Samhljómur í áliti AGS og SI

21. apr. 2021

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar um álit AGS í Markaðinn.

Mikinn samhljóm má finna í nýju áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og áliti Samtaka iðnaðarins á þeim efnahagsvanda sem við okkur blasir. Vil ég nefna fjögur atriði sérstaklega. 

Í fyrsta lagi bendir AGS á að Ísland geti ekki reitt sig á ferðaþjónustu og að of mikil áhersla á ferðaþjónustu hafi verið veikleiki í hagkerfinu. Auka þurfi fjölbreytni í íslensku efnahagslífi. Undir þetta má sannarlega taka og nú er rétti tíminn til að byggja upp nýjar greinar í stað þess að veðja öllu á ferðaþjónustuna og ætla síðar að huga að framtíðinni. Hugum að framtíðinni núna. 

Í öðru lagi telur AGS að besta leiðin til að auka fjölbreytni í íslensku efnahagslífi sé með því að virkja hugvitið í meiri mæli. Það verður gert með áframhaldandi og aukinni áherslu á vöxt hugverkaiðnaðar, með áframhaldandi skattahvötum vegna rannsókna og þróunar, með því að gera frumkvöðlum auðveldara um vik að sækja fjármagn og með því að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga og erlendri fjárfestingu. Þetta rímar við áherslur Samtaka iðnaðarins undanfarin ár. 

Í þriðja lagi bendir AGS á að umbóta sé þörf á vinnumarkaði þannig að Ísland standi betur að vígi í alþjóðlegri samkeppni og styðji við vöxt hugverkaiðnaðar í stað þess að hefta hann. Lítið hefur farið fyrir þessu í umræðunni en það er staðreynd að til þess að auka fjölbreytni í hagkerfinu og skapa ný og eftirsótt störf mun reyna meira á stjórnmálamenn og aðila vinnumarkaðarins að skapa alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi hér á landi. Það er í anda þess að auka verðmætasköpun – stækka kökuna – en ekki bara að takast á um skiptingu takmarkaðra gæða sem er oftar en ekki ráðandi. 

Í fjórða lagi er staðan á húsnæðismarkaði AGS umhugsunarefni og er varað við of hitnun markaðarins. Það er alveg ljóst að vandinn verður ekki leystur nema með því að byggja fleiri íbúðir. Úrræði til að draga úr eftirspurn duga ekki. Það gerist á sama tíma og þörf er á auknum umsvifum í hagkerfinu. Kastljósið beinist nú að sveitarfélögunum. Það þarf fleiri lóðir og það þarf hraðari afgreiðslu mála. Annars er hætt við ófremdarástandi á húsnæðismarkaði næstu árin. 

Ný sókn atvinnulífsins og endurreisn efnahagskerfisins er fram undan. Öllu skiptir að við lærum af fortíðinni og nýtum tækifærið nú til að byggja undir fjölbreyttara og sterkara atvinnulíf í stað þess að leitast við að endurreisa hagkerfið eins og það var. Leið vaxtar er farsælasta leiðin.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Markaðurinn / Frettabladid.is, 21. apríl 2021