Ólögmæt stöðuleyfisgjöld um land allt

17. mar. 2021

Steinunn Pálmadóttir, lögfræðingur hjá SI, skrifar um ólögmæt stöðuleyfisgjöld í Morgunblaðinu. 

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðað innheimtu Hafnarfjarðarbæjar á gjöldum vegna útgáfu stöðuleyfa fyrir gáma, svokölluð stöðuleyfisgjöld, ólögmæta. Af úrskurðunum má ráða að Hafnarfjarðarbær, ásamt öðrum sveitarfélögum, hefur ranglega staðið að álagningu stöðuleyfisgjalda enda hefur gjaldið ekki einungis verið lagt á án lagaheimildar heldur hefur einnig verið gengið of langt í álagningu gjaldsins.

Rétt er að benda á grandsemi Hafnarfjarðarbæjar um ólögmæta álagningu stöðuleyfisgjalda en Samtök iðnaðarins hafa frá árinu 2016 óskað eftir því að Hafnarfjarðarbær leiðrétti verklag sitt við innleiðingu gjaldsins án árangurs. Enn hefur bærinn, að því er virðist og þrátt fyrir umrædda úrskurði, ekki leiðrétt gjaldskrána. Af úrskurðunum má ráða að ákvörðun og álagning stöðuleyfisgjalda hjá Hafnarfjarðarbæ er meingölluð og andstæð bæði lögum og ríkjandi sjónarmiðum í íslenskum stjórnsýslurétti. Telja samtökin að gjaldendur eigi rétt til endurgreiðslu á stöðuleyfisgjöldum greiddum til Hafnarfjarðabæjar, sem hafa byggst á gjaldskrá sveitarfélagsins.

Ljóst er að þau sjónarmið sem á reyndi í máli Hafnarfjarðarbæjar eiga einnig við um önnur sveitarfélög. Samtök iðnaðarins hafa því sent áskorun á sveitarfélög um að lagfæra gjaldskrár sínar til samræmis við niðurstöðu úrskurðanna. Samtökin hafa talað fyrir því að ríki og sveitarfélög létti álögum af fyrirtækjum auk þess að tryggt sé að gjaldtaka sé í samræmi við lög og reglur. Telja samtökin óforsvaranlegt að álagning gjalda byggi ekki á réttmætum forsendum, líkt og úrskurðarnefndin hefur komist að niðurstöðu um í málum Hafnarfjarðarbæjar.

Stöðuleyfisgjald er þjónustugjald

Stöðuleyfisgjald er þjónustugjald sem sveitarfélögum er heimilt að innheimta. Þjónustugjöld eru ólík sköttum að því leyti að þeim er ætlað að standa undir kostnaði við tiltekna þjónustu en ekki hugsuð sem almenn tekjuöflunarleið.

Samkvæmt 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2012 er sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, þar á meðal útgáfu stöðuleyfa. Skýrt er tekið fram í ákvæðinu það skilyrði að upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og að gjaldskráin skuli byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Þá má gjald ekki vera hærra en kostnaður.

Rangt staðið að álagningu

Af niðurstöðu úrskurðarnefndar í máli nr. 28/2020 var ljóst að forsendur álagningar stöðuleyfisgjalds hjá Hafnarfjarðarbæ byggðu ekki á traustum útreikningi né skynsamlegri áætlun. Í úrskurðinum kemur fram að ætla megi að Hafnarfjarðarbær hafi litið á stöðuleyfisgjaldið sem tekjulind en ekki þóknun fyrir veitta þjónustu. Gjaldskráin var því ekki í samræmi við kröfur 51. gr. mannvirkjalaga og innheimta stöðuleyfagjaldsins talin ólögmæt.

Þrátt fyrir ákveðnar eftirlitsheimildir var öflugt eftirlit bæjarins með gámunum talin þjónusta umfram skyldur, var því ekki hægt að fella þann kostnað inn í stöðuleyfisgjöld. Í rekstraráætlun Hafnarfjarðabæjar var ennfremur gert ráð fyrir að hluti gjaldsins væri áætluð vanskil hluta gámaeigenda á stöðuleyfagjaldi. Það var talið ganga gegn 51. gr. mannvirkjalaga þar sem kostnaðarliðir sem standa að baki gjaldi verða að vera í nánum tengslum við þá þjónustu sem veitt er.

Gjaldskrá Hafnarfjarðarbæjar gerir ráð fyrir ákveðnu upphafsgjaldi og svo viðbótargjaldi við hvern gám sem bætist við. Samkvæmt úrskurðinum er slík gjaldlagning óheimil. Af gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð er aðeins heimild til að gefa út eitt stöðuleyfi, óháð fjölda gáma. Er niðurstaðan í samræmi við leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem segir að útgáfa stöðuleyfis skuli vera óháð fjölda þeirra gáma sem leyfið nær til.

Af niðurstöðu úrskurðarnefndar í máli nr. 34/2020 má þá ráða að ekki þurfi að sækja um stöðuleyfi vegna geymslu gáma á skipulögðum gámasvæðum á iðnaðarlóð

Gjaldtökuheimild 51. gr. mannvirkjalaga verður skv. úrskurðunum ekki túlkuð á þann veg að fjárhæð gjalds vegna útgáfu stöðuleyfis og tilheyrandi eftirlits ráðist af stærð eða fjölda lausafjármuna sem stöðuleyfið tekur til. Þá er ekki heimild til að innheimta stöðuleyfisgjöld af gámum sem eru á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu gáma í skilningi mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar.

Sveitarfélög endurskoði álagningu

Fjöldi sveitarfélaga innheimtir stöðuleyfisgjöld og ljóst er að fleiri sveitarfélög en Hafnarfjarðarbær hafa innheimt stöðuleyfisgjöld með ólögmætum hætti. Talsvert ósamræmi er á fjárhæð gjaldsins á milli sveitarfélaga. Sveitarfélög rukka mörg hver eftir stærð gáma og allflest sveitarfélög telja sér heimilt að innheimta stöðuleyfisgjald fyrir hvern gám en ekki hvert leyfi líkt og heimildin nær aðeins til.

Að mati Samtaka iðnaðarins ber öllum sveitarfélögum á landinu að endurskoða álagningu stöðuleyfisgjalda í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar og tryggja að gjaldtakan samræmist lögum.

Steinunn Pálmadóttir, lögfræðingur hjá SI.

Morgunblaðið, 17. mars 2021.