Skattspor iðnaðarins stærst af öllum útflutningsgreinum
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar um skattspor iðnaðarins í sérblaði Viðskiptablaðsins um Iðnþing 2024.
Skattspor iðnaðarins, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna, er umfangsmikið enda greinin stór hér á landi. Nam heildarskattspor iðnaðar 462 mö.kr. árið 2022 samkvæmt niðurstöðum Reykjavík Economics en Samtök iðnaðarins (SI) fengu fyrirtækið til þess að reikna skattspor iðnaðarins fyrir árið 2022 með sambærilegum hætti og hefur verið gert fyrir aðrar atvinnugreinar. Verður skýrsla Reykjavík Economics birt á næstunni. Í heild nam skattspor iðnaðar um fjórðungi af heildarskatttekjum hins opinbera á árinu 2022 og tæplega helming af verðmætasköpun iðnaðar það ár.
Iðnaður ríflega fjórðungur verðmætasköpunar hagkerfisins
Framlag iðnaðarins til lífskjara hér á landi má mæla með ýmsum hætti. Hið stóra skattspor iðnaðarins endurspeglar þá staðreynd að umfang iðnaðar er mikið í íslensku efnahagslífi en iðnaður stendur undir 26% verðmætasköpunar hagkerfisins. Hefur hlutur greinarinnar í verðmætasköpun hagkerfisins hefur verið að aukast síðustu ár.
Ljóst er að virðiskeðja iðnaðarins hefur mikil og jákvæð áhrif á starfsemi fyrirtækja fyrir utan greinina. Vægi greinarinnar í landsframleiðslu og þar með skatttekjum hins opinbera er því meira en ofangreindar tölur um hlutdeild í landsframleiðslu og skattspor sýna ef óbein áhrif greinarinnar eru tekin með.
Greinin stendur undir um þriðjungi af heildarveltu allra fyrirtækja hér á landi en í fyrra nam velta hennar 2.066 milljörðum króna. Skýrir það stórt skattspor greinarinnar í veltutengdum sköttum. Greiddi greinin í þessu sambandi 248 ma.kr. í útskatt virðisaukaskatts á árinu 2022. Var þröng skilgreint skattspor iðnaðar, þ.e. án virðisaukaskatts, því 213 ma.kr. á því ári.
Greinin leggur einnig mikið til atvinnusköpunar hér á landi og er í því sambandi skattspor hennar m.t.t. vinnuaflstengdra skattgreiðslna hátt eða 167 ma.kr. árið 2022. Í iðnaði starfa um 51 þúsund sem eru ríflega einn af hverjum fimm starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Laun í greininni eru há og yfir meðallaunum í hagkerfinu. Endurspeglar það háa framleiðni vinnuafls í greinum iðnaðar.
Iðnaðurinn er stærsta útflutningsgreinin
Framlag iðnaðar til samfélagsins og góðra lífskjara hér á landi má mæla með fleiri þáttum. Það er óhugsandi að Ísland gæti skapað þau lífsgæði sem eru hér á landi í dag án útflutnings. Íslendingar flytja inn mikið af því sem þarf til neyslu og fjárfestinga og því þarf útflutning. Útflutningur er því forsenda góðra lífskjara hér á landi.
Iðnaðurinn er stærsta útflutningsgreinin. Aflaði hún í fyrra 699 mö.kr. í útflutningstekjur eða sem nemur 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Útflutningstekjur greinarinnar hafa aukist mikið á síðustu árum en þær fóru í fyrsta sinn yfir 300 ma.kr. árið 2010. Af öllum útflutningsgreinum hagkerfisins er skattspor iðnaðarins stærst.
Þungar álögur draga úr samkeppnishæfni
Iðnaðurinn leggur sitt af mörkum til samfélagsins og gerir það m.a. í gegnum greiðslu skatta. Greinin og þau fyrirtæki sem hana mynda eru hins vegar ekki botnlaus brunnur skatttekna fyrir hið opinbera. Ríflega 40% verðmætasköpunar íslenska hagkerfisins rennur til stjórnvalda í formi skatta og gjalda. Hlutfallið er hátt í alþjóðlegum samanburði. Álögur hins opinbera á heimili og fyrirtæki í landinu í formi skatta og gjalda eru því miklar í samanburði við flest önnur ríki.
Álögur á íslensk fyrirtæki eru af ýmsum toga og margar mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Háir skattar og gjöld eru byrði á fyrirtækin og draga úr samkeppnishæfni þeirra. Með lækkun þessara álaga má efla fyrirtækin til aukinnar verðmætasköpunar. Stefna stjórnvalda þar sem leiðarljósið er lágir skattar og gjöld í samanburði við helstu samkeppnislönd eflir samkeppnishæfni fyrirtækja.
Iðnaðurinn á stóran þátt í tvöföldun lífsgæða síðustu 30 árin
Iðnþing SI í ár ber yfirskriftina Hugmyndalandið - dýrmætasta auðlind framtíðar. Áherslan er á að lífsgæði sem við njótum í dag byrjuðu sem hugmyndir fyrri kynslóða. Í því ljósi er vert að hugsa til þess, á 30 ára afmælisári SI, að frá stofnun samtakanna hefur verðmætasköpun hagkerfisins aukist á föstu verði um nær 2.900 ma.kr. og landsframleiðsla á mann nær tvöfaldast, þ.e. farið úr því að vera ríflega 6 m.kr. í nær 12 m.kr. í ár.
Þessi stórbættu lífsgæði hafa tryggt Íslandi sæti meðal þjóða heims þar sem lífsgæði eru mest. Hefur það verið ráðandi þáttur í því að fólk sækir í að búa hér og starfa en landsmönnum hefur fjölgað um 118 þúsund manns á þessu tímabili eða um 45% sem er mun meiri fólksfjölgun en við sjáum í flestum öðrum löndum.
Ljóst er að iðnaðurinn hefur átt veigamikinn þátt í þeim jákvæðu breytingum sem hafa orðið á lífsgæðum landsmanna enda er hlutdeild greinarinnar í verðmætasköpun þjóðarbúsins hátt og hefur greinin vaxið mikið og breyst á þessu tímabili.
Auknar útflutningstekjur eiga stóran þátt í bættum lífsgæðum landsmanna síðustu þrjá áratugina. Tvær af fjórum útflutningsstoðum hagkerfisins tilheyra iðnaði, hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður en útflutningstekjur beggja hafa vaxið umtalsvert á þessum tíma. Nýjar fjárfestingar og framfarir hafa stóraukið útflutning orkusækins iðnaðar á tímabilinu. Því til viðbótar hefur hugverkaiðnaðurinn haslað sér völl sem fjórða stoð útflutningstekna þjóðarinnar en greinin hefur meira en fimmfaldað útflutningstekjur sínar á síðastliðnum fimmtán árum en á síðasta ári námu þær 265 mö.kr.
Tekjur iðnaðarins hafa aukist verulega á síðustu 30 árum, þá bæði útflutningstekjur sem og tekjur á innlendu vettvangi. Greinin hefur skapað fjölmörg ný störf á tímabilinu og þannig lífsviðurværi fyrir marga landsmenn. Þessu til viðbótar hefur iðnaðurinn byggt innviði og stuðlað að tækniframförum með nýsköpun á tímabilinu sem skapa verðmæti og auka möguleika almennings til atvinnu og bættra lífsgæða. Greinin hefur einnig aflað mikilla skatttekna en í skýrslu Reykjavik Economics kemur fram að uppsafnað heildarskattspor iðnaðarins á tímabilinu 2017 til 2022 nemur 2.441 mö.kr. á verðlagi ársins 2022. Þröngt skilgreint, þ.e. án virðisaukaskatts, er uppsafnað skattspor á þessum tíma 1.048 ma.kr.
Hvernig endurtökum við leikinn?
Í ljósi þeirra miklu breytinga á lífsgæðum þjóðarinnar á síðustu þremur áratugum og hvert framlag iðnaðarins hefur verið í því er vert að velta fyrir sér hver lífsgæðin verða eftir 30 ár. Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess að treysta megi velsæld og lífsgæði til framtíðar. Hvernig tekst til mótast af því hvort okkur takist að láta hugmyndir verða að veruleika og skapa verðmæti í framtíðinni. Niðurstaðan er m.a. í höndum hagstjórnaraðila og markast af því hversu vel gengur að skapa samkeppnishæf skilyrði fyrir fyrirtæki til að vaxa hér á landi.
Hvað þarf til að auka verðmætasköpun á mann aftur um 6 m.kr. á næstu 30 árum? Spár gera ráð fyrir að landsmenn verði þá orðnir 550 þúsund. Merkir þetta að til að auka landsframleiðslu á mann um 6 m.kr. þarf landsframleiðsla í heild að aukast um nær 120% á tímabilinu. Það verður ekki gert án þess að auka útflutning en líklegast þarf að tvöfalda hann á þessum tíma ef markmið um 6 m.kr. aukningu á að nást.
Til að ná ofangreindu markmiði í aukningu lífskjara þarf að leggja áherslu á þau málefni sem helst auka samkeppnishæfni landsins. Þau málefni sem mestu skipta eru mannauður, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi en einnig orku- og umhverfismál. Með umbótum stjórnvalda á þessum sviðum eflist geta hagkerfisins til að skapa verðmæti. Með réttum áherslum mun iðnaðurinn ekki á láta sitt eftir liggja á næstu áratugum og leggja áfram ríflega til aukinna lífsgæða landsmanna.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.
Sérblað Viðskiptablaðsins um Iðnþing 2024, 6. mars 2024.