Samkeppnisrekstur opinberra aðila

19. maí 2021

Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, skrifar um samkeppnisrekstur opinberra aðila í ViðskiptaMoggann.

Ein af lykilforsendum þess að íslenskt atvinnulíf dafni og samkeppnishæfni þess aukist er að fyrirtæki starfi í virkri og heilbrigðri samkeppni. Ljóst er að í litlu hagkerfi og fámenni eru ýmsar áskoranir sem mikilvægt er að huga sérstaklega að. Draga þarf úr aðgangshindrunum á markaði og tryggja að öll fyrirtæki starfi eftir sömu leikreglum. Leikreglum sem stjórnvöld setja og framfylgja. Markmiðið er að búa til heilbrigðan samkeppnismarkað sem er til þess fallinn að lækka verð, auka gæði, bæta þjónustu og stuðla að nýsköpun. Það eru auk þess fyrirtækin á þessum markaði sem sækja tækifæri út fyrir landsteinana og skapa nauðsynlegar útflutningstekjur. 

Samhliða því að reglusetja hina ýmsu markaði, ýmist með sér-íslenskum reglum eða reglum innri markaðsins, starfa ríkið og sveitarfélög á samkeppnismarkaði. Fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga og opinberar stofnanir selja þjónustu og vörur í beinni samkeppni við fyrirtæki. Hið opinbera hefur lengi vera beinn þátttakandi í íslensku atvinnulífi og spannar samkeppnisrekstur hins opinbera nokkuð breitt svið. Allt frá meðhöndlun úrgangs til veitingar fjármálaþjónustu. Ennfremur er form samkeppnisrekstursins ólíkt og þykir sumum óljóst hvort í reynd sé um samkeppnisrekstur að ræða. Hér má nefna ráðgjafarþjónustu ríkisstofnana til annarra stofnana, gegn gjaldi. 

Opinberum samkeppnisrekstri fylgja margar áskoranir og ljóst að með honum þarf að fylgjast sérstaklega. Ástæðan er einföld. Jafnræði er raskað, ef ekki er sérstaklega að gáð, ýmist með niðurgreiðslu úr almannasjóðum, skattaundanþágum, beinum samningum án útboða o.s.frv. Hér gegnir Samkeppniseftirlitið lykilhlutverki en eftirlitið hefur heimildir til að tryggja að opinber fyrirtæki niðurgreiði ekki samkeppnisrekstur sinn af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar, sbr. 14. gr. samkeppnislaga nr. 44/ 2005. Þessi heimild er mikilvæg en vannýtt. Enn fremur hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að grípa til aðgerða gegn athöfnum opinberra aðila hafi þær skaðleg áhrif á samkeppni. Sú staða að ríki og sveitarfélög starfi á samkeppnismarkaði getur, ein og sér, haft neikvæð áhrif á samkeppni á viðkomandi markaði, sér í lagi þegar félög í eigu hins opinbera hafa yfirburðastöðu og rekstur þess felur í sér aðgangshindrun á markað. 

Það er því eðlilegt að meta stöðugt þörf fyrir samkeppnisrekstur opinberra aðila og hvort gera þurfi breytingar á rekstri þeirra til að ná því markmiði að styrkja samkeppni, með öllum þeim ábata sem því fylgir. Það er ennfremur eðlilegt að meta hvort yfirhöfuð sé fýsilegt að opinberir aðilar starfi í beinni samkeppni við einkaaðila. Oft er við það miðað að ríkið starfi á mörkuðum þar sem markaðsbrestur ríkir og tryggja þarf að tiltekin þjónusta eða vara sé tiltæk. Þessi viðmið eru þó ekki einhlít og ljóst að opinberir aðilar starfa á markaði þar sem enginn markaðsbrestur ríkir og samkeppni er virk. Má þar nefna framleiðslu á malbiki og viðhald á götulýsingum. 

Stefnumörkun ríkis og sveitarfélaga um samkeppnisrekstur sinn þarf að vera skýr og þarf að setja skýr viðmið um það hvenær og með hvaða hætti metin sé þörf fyrir reksturinn og hvort ástæða sé til að gera á honum breytingar. Nú fyrir skemmstu birtu stjórnvöld til umsagnar almenna eigandastefnu fyrir öll félög í eigu ríkisins. Þrátt fyrir að lítið sé fjallað um samkeppnisrekstur slíkra félaga er þar tiltekið að eigi ríkið eignarhluta í félögum skuli eins og kostur er miða að því að efla og styrkja samkeppni á viðeigandi markaði. Ekki er hinsvegar tekin afstaða til þess til hvaða aðgerða eigi að grípa til að bregðast við þegar rekstur opinbers fyrirtækis veikir samkeppni á markaði eða þegar engin samfélagsleg þörf er á slíkum rekstri. Skýr stefnumörkun á þessu sviði er nauðsynleg. Hinu opinbera ber að setja skýr viðmið um það hvernig slík fyrirtæki eigi að starfa á markaði.

Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI.

ViðskiptaMogginn, 19. maí 2021.