Öflugur bakhjarl nýsköpunar

9. maí 2019

Hugvit verður drifkraftur vaxtar á þessari öld rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var forsenda vaxtar og verðmætasköpunar á 20. öldinni. 

Hugvit verður drifkraftur vaxtar á þessari öld rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var forsenda vaxtar og verðmætasköpunar á 20. öldinni. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvitið er óþrjótandi og án landamæra. Tilvist Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins byggist á því að virkja þann mikla kraft sem í hugvitinu felst með því að leggja félögum til áhættufjármagn með fjárfestingu og taka virkan þátt í uppbyggingu þeirra. Sjóðurinn kemur að félögum snemma á vaxtarskeiðinu og fyllir þannig upp í ákveðið tómarúm sem annars ríkti gagnvart áhættufjárfestingum. Þetta hefur sjóðurinn gert frá árinu 1998 en hann hefur lagt íslenskum sprotafyrirtækjum til um 11 milljarða króna frá stofnun. Sjóðurinn er öflugur bakhjarl nýsköpunar og fjölmargar umsóknir sem sjóðnum berast undirstrika það. 

Aukum verðmæti og sköpum lausnir 

Nýsköpun er ein fjögurra stoða samkeppnishæfni ásamt menntun eða mannauð, efnislegum innviðum og starfsumhverfi fyrirtækja. Líkja má samkeppnishæfni við heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum enda má gera ráð fyrir aukinni verðmætasköpun með aukinni samkeppnishæfni. Þetta undirstrikar mikilvægi nýsköpunar og er ágætt að minnast þess að hún eykur bæði verðmætasköpun og færir lausnir á samfélagslegum viðfangsefnum. Dæmi um slík viðfangsefni sem uppi eru um þessar mundir eru öldrun þjóða og loftslagsmál. Nýlegar fjárfestingar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, eftir nokkurt hlé, hafa meðal annars verið á þessum sviðum. Það er sannarlega ánægjulegt að íslensk fyrirtæki skuli leggja sitt af mörkum við lausn þessara mikilvægu mála sem eiga alþjóðlega skírskotun. 

Nýsköpunarlandið Ísland 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru skýr skilaboð um að áratugur endurreisnar sé að baki og að ríkisstjórnin muni líta til framtíðar og stuðla að langtímauppbyggingu samfélagsins. Þetta á ekki síst við þegar kemur að nýsköpun enda er vísað 17 sinnum til nýsköpunar í stefnuyfirlýsingunni þar sem meðal annars er boðuð mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Vinna við mótun nýsköpunarstefnu hófst á síðasta ári og styttist í að hún verði kynnt. Í þeirri stefnu má búast við því að meðal annars verði fjallað um fjármagn, mannauð, stuðningsumhverfi og kynningar- og markaðsstarf. 

Aukinn slagkraftur 

Fjárfesting í rannsóknum og þróun er ein forsenda þess að nýsköpun dafni. Aðgangur að hæfu starfsfólki, með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum vísinda og hátækni, er lykillinn að því að styðja við nýsköpun og sýn um hugvitsdrifið hagkerfi til framtíðar. Stuðningsumhverfi nýsköpunar á að vera skilvirkt og styðja við opinbera stefnu í nýsköpun. Kynningar- og markaðsstarf er tvíþætt, annars vegar að hvetja til nýsköpunar og hins vegar að koma vörum og þjónustu á markað en hvað hið síðarnefnda varðar má gera betur. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur sem fyrr segir mikilvægu hlutverki að gegna varðandi fjármögnun og sem hluti af stuðningsumhverfinu með því að taka virkan þátt í uppbyggingu félaga sem fjárfest er í auk þess að koma að ýmsum öðrum verkefnum sem hvetja á einn eða annan hátt til nýsköpunar og eflingar hennar hér á landi. Um nokkurra ára skeið hefur verið kallað eftir endurskoðun á umgjörð sjóðsins. Eðlilegt er að ráðast í slíka vinnu með hliðsjón af nýrri stefnu stjórnvalda um nýsköpun. Þar þarf sérstaklega að skoða þrennt; hlutverk sjóðsins, fjármögnun og samspil ólíkra stofnana í stuðningsumhverfinu. Viðsnúningur hefur orðið á rekstri sjóðsins en afkoma hans var jákvæð árið 2018, í fyrsta sinn síðan árið 2014. Sjóðurinn hefur fjárfest í nokkrum félögum undanfarin misseri og frekari fjárfestingar eru fyrirhugaðar. Mikil vinna hefur verið lögð í að styrkja innviði sjóðsins með endurskoðun á innri ferlum og stefnum. Sjóðurinn er því vel í stakk búinn til að sinna sínu hlutverki af krafti.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Morgunblaðið, 9. maí 2019.