Fjárfestum í gæðum frekar en magni

14. ágú. 2014

  • Guðrún Hafsteinsdóttir

Orðatiltækið „vinnan göfgar manninn“ hefur lengi staðið Íslendingum nærri. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr má segja að Íslendingar meti manngildið út frá vinnu.

Orðatiltækið „vinnan göfgar manninn“ hefur lengi staðið Íslendingum nærri. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr má segja að Íslendingar meti manngildið út frá vinnu. Við mótum skoðun okkar á náunganum eftir vinnuframlagi hans. Við spyrjum fólk stöðugt spurninga eins og: „Hvað gerir þú?“ og „er ekki nóg að gera hjá þér?“ Kannski er það hin harðneskjulega náttúra landsins sem hefur innrætt okkur þetta viðhorf. Hvað sem því líður eru dugnaður og vinnusemi inngróin í þjóðarsálina sem hinir mestu mannkostir.

Hvernig stendur þá á því að í landi þessara miklu dugnaðarforka hefur ábati vinnunnar sífellt farið minnkandi? Nýjustu tölur sýna að framleiðni hins vinnandi Íslendings nálgast nú að vera að meðaltali 20% lakari en vinnandi fólks í nágrannalöndum okkar. Hver er ástæðan fyrir þessari stöðu? Ekki vinnum við styttri vinnudag og við fúlsum heldur ekki við aukavinnu. Þvert á móti sýna tölur að margir Íslendingar vinna meira en 100% vinnu og að atvinnuþátttaka er hér mjög mikil á alþjóðalegan mælikvarða.

Ég tel eina af ástæðunum vera þá miklu stöðnun sem hér hefur ríkt undanfarin ár. Fjárfesting er í sögulegu lágmarki og fyrirtækin okkar eru að verða eftirbátar sambærilegra fyrirtækja í nágrannalöndunum. Sú atvinnugrein, sem hefur skilað hvað bestri framleiðni hér á landi gegnum tíðina, er sjávarútvegur en jafnvel þar eru blikur á lofti. Tilurð veiðileyfagjaldsins hefur m.a. komið í veg fyrir að fyrirtæki í greininni fjárfesti nægilega í nýjum búnaði sem aukið getur framleiðni. Skortur á fjárfestingu hefur einkennt flest svið atvinnulífsins síðustu ár en nú eru vonir bundnar við að trú atvinnurekenda og fjárfesta á framtíðina sé að aukast.

Við getum öll verið sammála um að óbreytt staða er óviðunandi. Ef ekkert verður að gert munu lífskjör Íslendinga halda áfram að rýrna þar til við verðum komin í aðra deild þróaðra ríkja. Allar forsendur eru fyrir að Íslendingar séu meðal þeirra þjóða sem mestrar velmegunar geta notið en til þess að auka framleiðni, hagvöxt og hækka laun þurfum við að auka útflutningstekjur umtalsvert á næstu 15-20 árum.

Sé litið til nágrannalanda okkar þar sem margir Íslendingar eru  við störf, ekki síst iðnaðarmenn, er starfsumhverfið allt annað en við getum boðið fólki hér á landi. Norðmenn vinna til dæmis 500 færri stundir á ári en við, þeir hafa mun hærri laun og framleiðni þeirra er um 20% meiri en okkar.

Í seinni tíð hefur þjóðum helst tekist að auka framleiðni sína með því að hagnýta sér hina ýmsu tækni. Við verðum að auka framleiðslugetu sérhvers vinnandi manns  til að skapa meiri verðmæti á hverja unna vinnustund. Þetta má gera bæði með aukinni tækni sem og betri menntun, ekki síst í verk- og tæknigreinum.

Við höfum allt að vinna. Við erum ung þjóð og hraust. Við eigum auðlindir. Við eigum gott menntakerfi sem þarf að efla enn frekar og veita meiri fjármunum til. Góð menntun er forsenda aukinnar verðmætasköpunar og aukinnar framleiðni. Við viljum fjölbreytt atvinnulíf og öflug fyrirtæki sem greiða starfsfólki sínu góð laun.

Kannski ætti markmið okkar í upphafi að vera að breyta þjóðarmottóinu og leggja þess í stað áherslu á að vinna á markvissan og hagkvæman hátt, velja okkur verðmætar greinar, mennta fólkið okkar og fjárfesta í framtíð sem metin verður í gæðum en ekki magni.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI