Drifkraftur nýrrar sóknar
Það er sterkur samhljómur í málflutningi atvinnulífsins nú á þessu unga vori. Það er sést vel á ársfundum sem öll samtök atvinnulífsins halda nú hvert af öðru. Efst á dagskrá allra er að leysa úr læðingi vaxtarkrafta efnahagslífsins til að snúa frá kreppu til verðmætasköpuna og vaxtar.
Það er sterkur samhljómur í málflutningi atvinnulífsins nú á þessu unga vori. Það er sést vel á ársfundum sem öll samtök atvinnulífsins halda nú hvert af öðru. Efst á dagskrá allra er að leysa úr læðingi vaxtarkrafta efnahagslífsins til að snúa frá kreppu til verðmætasköpuna og vaxtar. Viðskiptaráð lagði höfuðáherslu á alþjóðageirann og skilyrði hans á Viðskiptaþingi sínu. SA munu setja samkeppnishæfni rækilega á dagskrá á ársfundi sínum. Á Iðnþingi – sem jafnframt markar upphaf afmælishátíðar SI – munum við hamra inn í þjóðfélagsumræðuna að drifkraftur nýrrar sóknar Íslands sé fjölbreyttur, samkeppnishæfur útflutningsiðnaður.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um nýja sókn í þágu lands og þjóðar og við tökum stjórnvöld á orðinu. Nú höfum við aftur eignast ráðherra með iðnað í embættisheiti sínu og fögnum því mjög hvernig hún hefur nú þegar látið muna um sig í þeim verkum sem vinna þarf til að styrkja starfsskilyrðin. Á Iðnþingi tvinnum við saman spurninguna um hvað þurfi svo að ný sókn sjái dagsins ljós í þágu lands og þjóðar og sannar frásagnir af gólfi fyrirtækjanna af árangrinum af drifkraftinum í iðnaði. Þetta verður deigla fyrirætlana og framtíðarsýnar. Íslendingar að tala við Íslendinga um leiðir að markmiðinu um hagsæld og lífskjör í landi sem enn hefur ekki hrist kreppuna af sér.
Samtök iðnaðarins urðu til á krepputíma en jafnframt tíma jákvæðra kerfisbreytinga sem leiddu til stórbættra starfsskilyrða fjölbreytts iðnaðar. Við núverandi aðstæður er skýrara en oft áður að heildin er öll á sama báti og ljósvitar hagstjórnarmarkmiðanna þeir sömu á hvaða sviði sem fyrirtækin starfa. Í loftinu liggur samhljómur atvinnulífsins alls um að allt annað sé óásættanlegt en að Ísland nái fyrri stöðu sem samkeppnishæft land, aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki. Til þess þarf að virkja jákvæða krafta og því verður hvergi á móti mælt að drifkraftur nýrrar sóknar sé iðnaður í allri sinni fjölbreyttu og skapandi mynd.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI