Krafan um samkeppnishæft fjármögnunarumhverfi
Í byrjun árs ákváðum við hjá Samtökum iðnaðarins að efna til Nýsköpunartorgs í víðtæku samstarfi, sem frá er sagt hér í blaðinu, bæði til að fagna 20 ára afmæli SI og blása til nýrrar sóknar gegn flutningi fólks og fyrirtækja í nýsköpun frá Íslandi.
Í byrjun árs ákváðum við hjá Samtökum iðnaðarins að efna til Nýsköpunartorgs í víðtæku samstarfi, sem frá er sagt hér í blaðinu, bæði til að fagna 20 ára afmæli SI og blása til nýrrar sóknar gegn flutningi fólks og fyrirtækja í nýsköpun frá Íslandi. Þess vegna hefur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að efla Tækniþróunarsjóð og beita skattalegum hvötum í nýsköpun, eins og kynnt var daginn áður en torgið var opnað, vakið mikinn fögnuð. Við teljum þessar fréttir hafa aflétt hættuástandi á síðustu stundu. Höftin hafa hrikaleg áhrif á nýsköpunarfyrirtækin sem færa óðum höfuðstöðvar sínar frá Íslandi/úr landi og fjármögnunarumhverfið í landinu er í heild ófullkomið og bjagað. Hér er því þjóðþrifaverk að vinna.
Fyrst eftir hrunið ríkti sterkur nýsköpunarvilji í landinu og frásagnir af endurreisn Finnlands á tíunda áratugnum endurómuðu vítt og breitt um landið. Svo tóku aðrir og gagnsminni straumar yfir og finnsk nýsköpunarleið var aldrei valin. Þó varð þessi kvika til þess að upp spruttu merkileg nýmæli sem leitt geta til framfara í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands greiddu götu fjölda fólks til nýrra tækifæri. Reynslan af þeim sýnir líka hvernig raunverulegur árangur getur náðst í nýsköpun atvinnulífs á landsbyggðinni. Of oft hefur nýsköpunarhugtakinu verið misboðið með því að nota það um styrkfreka stöðnunarstarfsemi í algjöru sambandsleysi við þarfir viðskiptavina eða markaði. Slíkt hjálpar engum - allra síst byggð í landinu þótt kallað sé byggðastefna.
Helga Valfells, forstjóri Nýsköpunarsjóðs, hefur verið óþreytandi talskona nýsköpunar sem arðbærrar fjárfestingar og við eigum að gera þá undantekningarlausu kröfu að þannig sé öll nýsköpunarstefna hugsuð.
Iðnaðurinn á að hafa skoðun
Þegar Iðnlánasjóður rann inn í Fjárfestingabanka atvinnulífsins var ákveðið að setja á stofn Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins - NSA. Nýsköpunarsjóður hefur náð markverðum árangri á síðustu árum og tók nú á vormánuðum forystu í að koma á stefnumóti íslenskra lífeyrissjóða við sérfræðinga í norrænum systurstofnunum sem mikla reynslu hafa af arðsamri fjárfestingu í nýsköpun.
Iðnaðarbanki og Iðnlánasjóður urðu ekki til að ástæðulausu á sínum tíma. Í hátt í hundrað heimsóknum mínum til aðildarfyrirtækja víða á landinu sl. hálft ár hef ég fræðst mikið um samskipti iðnfyrirtækja og banka á ólíkum tímum Íslandssögunnar og skal viðurkenna að ég er forvitin og spyr margs. Reynt forystufólk man oft tímana þrenna eða ferna og allir eiga sögur af úrslitastundum í rekstrinum, ýmist í sókn eða úr vörn, þar sem sköpum skipti hvernig samskiptin við banka fóru fram.
Iðnaðurinn á að hafa skoðun á því hvers konar bankakerfi og bankaþjónusta stendur eftir á Íslandi þegar allt ryk hrunsins hefur sest. Tilgangur banka er að þjóna samfélögunum sem veita þeim sérréttindastöðu með lögum. Gríðarleg skuldabyrði íslenskra fyrirtækja og fjármagnshöftin sköpuðu saman lamandi aðstæður. Sem betur fer hefur skuldastaðan batnað mikið og fleiri fengið svigrúm til fjárfestingar sem oftar en ekki var löngu tímabær til endurnýjunar og nauðsynlegs viðhalds. Á það verður aldrei of oft minnt að nýsköpun er ekki síst mikilvæg í grónum fyrirtækjum. Allt frá fyrra bankahruni hér á landi árið 1930, þegar tekist var á um stofnun nýs Útvegsbanka úr rústum hins fallna Íslandsbanka, hefur nauðsyn þess að fjármagnið þjóni nýsköpun atvinnuveganna skipt máli hérlendis - enda á svo að vera. Sérstakur útvegsbanki var stofnaður árið 1930 til að styðja nútímavæðingu sjávarútvegs í landi sem öldum saman hafði húkt inni við strönd og engin efni átt til smíði stórra skipa. Nú er ein stærsta áskorun Íslendinga að auka verðmætasköpun og með bættri framleiðni. Þar ætlum við hjá SI að taka til hendi með aðildarfyrirtækjum okkar og félagsmönnum með fræðslu, hvatningu, ráðgjöf og baráttu fyrri bættum starfsskilyrðum.
Við fögnum skilningi og frumkvæði sem komið hefur bæði frá Arionbanka og Landsbanka sem sýna vilja til að bæta þjónustu við uppbyggingu tækni- og hugverkaiðnaðar og nýsköpun almennt. Við fögnum líka samvinnu og frumkvæði Kauphallarinnar sem tekið hefur þessi mál á dagskrá sína. Einstakir frumkvöðlar vinna líka stórmerkilegt starf fyrir heildarumhverfið.
Sífellt fleiri gera sér grein fyrir úrslitaáhrifum framsækins nýsköpunarvilja fyrir landið/þjóðina og krafan um samkeppnishæft fjármögnunarumhverfi mun heyrast hátt og skýrt á næstu misserum. Þar ætlum við hjá SI að leggja okkar af mörkum.