Ríki í ríkinu
Of fáar íbúðir voru byggðar á undanförnum árum.
Of fáar íbúðir voru byggðar á undanförnum árum. Þessi staðreynd hefur leitt til mikilla verðhækkana á húsnæði, langt umfram launahækkanir. Þetta ógnar ekki einungis efnahagslegum stöðugleika heldur félagslegum stöðugleika enda þurfa allir þak yfir höfuðið. Undanfarin ár hafa launþegar upplifað kaupmáttaraukningu sem er langt umfram það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Sívaxandi húsnæðiskostnaður samhliða lítilli íbúðauppbyggingu undanfarinna ára skekkir þó myndina. Leiguverð hefur hækkað um 23% á síðustu tveimur árum en laun hafa hækkað um 10% á sama tíma. Fólk í lægri tekjuhópum hér á landi greiðir hærra hlutfall ráðstöfunartekna í húsaleigu heldur en sömu tekjuhópar á Norðurlöndum samkvæmt nýlegri greiningu Íbúðalánasjóðs.
Sveitarfélög og ríki þurfa að stíga inn til að bæta úr og vinna með öðrum aðilum á byggingamarkaði til þess að tryggja nægt framboð húsnæðis. Með því að koma húsnæðis- og byggingamálum fyrir í einu ráðuneyti innviða eykst yfirsýn og skilvirkni í málaflokknum, sveitarfélög þurfa að gera ráð fyrir fleiri íbúðum á skipulagi og einfalda þarf stjórnsýsluna auk þess að gera hana skilvirkari til að draga úr töfum og óþarfa kostnaði. Þannig er hægt að byggja rétt húsnæði á réttum stöðum.
Undanfarin ár hefur lítið verið byggt en á næstu árum er mikil þörf fyrir íbúðir. Á næstu tveimur áratugum eða svo þarf að byggja 45 þúsund íbúðir sé horft til spár um fjölgun landsmanna og forsendu um 2,25 íbúa í hverri íbúð eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkur. Á árunum 2010-2017 voru um 2.400 íbúðir byggðar í Reykjavík eða sem samsvarar um 300 íbúðum á ári að meðaltali. Sé tekið tillit til uppbyggingar næstu ára, samkvæmt spá SI, er áætlað að 5.300 íbúðir verði byggðar í Reykjavík 2010- 2020 eða tæplega 500 íbúðir á ári að meðaltali. Þrátt fyrir að flestar íbúðir í byggingu um þessar mundir séu í Reykjavík þá eru það hlutfallslega fáar íbúðir samanborið við nágrannasveitarfélög.
Tafir í skipulagi og hjá byggingafulltrúum sveitarfélaga og kröfur af ýmsu tagi bæði tefja framkvæmdir og leiða beint og og óbeint til viðbótarkostnaðar sem er þvert á það markmið að byggja hagkvæmt húsnæði. Það er þjóðhagslega mikilvægt að bæta þarna úr því kostnaður samfélagsins alls er ansi hár og hleypur hugsanlega á milljörðum á ári hverju ef allt er talið.
Mathöllin á Hlemmi er góð viðbót við fjölbreytta flóru veitingastaða í borginni og gæðir þetta svæði lífi. Reykjavíkurborg stóð fyrir breytingum á húsnæðinu þannig að veitingamenn gætu komið sér fyrir og boðið gestum upp á veitingar. Tafir á veitingu byggingaleyfis, m.a. vegna skipulagsmála, ásamt öðrum ástæðum, leiddu til þess að þetta verkefni tafðist um nærri ár, upphaflega stóð til að hefja starfsemi haustið 2016 en það tókst ekki fyrr en í ágúst 2017. Með öðrum orðum, þá reyndu borgaryfirvöld á eigin skinni hversu óskilvirkt kerfið er. Þetta er ekki bundið við Reykjavík heldur er málum þannig háttað á einn eða annan hátt í mörgum sveitarfélögum. Þetta verður úrlausnarefni kjörinna fulltrúa eftir kosningar.
Á nýlegum fundi samtaka atvinnurekenda með frambjóðendum í Reykjavík var spurt hvort treysta mætti því að breytingar yrðu innan árs þannig að skipulag gerði ráð fyrir fleiri íbúðum og að stjórnsýsla yrði einfölduð og gerð skilvirkari. Allir frambjóðendur nema einn sögðu að bætt yrði úr þessu. Öðru verður þó ekki trúað en að allir frambjóðendur vilji breytingar, sjá til þess að stærsta sveitarfélag landsins geri sitt í uppbyggingu, einfaldi stjórnsýsluna og geri hana skilvirkari þannig að borgin geti sjálf komið sínum verkefnum í gegnum kerfið, ólíkt því þegar Mathöllin á Hlemmi varð að veruleika ári síðar en til stóð. Þannig er dregið úr sóun og unnið að einu helsta hagsmunamáli almennings á Íslandi um þessar mundir.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
ViðskiptaMogginn, 17. maí 2018.