Ótal tækifæri í grænum orkusæknum iðnaði
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs hjá Landsvirkjun, skrifa um tækifæri í orkusæknum iðnaði í Morgunblaðinu.
Á Íslandi eru ótal tækifæri til atvinnuuppbyggingar í grænum orkusæknum iðnaði. Í fyrri grein Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins var fjallað um þau grænu tækifæri sem felast í gagnaversiðnaði, en tækifærin eru sannarlega fleiri. Græn og endurnýjanleg orka gefur okkur kost á að framleiða græn og heilnæm matvæli. Sama græna orkan gefur okkur færi á að hætta tugmilljarða króna innkaupum á bensíni og olíu á hverju ári og framleiða vetni og annað umhverfisvænt eldsneyti. Þá kallar rafbílavæðingin á stóraukna framleiðslu á rafhlöðum. Allt eru þetta tækifæri sem ætti að sækja til að skjóta styrkari stoðum undir hagkerfið um leið og við leggjum enn meira af mörkum í baráttunni gegn loftslagsvánni þar sem við njótum sérstöðu á heimsvísu með framleiðslu og nýtingu grænnar orku. Um leið skapast ný, eftirsótt störf, aukin verðmæti og orkusjálfstæði landsins verður tryggt.
Hátæknimatvæli
Til að sporna við loftslagsáhrifum og vinna að sjálfbærni er matvælaframleiðsla heimsins í endurskoðun. Miklar breytingar blasa við í einni stærstu iðngrein heims. Hér á landi höfum við gott aðgengi að raforku frá endurnýjanlegum auðlindum og varma frá jarðhita. Þá sérstöðu getum við nýtt til að byggja upp hátæknimatvælaframleiðslu.
Við höfum um aldir stundað hefðbundna matvælaframleiðslu til að fæða þjóðina og til útflutnings. Við getum byggt á þeim sterka grunni, sótt fram og byggt upp fleiri greinar innan matvælaframleiðslu með okkar grænu orku og hreina vatni. Ræktun í hátæknigróðurhúsum, örþörungaræktun, framleiðsla próteina, ýmis líftækni, þurrkun, frostþurrkun, eiming og úrvinnsla eru aðeins nokkur dæmi um þau tækifæri sem bíða þess að vera sótt.
Til mikils er að vinna því með hátæknimatvælaframleiðslu hér á landi getum við framleitt matvæli með minna umhverfisfótspor, bætt nýtingu orkuauðlinda, tengt saman þekkingu úr hefðbundinni matvælaframleiðslu við hátæknimatvælaframleiðslu, skapað ný og eftirsótt störf um land allt og aukið útflutningstekjur.
Vetni og annað rafeldsneyti
Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þarf að leita fleiri grænna orkugjafa til að knýja stærri farartæki svo sem flutningabíla, vinnuvélar, skip og flugvélar á umhverfisvænan hátt, enda er rafvæðing slíkra tækja ekki fýsileg í öllum tilvikum. Framleiðsla græns eldsneytis, svo sem vetnis eða annars rafeldsneytis í formi ammóníaks, metanóls eða metans er dæmi um fleiri græn tækifæri sem bíða þess að vera sótt.
Vetnis- og rafeldsneytisframleiðsla krefst mikillar orku og eftirspurn eftir grænu vetni, sem framleitt hefur verið með rafgreiningu vatns og endurnýjanlegri orku, er talin fara vaxandi á komandi árum samhliða markmiðum í loftslagsmálum. Samkvæmt orkustefnu Íslands ætlum við að vera laus við jarðefnaeldsneyti svo sem olíu og bensín sem helstu orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2050.
Við erum enn komin stutt á veg í framleiðslu á grænu eldsneyti en tækifærin eru til staðar.
Vinnsla græns eldsneytis hefur margvíslegan ávinning í för með sér: Samdráttur í innflutningi á bensíni og olíu þýðir minni losun gróðurhúsalofttegunda og gjaldeyrissparnað fyrir þjóðarbúið. Við gætum með tímanum orðið algjörlega orkusjálfstæð.
Rafhlöðuframleiðsla
Rafbílum fjölgar ört og sú þróun kallar á stóraukna framleiðslu á rafhlöðum. Rafhlöðufyrirtæki svipast nú um eftir heppilegum framleiðslustöðum í Evrópu. Í þeirra hópi eru bæði rótgróin rafhlöðufyrirtæki og önnur sem eru að hefja framleiðslu. Ísland er góður kostur fyrir rafhlöðuframleiðslu, sem er orkusækin, skapar mörg störf og þarf stórt landsvæði. Þá leggja mörg fyrirtæki áherslu á lágt kolefnisspor framleiðslunnar sem græna orkan okkar getur tryggt. Staðsetning landsins milli Evrópu og Ameríku er einnig styrkur.
Sækjum tækifærin
Með frekari uppbyggingu gagnavera, framleiðslu á hátæknimatvælum, vetnis- og rafeldsneyti og rafhlöðum hér á landi væri fjölbreyttari stoðum skotið undir atvinnulífið með aukinni verðmætasköpun, um leið og við tökum virkan þátt í orkuskiptum heimsins. Að öllu framansögðu er óhætt að fullyrða að tækifærin í grænum orkusæknum iðnaði eru fjölmörg. En höfum við það sem þarf til að grípa tækifærin? Nú reynir á samstarfsvilja stjórnvalda, sveitarfélaga og annarra hagaðila að skapa þá umgjörð sem þarf til að hægt verði að byggja enn frekar upp grænan orkusækinn iðnað hér á landi.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs hjá Landsvirkjun.
Morgunblaðið, 8. maí 2021