Sækjum tækifærin

29. des. 2020

Sigríðir Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, skrifar um nýsköpun í tímaritinu Áramót.

Við áramót er gagnlegt að staldra við og horfa um öxl. Árið 2020 var tileinkað nýsköpun hjá Samtökum iðnaðarins. Ástæðan er einföld, fjárfesting í nýsköpun mun ráða úrslitum um framtíðarlífskjör á Íslandi. Sú krísa sem kórónuveiran olli virkaði sem eins konar hraðbraut fyrir umbætur, þá sérstaklega í tengslum við aðkomu og aðgerðir hins opinbera í því að efla nýsköpun. Ríkisstjórnin og Alþingi eiga hrós skilið fyrir framsýni í þessum efnum á tímum mikillar varnarbaráttu þar sem hlúa þurfti að því sem fyrir var auk þess að horfa fram á veginn og fjárfesta í hagvexti framtíðar. Stórstígar og tímabærar breytingar voru gerðar á hvötum til nýsköpunar vorið 2020 og ber þar hæst hækkun á endurgreiðsluhlutfalli og þaki vegna fjárfestinga fyrirtækja í rannsóknum og þróun þar sem enn frekar er hvatt til nýsköpunar á forsendum markaðarins. Það, ásamt hækkun á framlögum til Tækniþróunarsjóðs og stofnun Kríu, nýs sjóðs á vegum ríkisins sem mun fjárfesta í vísisjóðum, skapar skýra hvata til aukinnar nýsköpunar í atvinnulífi. Nýsköpun í dag er verðmætasköpun framtíðarinnar og verðmætin, og þar með störfin, verða til í atvinnulífinu. Nýsköpun er þannig eina leiðin fram á við. 

Hugarfar en ekki atvinnugrein 

Höfum í huga að nýsköpun er ekki atvinnugrein. Nýsköpun á sér stað í öllum atvinnugreinum og hjá fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum. Frumkvöðlastarf getur falið í sér mikla nýsköpun. Stór fyrirtæki sem hafa fest sig í sessi geta jafnframt stundað mikla nýsköpun. Flóran hér á landi er mikil, allt frá nýsköpun í tölvuleikjagerð til tækniþróunar í matvælaframleiðslu. 

Hugverkaiðnaður verði öflugasta stoðin 

Á þeim tímamótum sem áramót eru skiptir þó enn meira máli að horfa fram á veginn. Fræjum hefur verið sáð og tími uppskeru hafinn. Hugverkaiðnaður, sem byggir á nýsköpun og hugviti, hefur fest sig í sessi sem fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Áætlað er að greinin muni skapa 140 milljarða í gjaldeyristekjur árið 2020 eða sem nemur 15% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Innan hugverkaiðnaðar eru fyrirtæki í líf-, lyfja- og heilbrigðistækni, tölvuleikjagerð, hugbúnaðarþróun, kvikmyndaframleiðslu, upplýsingatækni og öðrum fjölbreyttum hátækniiðnaði. 

Lengi hefur verið rætt um mikilvægi þess að fjölga stoðunum í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og hefur fjórða stoðin nú skotið rótum. Tækifærin til aukins vaxtar eru óþrjótandi og ef rétt er haldið á spilunum getur hugverkaiðnaður orðið stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar þegar fram líða stundir. Það væri góð efnahagsstefna að setja það í algjöran forgang að þessi sýn verði að veruleika. 

Þær framsýnu aðgerðir sem ráðist hefur verið í og vöxtur hugverkaiðnaðar gefa tilefni til að ætla að bjart sé framundan í íslensku atvinnulífi þrátt fyrir tímabundna erfiðleika nú um stundir. En við getum gert enn betur. Með réttri forgangsröðun og skýrri sýn er hægt að auka líkurnar enn frekar á kröftugri viðspyrnu atvinnu- og efnahagslífs. Sjálfbærri viðspyrnu sem tryggir góð framtíðarlífskjör á Íslandi. Það þarf að skapa 60 þúsund ný störf fram til ársins 2050. Við viljum að hér verði til áhugaverð og verðmæt störf. Með því að skapa skilyrði fyrir frekari vöxt hugverkaiðnaðar verður það raunin en framleiðni í hugverkaiðnaði er hærri en gengur og gerist og með vexti hugverkaiðnaðar verða því til fjölbreytt og eftirsóknarverð störf. Stofnun Össurar markaði eiginlegt upphaf hugverkaiðnaðar á Íslandi en eftirfarandi var haft eftir forstjóra fyrirtækisins í tímariti Samtaka iðnaðarins um nýsköpun í júní 2020: ,,Það er einfaldlega þannig að ef Íslendingar ætla að halda uppi lífskjörum til langs tíma þá þurfum við að einbeita okkur að þeim geirum þar sem er mikil framlegð”. 

Gerum Ísland aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki 

Á þessum tímamótum er vert að huga að næstu skrefum. Við eigum í harðri alþjóðlegri samkeppni um verðmætasköpun og störf og þurfum stöðugt að huga að samkeppnishæfni Íslands í þeirri samkeppni. Tvö nátengd verkefni eru efst á blaði þegar horft er til ársins 2021. Í fyrsta lagi ber að nefna nýfjárfestingu. Á því sviði höfum við verið eftirbátar annarra þjóða undanfarin ár. Með samstilltu átaki, skipulagi og skýrri verkaskiptingu er hægt að snúa blaðinu við. Við höfum nú þegar horft á eftir stórum og arðbærum fjárfestingum til nágrannaþjóða okkar, meðal annars á sviði upplýsingatækni- og gagnaversþjónustu. Dæmi um það eru tugmilljarða fjárfestingar Microsoft í Svíþjóð annars vegar og Google í Danmörku hins vegar. Fjárfestingar sem skapa störf, þekkingu og gjaldeyristekjur fyrir nágrannaríki okkar. 

Í öðru lagi þarf að gera átak í því að laða meiri þekkingu hingað til lands. Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að liðkað verði enn frekar fyrir komu erlendra sérfræðinga og frumkvöðla til Íslands. Það er óhugsandi að byggja upp stór alþjóðleg hátæknifyrirtæki hér án þekkingar utan frá. Þá eru mikil tækifæri fólgin í því að fá hingað frumkvöðla til að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífsins. Sækjum mannauð og þekkingu, fjármagn og beina fjárfestingu hingað til lands. Það er næsta skref í uppbyggingu hugverkaiðnaðar og eflingu nýsköpunar. Sækjum tækifærin.

Sigríðir Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.

Áramót, 29. desember 2020.