Öflugur iðnaður: eftirsótt störf og verðmæti

28. des. 2022

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar í ViðskiptaMoggann um áramót.

Hagsaga Íslands einkennist af miklum sveiflum og höftum vegna þess að útflutningsgreinar voru einhæfar og fjármálastofnanir veikburða. Þetta hefur sannarlega breyst. Nú eru fjórar stoðir útflutnings þar sem hugverkaiðnaður – fjórða stoðin – samanstendur af fjölbreyttum greinum iðnaðar sem eiga það sameiginlegt að verðmætin byggjast á nýtingu hugverka. Þá er bankakerfið vel fjármagnað og í stakk búið til að styðja við uppbyggingu og öflugt atvinnulíf. Verkefni stjórnvalda er að skapa samkeppnishæft umhverfi í opnu hagkerfi með áherslu á menntun og mannauð, trausta innviði, hvetjandi umgjörð nýsköpunar og stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt starfsumhverfi. Þannig verða tækifærin sótt hér á landi. 

Þau 44 þúsund sem starfa í fjölbreyttum iðnaði hafa lagt mikið af mörkum á árinu við að skapa verðmæti enda er iðnaður verðmætasta atvinnugrein landsins. Byggingariðnaður kemur að uppbyggingu um land allt, hugverkaiðnaður er nú orðinn veltumesta útflutningsstoð landsins og í fjölbreyttum framleiðsluiðnaði eru framleiddar vörur sem við notum eða njótum góðs af í daglegu lífi. Frábær afkoma orkufyrirtækja endurspeglar mikilvægi orkusækins iðnaðar og þau verðmæti sem hann skapar. Sá iðnaður verður fjölbreyttari með tímanum og fram undan gæti verið mikið uppbyggingarskeið með grænum tækifærum á sviði matvælaframleiðslu, líftækni og vetnis- og rafeldsneytis. 

Græn iðnbylting heldur áfram af fullum þunga. Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja vinna hörðum höndum að því að ná metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum. Fyrsta rafknúna beltagrafan hefur þegar verið tekin í notkun og fyrsti rafknúni steypubíllinn kemur til landsins á nýju ári. Sum fyrirtæki hafa þegar náð kolefnishlutleysi í sinni starfsemi og önnur hafa gert metnaðarfullar áætlanir um að ná markmiðum stjórnvalda. Stjórnvöld verða að ryðja hindrunum úr vegi og setja efnahagslega hvata til að flýta fyrir árangri. Á vefnum orkuskipti.is kemur fram að efnahagslegur ávinningur orkuskipta nemi um 1.400 milljörðum króna. Með markvissum umbótum síðustu ára hefur hugverkaiðnaður blómstrað og stöðugleiki í byggingariðnaði verið meiri en áður hefur sést. Með því að halda áfram á braut umbóta skapast fleiri eftirsótt störf og aukin verðmæti verða til skiptanna. Þannig verður Ísland í fremstu röð.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

ViðskiptaMogginn, 28. desember 2022.