Samstaða
Fyrir réttu ári urðu ríkisstjórnarskipti hér á landi. Ríkisstjórnin, sem kenndi sig við norræna velferð, féll á eftirminnilegan hátt og við tók ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Okkur atvinnurekendum þótti fráfarandi stjórn ekki verðskulda mikið hrós fyrir frammistöðu sína á þeim fjórum árum sem hún var við völd enda lagði hún, að okkar mati, mun meiri álögur á atvinnulífið en efni stóðu til. Því voru miklar vonir bundnar við nýja ríkisstjórn sem brygðist skjótt við og grípi til aðgerða sem örvað gætu atvinnulífið.
Því miður hafa þær vonir ekki ræst og aðgerðirnar hafa að mestu látið á sér standa. Atvinnulífið hefur heldur ekki fengið þá viðspyrnu sem þjóðin þarf sárlega á að halda til að bæta sinn hag.
Það olli afar miklum vonbrigðum að tryggingagjald fyrirtækja skyldi ekki vera lækkað í síðustu fjárlögum þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi. Ennfremur eru vextir sem atvinnulífið og almenningur búa við enn of háir, þótt ekki sé við ríkisstjórnina að sakast í þeim efnum.
Það gegnir líka furðu að Seðlabanki Íslands skuli ekki hafa lækkað stýrivexti þrátt fyrir minni verðbólgu. Þessi tvö atriði eru m.a. ástæða þess að atvinnulífið nær sér ekki á strik. Stýrivextir hafa haldist óbreyttir í 6% frá því í desember árið 2012 eða í 15 mánuði! Haldnir hafa verið tíu vaxtaákvörðunarfundir í röð þar sem horft hefur verið framhjá neyðarkalli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar sem eru að sligast undan því að fjármagna sig í þessu hávaxtaumhverfi.
Jafnvel þegar vextir voru í sögulegu lágmarki á Íslandi voru þeir engu að síður margfalt hærri en stýrivextir í nágrannalöndum okkar, svo að ekki sé talað um vexti bandaríska seðlabankans eða vexti á evrusvæðinu. Það er því ekki ósanngjörn krafa að þeir, sem fara með stjórn peningastefnunnar, leiti markvissari leiða til að hemja verðbólguna í stað þess að vaxtapína þá sem af veikum mætti reyna að skapa atvinnu hér landi.
Tryggingagjaldið sem samkvæmt lögum á að fjármagna Atvinnuleysistryggingarsjóð stendur nú í 7,59%, hvorki meira né minna. Síðasta ríkisstjórn hækkaði tryggingagjaldið með því fororði að það yrði lækkað aftur um leið og hægt yrði. Þetta loforð hefur ítrekað verið svikið.
Alþjóðlega fjármálahrunið árið 2008 hafði í för með sér fjölmörg skakkaföll fyrir almenning hér á landi og um leið fjárhag hins opinbera. Ljóst var að þjóðin yrði að taka höndum saman og hlaupa undir bagga með ríkissjóði. Launafólk tók á sig lækkun launa, frystingu eða lægra starfshlutfall. Atvinnurekendur lögðu sitt af mörkum í formi hærri álaga. Tryggingagjald stóð í 5,34% árið 2007. Strax í júlí 2009 var það hækkað í 6,75% sem samsvarar um 26%. Hækkunin átti að vera tímabundin til að bæta stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs en þvert á loforð ríkisstjórnarinnar héldu hækkanirnar áfram. Tryggingagjaldið var enn hækkað um 30% strax ári síðar þegar það fór upp í 8,65%. Samtals tók atvinnulífið á sig 60% hækkun tryggingagjalds á tveimur árum. Á sama tíma börðust fyrirtækin í landinu við minnkandi veltu, við að tryggja starfsfólki sínu vinnu og mörg þurftu að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Þegar samið var um 3,25% hækkun launa í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar í kjarasamningum fyrir þremur árum var boðað að tryggingagjaldið yrði lækkað. Þessu lofuðu forkólfar vinstri stjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon til að fyrirtækin hefðu svigrúm til að taka á sig launahækkanirnar. Aftur var það svikið. Á sama tíma og fyrirtækin urðu að taka á sig verulega hækkun á launakostnaði, sem lítil innistæða var fyrir, þurftu þau áfram að borga himinhátt tryggingagjald. Tryggingagjaldið er enn í hæstu hæðum þó að staðan hafi batnað til muna og atvinnuleysi minnkað úr tæplega 10% í um 4%. Það er óásættanlegt.
Það voru fögur fyrirheit með komu nýrrar ríkisstjórnar og atvinnulífið bar af þeim sökum vonir um raunverulegar aðgerðir. Í atvinnulífinu var rætt um að búast mætti við að gjaldið yrði a.m.k. lækkað um 1,0% í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar. Það urðu því mikil vonbrigði að tryggingagjaldið var aðeins lækkað um 0,1% um síðustu áramót eða tíu sinnum minna en vonir stóðu til. Að vísu hefur frekari lækkun í jöfnum skrefum verið boðuð út kjörtímabilið en þetta skref er einfaldlega alltof lítið. Atvinnulífið þarf á meira að halda.
Myndarleg lækkun hefði virkað eins og vítamínsprauta fyrir atvinnulífið en í stað þess eru væntingar enn neikvæðar sem leiðir m.a. til of lítillar fjárfestingar. Þegar háir stýrivextir og hátt tryggingagjald fara saman dregur úr þrótti fyrirtækjanna. Lækkun vaxta og lækkun tryggingagjalds leiddi hins vegar til þess að fyrirtæki gætu hækkað laun og ráðið fleira fólk til starfa. Þetta ætti ný ríkisstjórn að vita.
Hins vegar ber að fagna því sem vel er gert og boðaðar breytingar fjármálaráðherra á vörugjalda- og virðisaukakerfinu yrðu gott skref. Það kerfi, sem nú er við lýði, er löngu úrelt og dýrt í rekstri, bæði fyrir ríkið og fyrirtækin í landinu. Ég tel að þær kerfisbreytingar, sem fjármálaráðherra hefur kynnt, muni auka verðmætasköpun í hagkerfinu og efla atvinnulífið. Það er vel og því ber að fagna.
Í tíð vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna var sífellt alið á ófriði við almenning í landinu og atvinnulíf. Látum slíkt að baki. Það er kominn tími til að ríkisstjórn, atvinnulíf og fólkið í landinu séu samstiga í því átaki að auka hér hagvöxt og framleiðni.
Atvinnulífið og fólkið í landinu hafa fært fórnir. Nú er komið að stjórnvöldum að rétta okkur sáttahönd og létta okkur róðurinn. Við erum öll á sama báti og þurfum að róa í sömu átt.