Samtök iðnaðarins
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar áramótapistil í ViðskiptaMoggann.
Iðnaður er stærsta atvinnugrein landsins og þar undir rúmast fjölbreytt starfsemi í hugverkaiðnaði, byggingariðnaði, framleiðsluiðnaði og handiðnaði. Þau eru því margar og ólíkar áskoranir sem blasa við fyrirtækjum í iðnaði en bætt samkeppnishæfni sem byggist á umbótum í menntun, innviðum, nýsköpun og starfsumhverfi sameinar fyrirtækin. Ljóst er að kjarasamningar verða ein stærsta áskorun nýs árs þar sem tekist verður á um það hvort nóg sé til skiptanna eða um að auka verðmætasköpun. Iðnaðurinn hefur trú á hinu síðarnefnda.
Eitt helsta viðfangsefni nýs árs verður að hraða uppbyggingu húsnæðis en ástandið á fasteignamarkaði hefur kynt undir óstöðugleika og verðbólgu. Miklar væntingar eru bundnar við nýtt innviðaráðuneyti í þeim efnum en sveitarfélögin þurfa að sýna meiri ábyrgð í málaflokknum með ákvörðunum í skipulagsmálum, hraðari leyfisveitingum og auknu framboði lóða. Á árinu hafa orðið talsverðar umbætur í byggingamálum þar sem regluverk hefur verið einfaldað og Mannvirkjaskrá tekin í notkun þar sem yfirsýn fæst á húsnæðis- og byggingamarkaðinn. Fyrir hönd Samtaka iðnaðarins vona ég að árið 2022 geti orðið síðasta árið þar sem við teljum íbúðir í byggingu.
Hugverkaiðnaður hefur blómstrað á líðandi ári þar sem saman fara öflugir frumkvöðlar og stórbætt umgjörð nýsköpunar þar sem stjórnvöld hafa veðjað á hugvitið. Það veðmál getur skilað landsmönnum varanlegri aukningu á lífsgæðum. Það sárvantar fólk til starfa í hinum vaxandi hugverkaiðnaði og tefur það vöxt. Stjórnvöld eiga að festa umgjörð nýsköpunar í sessi og fjölga sérfræðingum á vinnumarkaðnum, jafnt innlendum sem erlendum, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum.
Aðgerða er þörf í orkumálum. Uppbygging raforkukerfis verður viðfangsefni nýs árs. Staðan er einfaldlega sú að meira og minna öll orka sem er framleidd er seld og því til viðbótar er treyst á yfir hálfrar aldar gamla byggðalínu til að koma orku á milli staða. Niðurstaðan er sú að skerða hefur þurft orku til notenda og óveður veldur rafmagnsleysi í marga daga.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
ViðskiptaMogginn, 29. desember 2021.