Sjálfbær iðnaður

8. ágú. 2019

Aukin samkeppnishæfni Íslands er keppikefli fyrir landsmenn alla þar sem verðmæti aukast og meira verður til skiptanna.

Aukin samkeppnishæfni Íslands er keppikefli fyrir landsmenn alla þar sem verðmæti aukast og meira verður til skiptanna. Í nýsamþykktri stefnu stjórnar Samtaka iðnaðarins er fjallað um þetta og sem fyrr áhersla á menntun í takt við þarfir atvinnulífs, trausta innviði, stöðuga nýsköpun og hagkvæmt, stöðugt og skilvirkt starfsumhverfi. Í fyrsta sinn fá umhverfis- og loftslagsmál sérstakan sess í stefnunni enda lætur íslenskur iðnaður sig það málefni varða eins og fjölmörg dæmi bera vitni um. 

Framtíðarsýn stjórnar Samtaka iðnaðarins felst í því að Ísland sé fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum sem geti skapað íslenskum iðnaði samkeppnisforskot. Leiðin að minni losun gróðurhúsalofttegunda er eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Mikill árangur hefur náðst hér á landi á síðustu áratugum, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og orkuvinnslu. Því til viðbótar hafa fyrirtæki mikinn vilja og metnað til að gera enn betur og meira og stuðla þannig að kolefnishlutleysi árið 2040 í samræmi við stefnu stjórnvalda. Þessi aukna áhersla mun m.a. leiða til nýsköpunar og þróunar í grænni tækni og snjöllum samgöngum. 

Flutningar á vörum milli landa hafa sín áhrif á umhverfið með losun gróðurhúsalofttegunda, jafnt skipaflutningar sem og flug. Framleiðsla nær mörkuðum er því oftar en ekki umhverfisvænni auk jákvæðra samfélagslegra áhrifa. Þessu til viðbótar nýtur Ísland sérstöðu því hér á landi er raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og losun gróðurhúsalofttegunda því með minnsta móti ólík því sem gengur og gerist víðast hvar annars staðar. 

Stjórnvöld hafa skýr markmið í loftslagsmálum og vinna nú að því að innleiða sjálfbærni hugsun í alla opinbera stefnumótun. Þarna fara áherslur stjórnvalda og iðnaðarins saman og ætti þetta að vera stjórnvöldum hvatning til að velja innlenda framleiðslu í meira mæli enda eyðir hið opinbera um 40 krónum af hverjum 100 krónum í hagkerfinu. Þannig geta stjórnvöld haft jákvæð áhrif á umhverfið og stutt við sjálfbærni.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI

Morgunblaðið, 8. ágúst 2019.