Samvinna og allir vinna
Verkefni SI, nú sem endranær, eru býsna mörg og fjölbreytt. Í öllum málaflokkum skiptir samvinnan höfuðmáli, hvort sem það er í menntamálum, nýsköpun eða almennum starfsskilyrðum iðnaðar. Á fyrstu vikunum í starfi finn ég að það býr mikill kraftur í Samtökum iðnaðarins. Það kemur mér ekki á óvart. Það er okkar verkefni að nýta þennan kraft betur og virkja hann í átt að mikilvægustu verkefnunum hverju sinni. Með aukinni samvinnu fyrirtækja innan SI og með aukinni samvinnu okkar við stjórnvöld má skila góðum árangri.
Í október hófum við hjá SI auglýsingaherferð til að minna á hversu mikil sóun felst í svartri atvinnustarfsemi. Byggt er á herferð um sama efni sem fór í loftið árið 2009. Út frá eldri rannsóknum og erlendri reynslu má áætla að með svartri atvinnustarfsemi tapist um 70 milljarðar króna á ári. Það gefur auga leið að þótt ekki næðist til baka nema hluti af þeirri upphæð inn í tekjuhlið hins opinbera myndi margt ávinnast. Uppbygging heilbrigðisþjónustu, fjárfesting í innviðum, aukin framlög til menntunar eða í samkeppnissjóði sem styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróun eru fáein dæmi um verkefni sem myndu njóta góðs af hugarfarsbreytingu í þessum efnum. Skilaboðin eru einföld, hættum að kaupa og selja svarta vinnu.
Á sama tíma og við vöktum athygli á ofangreindu birtust fjárlög fyrir árið 2015. Því miður er ekki gert áfram ráð fyrir 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað, heldur lækkun í 60%. Það er verkefni okkar að vekja athygli stjórnvalda á mikilvægi þess að halda áfram með verkefnið „Allir vinna“, eins og 100% endurgreiðslan hefur verið kölluð, enda skapast með því skýrari hvati til að vinna gegn svartri starfsemi.
Talandi um fjárlagafrumvarpið. Við hjá SI fögnum mjög þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á virðisaukaskattskerfinu. Verið er að breikka skattstofninn og minnka bil milli þrepa. Þá er lagt til að hið úr sér gengna og óskiljanlega vörugjaldakerfi verði lagt af. Það er einkar jákvætt skref og munum við leggjast á árarnar til að tryggja að þetta mikilvæga atriði breytist ekki í meðförum Alþingis.
Eitt af gildum Samtaka iðnaðarins er samvinna. Fyrirferðarmesta verkefni okkar undanfarnar vikur hefur einmitt verið STEFNUmót byggingariðnaðarins undir slagorðinu „Samstarf er lykill að árangri“. Þarna höfum við verið í samstarfi við Mannvirkjastofnun og fjölmarga aðila sem tengjast byggingariðnaðinum. Á stefnumótið mættu hvorki meira né minna en tæplega 250 manns og skiptust á skoðunum um stöðuna í iðnaðinum, hvað megi bæta og hver áhersluatriði næstu missera þurfa að vera. Aðferðafræði frá Félagsvísindastofnun HÍ var nýtt til verksins. Á næstu vikum verða niðurstöðurnar birtar og mun SI taka virkan þátt í að þróa þær yfir í stór og smá verkefni til úrbóta fyrir byggingariðnaðinn. Það er til mikils að vinna við að bæta vinnubrögð í geiranum, gera menntun markvissari og vinna gegn þrálátum sveiflum. Gildið okkar um samvinnu hefur hreinlega tekist á loft í þessu verkefni, enda kallar það á mikla samvinnu innan SI og ekki síst á samvinnu okkar við aðra hagsmunaaðila og stjórnsýsluaðila í greininni. Ég er stoltur af okkar fólki og fyrirtækjum innan samtakanna sem hafa unnið að þessu verkefni. Nú er að halda áfram.
Verkefni SI, nú sem endranær, eru býsna mörg og fjölbreytt. Í öllum málaflokkum skiptir samvinnan höfuðmáli, hvort sem það er í menntamálum, nýsköpun eða almennum starfsskilyrðum iðnaðar.
Á fyrstu vikunum í starfi finn ég að það býr mikill kraftur í Samtökum iðnaðarins. Það kemur mér ekki á óvart. Það er okkar verkefni að nýta þennan kraft betur og virkja hann í átt að mikilvægustu verkefnunum hverju sinni. Með aukinni samvinnu fyrirtækja innan SI og með aukinni samvinnu okkar við stjórnvöld má skila góðum árangri. Um leið verðum við að vera reiðubúin að sækja fram af áræðni og veita stjórnvöldum kröftugt aðhald þar sem á þarf að halda. Ég hlakka til að vinna með ykkur að þessu verkefni.