Olíuinnflutningur eykst þvert á markmið stjórnvalda

8. feb. 2023

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, skrifar um olíunotkun í ViðskiptaMogganum. 

Heimurinn allur stendur frammi fyrir því stóra verkefni að hægja á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Notkun olíu er stærsti losunarvaldurinn á heimsvísu en losun vegna olíunotkunar á Íslandi nemur 1,6 milljónum tonna á ári. Til samanburðar þá þýða markmið íslenskra stjórnvalda að draga þarf úr losun um 1,3 milljónir tonna fyrir árið 2030. Það er því ekki að ástæðulausu að íslensk stjórnvöld hafa sett markmið um að Ísland hætti að nota olíu fyrir árið 2040. Metnaðarfullum og um leið nauðsynlegum markmiðum þarf að fylgja eftir með markvissum aðgerðum. 

Þvert á markmiðin stefnir hins vegar nú í metár í innflutningi á olíu árið 2023. Olíunotkun Íslands náði hámarki árið 2018 þegar hún var um 1,5 milljónir tonna. Margt bendir til að olíunotkun nái sömu hæðum á þessu ári. Í farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að 7,8 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll á árinu sem er þriðji mesti fjöldi farþega á einu ári frá upphafi. Þá er því spáð að 2,2 milljónir ferðamanna komi til Íslands, sem nálgast farþegafjölda metársins 2018. Yfir 50% af olíunotkun Íslands kemur til vegna flugsamgangna og hefur farþegafjöldi því mikil áhrif á olíunotkun landsins. 

Miðað við spár um þróun á olíuverði á árinu má gera ráð fyrir að um verði að ræða met í olíuinnflutningi í krónum talið, en innflutningur jarðefnaeldsneytis gæti numið yfir 130 milljörðum króna á árinu. Aukning í olíunotkun gengur gegn loftslagsmarkmiðum Íslands en hefur einnig neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð. Þá hafa hækkanir á heimsmarkaðsverði á olíu áhrif á verðbólgu hér á landi. Það er því til mikils að vinna fyrir samfélagið allt, bæði loftslag og efnahag, að markmið um olíulaust Ísland náist. Jafnframt tryggir það orkusjálfstæði og orkuöryggi en nágrannar okkar á meginlandinu hafa verið rækilega minntir á mikilvægi þess undanfarið ár. 

Ísland stendur framarlega á heimsvísu í framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum. En þegar horft er til heildarorkunotkunar Íslands má sjá að stór hluti hennar byggist á olíu. Tvær af fjórum útflutningsstoðum Íslands nýta olíu til að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið, ferðaþjónusta og sjávarútvegur. Sé húshitun undanskilin stendur olía undir 40% af orkunotkun Íslands. Það hlutfall fer hækkandi með fjölgun ferðamanna. 

Tvennt þarf að koma til svo markmið um orkuskipti náist. Aukin innlend framleiðsla á grænni orku og áframhaldandi vinnsla til framleiðslu á grænu eldsneyti, svo sem vetni eða annars konar rafeldsneyti. Einnig þarf að skapa einfalt og hvetjandi starfsumhverfi og tryggja innviði fyrir vetnis- og rafeldsneytisframleiðendur. Fjölmargir aðilar eru með slík verkefni í þróun hér á landi. Áratugar kyrrstaða í orkumálum og orkuöflun hér á landi var loks rofin með samþykkt rammaáætlunar á Alþingi vorið 2022. Leyfisveitingaferli eru hins vegar enn íþyngjandi en hafa þarf hraðar hendur til að snúa við þeirri þróun sem blasir við, sem er aukinn innflutningur á olíu og tilheyrandi aukning losunar. Skortur á grænni orku hefur einnig orðið til þess að grípa þurfti til skerðinga á raforku á síðustu árum sem leiddi af sér aukna olíunotkun. 

Ísland getur orðið fyrsta landið í heiminum til að nota eingöngu græna, endurnýjanlega orku, í þágu samfélags, efnahags og umhverfis. Lausnirnar eru til og við þurfum að setja stóraukinn kraft í að innleiða þær. Til þess þarf samhent átak stjórnvalda og atvinnulífs og hraða þarf vegferðinni. Aukinn olíuinnflutningur er ekki skref í rétta átt. 

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.

ViðskiptaMogginn, 8. febrúar 2023.