Nýtum árið 2023 til góðra verka

28. des. 2022

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar í Markaðinn um áramót.

Meiri óvissa hefur ríkt undanfarið en við eigum að venjast. Besta vika ársins var líklega vikan milli þess sem sóttvarnareglum var aflétt og áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Þetta ár hefur kennt okkur að búast við hinu óvænta. Það breytir þó ekki stóru myndinni sem er sú að við erum stödd í miðri grænni iðnbyltingu þar sem framleiðsluhættir breytast og full orkuskipti geta orðið að veruleika á Íslandi í þágu þess að bæta heilsu jarðar. Þessi þróun, sem hófst seint á síðustu öld, mun vara næstu áratugi. Í þessu felast fjölmörg tækifæri fyrir Ísland sem við þurfum í sameiningu að sækja. Þess vegna tileinkuðu Samtök iðnaðarins árið 2022 grænni iðnbyltingu.

Iðnaður er í stöðugri þróun þar sem nýjungar eru innleiddar í rótgrónum iðngreinum og nýjar greinar hasla sér völl. Það er gaman að sjá þessa þróun eiga sér stað um allt land, hjá iðnfyrirtækjum sem skapa um 44 þúsund eftirsótt störf og mikil verðmæti. Mikil tækifæri eru til staðar en þau þarf að sækja þannig að eftirsóttum störfum fjölgi og meiri verðmæti verði til skiptanna. Þannig verður Ísland í fremstu röð. 

Hugverkaiðnaður er nú þriðja stærsta greinin á Íslandi og hefur vaxið hratt. Hugverkaiðnaður er orðinn ein verðmætasta útflutningsstoðin og hefur alla burði til þess að verða stærsta stoðin við lok þessa áratugar, ef rétt er á málum haldið. Það er undir okkur sjálfum komið að svo verði. Frumkvöðlar með óþrjótandi hugmyndaf lug og drifkraft þurfa samkeppnishæf starfsskilyrði. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir að hafa búið vel að hugverkaiðnaði á undanförnum árum en þar sem önnur ríki vinna stöðugt að bættum skilyrðum þá þurfa íslensk stjórnvöld sífellt að huga að umbótum í starfsumhverfinu og hvötum til nýsköpunar. 

Með tímanum verður orkusækinn iðnaður fjölbreyttari og grænni. Í grænni iðnbyltingu skapast tækifæri til þess að nýta auðlindastrauma frá rótgrónum iðnaði til nýsköpunar. Með nýsköpun liggja tækifæri á sviði matvælaframleiðslu, í líftækniiðnaði og í upplýsingatækni, svo dæmi séu tekin. Þar fyrir utan þarf orku til vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu svo Ísland geti náð fullum orkuskiptum og orðið óháð olíu. Til þess að við getum sótt þessi tækifæri í iðnaði þarf að afla grænnar innlendrar orku fyrir núverandi kaupendur orku sem og nýja notendur. Ef allri orku verður forgangsraðað til orkuskipta í öðrum atvinnugreinum þá hægir verulega á framþróun iðnaðar og við verðum af margvíslegum tækifærum til atvinnuuppbyggingar um land allt. Einnig munum við dragast aftur úr í grænni iðnbyltingu í stað þess að verða leiðandi á því sviði. 

Nýtum árið 2023 til að byggja upp öflugri iðnað, fleiri eftirsótt störf og meiri verðmæti til hagsbóta fyrir samfélagið allt. 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Markaðurinn, 28. desember 2022.