Síðasta átakið í húsnæðismálum

19. maí 2021

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, skrifa um húsnæðismál í Markaðinn.

Undanfarin 100 ár hefur reglulega verið ráðist í átak við uppbyggingu húsnæðis á Íslandi, oft í tengslum við alvarlegan húsnæðisskort. Sveiflur hafa einkennt byggingariðnað en þær eru samfélaginu kostnaðarsamar og því er til mikils að vinna að uppbygging húsnæðis verði stöðug og í takt við þarfir markaðarins hverju sinni. Sú umgjörð sem stjórnvöld – bæði ríki og sveitarfélög – hafa mótað ýtir undir óstöðugleika og því verður að breyta. Skortur á yfirsýn og á eignarhaldi á málaflokknum leikur stórt hlutverk en kjarni máls er sá að núverandi starfsumhverfi byggingarmála er óskilvirkt og óhófleg reglubyrði eykur flækjustig sem hækkar kostnað. Boðleiðir eru of langar og ferlið að fyrstu skóflustungu er of tímafrekt. Niðurstaðan er sú að húsnæði er dýrara en það þyrfti að vera og þetta hefur ekki einungis áhrif á efnahagslífið – enda er byggingariðnaður um 8% af landsframleiðslu – heldur hefur þetta mikil áhrif á vinnumarkaðinn. Umgjörð byggingarmarkaðarins er því beinlínis áhættuþáttur í hagstjórn á Íslandi og því þarf að breyta. Og það er hagur allra að við breytum þessu í sameiningu því stöðugleiki á húsnæðismarkaði kæmi hinu opinbera ekki síst vel sem stórum launagreiðenda á Íslandi.

Enginn má láta sitt eftir liggja

Átakshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði skilaði 40 tillögum að úrbótum í janúar árið 2019. Í tengslum við undirritun Lífskjarasamninga nokkrum mánuðum síðar lýsti svo ríkisstjórnin yfir vilja til að vinna að innleiðingu tillagnanna. Með sameiningu málaflokka hjá ráðuneytum og stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur margt jákvætt gerst og stór skref verið tekin í rétta átt. Stór vandamál eru þó enn til staðar, ekki síst sem lúta að eftirfylgni sveitarfélaganna sem fara með skipulagsvald, leyfisveitingar, vinnslu húsnæðisáætlana og lóðamál. Vonandi verður þetta síðasta átaksverkefnið í húsnæðisuppbyggingu en til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélög að vinna saman að nauðsynlegum og tímabærum umbótum. Til viðbótar þessum tillögum þá vann OECD tillögur til úrbóta varðandi byggingarmarkaðinn hér á landi og á eftir að hrinda þeim tillögum í framkvæmd.

Þjóðhagsráð fjallar um stöðuna

Staðan á húsnæðismarkaði einkennist af skorti á íbúðum með tilheyrandi verðhækkunum. Þjóðhagsráð fjallaði um húsnæðismál á nýlegum fundi sínum en aðilar vinnumarkaðarins, ríki, sveitarfélög og Seðlabanki eiga aðild að þeim vettvangi. Þar eru því samankomnir þeir aðilar sem hafa það í hendi sér að koma á langþráðum stöðugleika á húsnæðismarkaði. Það fór vel á því enda snúa húsnæðis- og byggingamál að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika sem er viðfangsefni Þjóðhagsráðs. Á þeim fundi kynnti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eftirfylgni við tillögur átakshópsins og greiningu á stöðunni á húsnæðismarkaði. Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins hafa fylgt þessum málum ötullega eftir og unnu greinargerð um stöðuna. Þar má finna 36 tillögur í heildstæðri nálgun til að tryggja stöðuga uppbyggingu húsnæðis og voru þær tillögur kynntar Þjóðhagsráði. Vandinn er að það vantar fleiri íbúðir á markaðinn og hann verður einungis leystur til lengri tíma með því að ráðast að rót vandans sem liggur í umgjörðinni.

Tíminn er núna

Eftir höfðinu dansa limirnir. Með því að sameina þá málaflokka sem snúa að uppbyggingu í einu ráðuneyti fæst yfirsýn og skýr ábyrgð á málaflokknum. Það er best gert með því að færa húsnæðis- og byggingamál yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og færa skipulagsmál yfir í sama ráðuneyti. Í kjölfar kosninga er tækifæri til þessara breytinga. Þannig yrði til öflugt innviðaráðuneyti sem bæri ábyrgð á uppbyggingu húsnæðis, vega og mannvirkja, fjarskiptum og sveitarstjórnarmálum. Samhliða þessu þyrfti að huga að auknu samstarfi eða sameiningu stofnana sem hafa með þessu mál að gera. Sveitarfélögin þurfa að taka aukna ábyrgð, innleiða stafrænar lausnir, hraða leyfisveitingum og auka framboð á lóðum. Auka þarf yfirsýn á markaðinn með greinargóðum rauntímaupplýsingum um íbúðir í byggingu og einfalda regluverkið enn frekar. Vandinn er ljós, afleiðingar hans eru ljósar og lausnirnar liggja fyrir. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Markaðurinn / Frettabladid.is, 19. maí 2021.