nokkru sinni fyrr. Meginstoðir hins stefnumarkandi starfs SI hafa frá upphafi verið heildstæð hagstjórn annars vegar og nýsköpun og þróun hins vegar. Samtökunum hefur tekist vel að vera í senn samtök stærstu fyrirtækja landsins í rótgrónustu atvinnuvegum og líka vettvangur nýhugsunar og samstarfs fyrirtækja á upphafsreit. Tekist hefur í gegnum SI að móta nýja og sterkari umgjörð nýsköpunar í atvinnulífi en áður þekktist. Nýsköpun, vöruþróun og sókn á nýja markaði er það sem Ísland þarf á að halda. Því sem áður var hent er nú nýtt t.d. í framleiðslu landbúnaðarafurða og því sem nú er hent er jafnframt áframsent sem verðmæti til annarra landa. Tækifærin eru óteljandi og ófyrirséð.
Samtök iðnaðarins munu fagna 20 ára afmæli sínu á nýju ári með því að fagna aukinni fjölbreytni í íslenskum iðnaði og krefjast þess í krafti samtakamáttar heildarinnar að fá að keppa á sömu viðskiptalegu forsendum og best gerist í öðrum ríkjum.